Flokkur: Plötudómar

Plötudómar á Harðkjarna

Zao – The Well-Intentioned Virus (2016)

Zao – The Well-Intentioned Virus
Observed/Observer 2016

Bandaríska harðkjarnasveitin Zao er ein af þeim sveitum sem vekur alltaf mikla tilhlökkun hjá mér þegar fréttir berast að nýjum útgáfum. Að mínu mati hefur sveitin aðeins tekið eitt feilskref á ferlinum, en það var við útgáfu seinustu breiðskífu seinnar Awake? sem mér þótt afar slöpp útgáfa, en miðað við seinustu útgáfu sveitarinnar (EP platan Xenophobe frá því í fyrra) get ég ekki gert ráð fyrir öðru en hér sé sveitin komin aftur á þann stall sem hún hefur staðið með stolti alla sína tíð.

Fyrir þá einstaklinga sem ekki þekkja til eru rætur sveitarinnar í kristnum harðkjarna og þá meina ég KRISTNUM, en textar og umfjöllunarefni sveitarinnar snérist á þeim um kristindóm og allt sem tengist “sönnum kristnum gildum”. En meðlimaskipan, tími og hugsunarbreyting í sveitinni hefur breytt sveitinni úr hefðbundnu kristnu harðkjarna bandi í eitt af áhrifamestu harðkjarnaböndum sögunnar.

Þessi sveit hefur mér verið hugfanginn hátt í annan áratug, enda hafa breiðskífur á borð við Where Blood and Fire Bring Rest, Self-Titled (já hún heitir það), Parade of Chaos, The Funeral of God og The Fear Is What Keeps Us Here verið mjög hátt skrifaðar í mínu plötusafni. En núna eru 7 ár frá seinustu útgáfu og spurning hvort The Well-Intentioned Virus nái að viðhalda þeim gæðum sem sveitin er hvað þekktust fyrir.

Platan byrjar rólega á laginu The Weeping Vessel, en breytist brátt í þá þá þrumu sem lagið er, en lagið fjallar eins og svo mörg lög sveitarinnar um viðkvæmtog persónuleg vandamál söngvara sveitarinnar, sem í þessu tilfelli er fósturlát fyrsta barns söngvarans, með þessarri vitneskju breytist lagið úr hörðu og snúnum rokkslagara í dimma og harða tilveru lífsins. Miðað við núverandi stjórnmálaástand í heimalandi sveitarinnar næst betri skilningur á bæði titilagi og titli plötunnar, en lagið fjallar um fólk sem í upphafi gerir eitthvað í góðum tilgangi á meðan síðarmeir er litið gjörðir þessa sama fólks sem eitthvað illt. Platan er í heild sinni mun betri og fjölbreyttari umfram mínar björtustu vonir og í kjölfarið mun harðari.

Þessi plata er tormellt eyrnakonfekt sem verður betri með hverri hlustun. Þau lög sem sveitin gaf út á EP plötunni Xenophobe eru að finna í nýrri útgáfu á þessarri plötu og hljóma sérstaklega vel í þessum upptökum, en passa samt vel í heildarmyndina sem þessi plata er, sem er hreinu unun.

Hangman’s Chair – This Is Not Supposed To Be Positive (2015)

Music Fear Satan 2015

Franska hljómsveitin Hangman’s Chair kom hingað til lands ekki alls fyrir löngu, en náð ekki að heilla mig þá. Ég var því ekkert að flýta mér að hlusta á nýjustu plötu sveitarinnar “This Is Not Supposed To Be Positive”, en satt best að segja sé ég mikið eftir því, þar sem hér er á ferð breiðskífa sem ég hef gjörsamlega fallið fyrir. Franskt þungarokk í hvaða formi sem er er að koma sterkt inn síðustu ár og þar eru Hangman’s Chair framarlega í flokki, sérstaklega mikiðað við þessa nýju plötu.

Titill plötunnar “This Is Not Supposed To Be Positive” segir rosalega mikið, því þetta eru ekki upphefjandi lög sem færa birtu í hjarta áheyrenda, hér hlustum við á þunglyndi í sínu listræna formi, og nánast fullkomnu formi. Lög á borð við Flashback gera þessa plötu þess virði að fjárfesta í á hvaða degi sem er, enda angurvært slagari sem gefur manni smá von þrátt fyrir þunglyndislegan undirtón. Aðdáendur hljómsveita á borð við Life Of Agony, Alice in Chains (lagið Save yourself) og jafnvel Type O Negative, þar sem þetta er breiðsífa sem getur farið með mann í djúpa og tilfiningaríkaferð um sálarlífið.

Þessi plata kom mér á óvart, virkilega á óvart og hefði ég hlustað á hana fyrr hefði hún verið ofarlega á toplista árins 2015 hjá mér.

Framúrskarandi:
Flashback
Your Stone

Killswitch Engage – Incarnate (2016)

2016 Roadrunner

Fyrsta breiðskífa hljómsveitarinnar Killswitch Engage var eitthvað sem ég hugsa enn til með mikilli hrifningu, þar var sveitin fersk og full af eldmóð. Ekki versnaði áhugi minn á sveitinni við næstu útgáfu, þeirra fyrstu á Roadrunner plötunni, Alive or Just Breathing (2002) sem var einnig mögnuð útgáfa frá byrjun til enda. Meira að segja þegar söngvarinn Howard Jones tók við af Jesse Leach var ég sáttur við sveitina, en síðan fór sveitin að missa forskotið, fór að endurtaka sig og jafnvel gefa út breiðskífur sem ég reyndi mitt besta að hlusta á án þess að missa lífsviljann (kannski svolítið ýkt, en þið skilið.. þetta var slæmt.).

Í mars mánði sendi sveitin frá sér sína sjöundu breiðskífu, Incarnate, og því forvitnilegt hvort að önnur breiðskífa sveitarinnar eftir að Howard Jones yfirgaf sveitina (og Jessie Leach kom aftur) nái að grípa mann eins og fyrstu skífur sveitarinnar gerðu…. stutta svarið er nei.

Ekki misskilja. Þetta er ekki slæm plata, alls ekki þeirra versta, en samt langt frá því besta. Sterkasti hluti plötunnar er að mínu mati Jesse Leach söngvari, vídd hans sem söngvari er mikil enda getur hann öskrað eins og geðsjúklingur og strax farið yfir í háu tónana eins lærður klassískur söngvari. Það sem vantar upp á hjá sveitinni er að taka meiri áhættur, prufa eitthvað nýtt og ferskt, hvort sem það er enn meira popp eða bara hreint dauðarokk, því annars virkar þetta eins og ljósrit af fyrra efni, sem dofnar með hverri ljósritun. Lögin sem standa upp úr á plötunni eru lögin sem víkja frá formúlunni (þó ekki nema að litlu leiti), lög eins og The Great Deceit (sem hljómar eins og eitthvað af fyrstu plötum sveitarinnar), Ascension og jafnvel Strength of the Mind skilja mest eftir sig. Ég held að í grunninn sé sveitin farin að endurtaka sig of mikið í anda AC/DC, en án þess að bæta við sig hitturum inn á milli. Það er í lagi að skipta um pródúsent til að fá smá nýtt blóð í þetta batterí. Þetta er miðlungs plata frá sveit sem getur gert miklu meira, kannski vill ég bara minna drama og meiri hraða.

Burning skies - murder by means of existence

Burning skies – murder by means of existence (2004)

Lifeforce records –  2004
www.burningskies.co.uk

Bristol drengirnir í hljómsveitinni Burning Skies eru sko ekkert að taka því rólega. Hljómsveitin var stofnuð
í lok ársins 2002 og fljótlega tók sveitin upp 6 laga smáplötu sem Lifeforce útgáfan tók fjótlega eftir. Hljómsveitin spilar tónlist sem skilgreind er sem death core, eða dauðarokks blandað metalcore, með öðrum orðum …. þetta er þungt. Hljómsveitin er oft borin saman við hljómsveitir eins og At the gates, dissection og dismember til að minnast á eitthvað og ætti fólk því nokkurnvegin að vita við hverju má búast frá þessum bretum. Hljómsveitin er að fara svona hálfpartinn old school leið við tónlistina sína. Það gleður mig að sveitin fór ekki þessa typical metalcore leið sem virðist ráða öllu í Evrópu núna, en þrátt fyrir að það sé ekki mikið um original kafla hjá bandinu, finnst mér þetta nokkuð ferskt. Eins og alltaf finnst mér lög sem innihalda breakdown kafla standa uppúr, þó svo að breakdown kaflar sveitarinnar séu mun meiri metall en ég er vanur. Kæmi mér ekkert á óvart að Andlát aðdáendur fíli eitthvað að þessu….

valli

Gorguts – The Erosion Of Sanity (1993)

Roadrunner Records –  1993
Pródúserað af Gorguts og Steve Harris

Vel klæddir menntaskólanemar heima á Fróni stunda dauðarokkstónleika af jafn miklu offorsi og gallabuxnatöffarar prýddir síðum hárlubba og leðurjökkum. Árið 2005? Nei, prófum frekar 1993.

Í kringum 1990 var dauðarokk tónlistin sem allir hlustuðu á, og Flórída í Bandaríkjunum var borgin sem hvað oftast var nefnd í sambandi við þessa tónlistarstefnu. Þaðan komu t.d. hljómsveitir á borð við Obituary, Cynic og Deicide, og flóran þar virtist nánast óendanleg. Hljómsveitin Gorguts kom fram um þetta leyti, en sú staðreynd að þeir komu frá Kanada skapaði þeim strax nokkra sérstöðu. Frumraun þeirra, Considered Dead, kom út árið 1991 og fékk strax góð viðbrögð gagnrýnenda sem og annarra enda. The Erosion Of Sanity er önnur plata Gorguts, og ekki síðri en frumraunin.

Byrjunin á „With Their Flesh, He’ll Create“ er að mínu mati ein kraftmesta byrjun á dauðarokksplötu sem maður hefur heyrt, og verður bara betri eftir því sem maður hlýðir oftar á hana. Ekkert intro eða neitt rugl, bara keyrt beint inn í lagið og manni er illt í endaþarminum í viku á eftir. Þegar laginu lýkur tekur svo við súr píanóleikur sem leiðir á skemmtilegan hátt inn í næsta lag, „Condemned To Obscurity“. Á sama tíma og Gorguts eru hráir og harðir tekst þeim nefnilega að hreyfa við laumudjassaranum í mér og koma með afar skemmtilegar pælingar sem halda hinni klassísku dauðarokksblöndu jafn ferskri og nýkreistri sítrónu.

Titillag plötunnar heldur áfram þar sem „Condemned To Obscurity“ skilur við. Byrjunin hamrar sig inn í kviðarholið á manni og dundar sér við að kremja innyflin eins og stór sleggja. Eins gott að mér finnst blóðmör góður… Þegar hér er komið sögu er maður fastur í heljargreipum plötunnar, og fær lítið svigrúm til að ná áttum fyrr en undir það allra síðasta. „Orphans Of Sickness“ sýnir að maður þarf ekki að vera rétt um tvítugur Pólverji til að geta spilað tæknilega á fáránlega miklum hraða, og maður gerir sér betur og betur grein fyrir því hve mikill gæðagripur er hér á ferð. Introið á lokalagi plötunar, „Dormant Misery“, er svo rólegt og klassískt, og gefur manni örstutt færi á að draga að sér andann áður en lagið byrjar af fullum þunga og slær mann endanlega í gólfið. Snilld.

Fyrir þá sem ekki eru miklir dauðarokkshausar að upplagi er The Erosion Of Sanity líklega ekki besta platan til að byrja á, en fyrir gamlar risaeðlur eins og mig er þetta eins og að vera fjögurra ára og komast óséður í nammideildina í Hagkaup í Smáranum. Það tók mig reyndar nokkrar hlustanir að komast almennilega inn í þessa plötu, en ég kann mjög vel við mig hér inni núna…

Lykilorðin á The Erosion Of Sanity eru hraði, tækni, þéttleiki og melódíur. Gorguts eru meistarar í þeirri list að spila hart, tæknilegt og kalt dauðarokk á sama tíma og þeir læða inn gítarlínum sem á sinn súra hátt eru bæði mjög melódískar og grípandi. Luc Lemay (söngur og gítar) er í fantagóðu formi hér, og söngurinn hjá honum er með því skemmtilegasta sem ég hef heyrt í dauðarokksdeildinni – hrár, skýr og verri í skapinu en amma skrattans eftir stólpípu.

Að mínu mati er Gorguts ein af þeim hljómsveitum sem hélt fána dauðarokksins hvað hæst á lofti á gullaldarárum þess, og The Erosion Of Sanity er plata sem allir sem telja sig hafa eitthvað vit á dauðarokki ættu hiklaust að eiga.

– A

Kristján B. Heiðarsson

Alabama Thunderpussy – Open Fire (2007)

–  2007

Alabama Thunderpussy hafa alltaf þótt tiltölulega stórir í stoner-rock bransanum og eiga það líklega vel skilið. Þessir kappar komu hingað til Íslands um árið og trylltu lýðinn en þá fyrst byrjaði ég að kynna mér efni þeirra og ég verð að viðurkenna að þeir heilluðu mig alls ekki. Það sem hreinlega fór í taugarnar á mér var söngurinn á plötunni “Futon Hill”. Það var eitthvað við hann sem nísti í gegn og ég fékk svona svipaða tilfinningu eins og þegar ég hlusta á Megadeth, ágætis lög sem eru dregin niður af miður góðum söng. En í ljósi þess að ég, í það minnsta þykist, vera frekar opinn gagnvart tónlist ákvað ég nú að afskrifa þá ekki áður en ég hlustaði á nýjustu plötu þeirra, “Open Fire”, og andskotinn sjálfur hvað ég er sáttur með að hafa ekki gefist upp á þeim.

Það fyrsta sem ég tók nefnilega eftir á “Open Fire” var að söngurinn var allt annar. Ég kannaði málið og jú, viti menn, nýr söngvari er kominn í hljómsveitina. Kyle Thomas heitir kappinn og fullkomnar hann það sem Alabama Thunderpussy er, Rokkhljómsveit með stóru r-i sem keyrir áfram hljóm sinn töffarahroka, viskíi og þeirri staðreynd að þeir eru stoltir ‘rednecks’ úr Suðurríkjum Bandaríkjanna! Eins og ég hef áður sagt um þessa plötu Alabama Thunderpussy (djöfull er skemmtilegt að skrifa þetta nafn) er að þessir meistarar eru ekki að reyna að finna upp hljóðið, heldur spila bara nákvæmlega það rokk sem þeim sýnist og útkoman er plata sem hefur hreðjar á stærð við kókoshnetur. Það er langt síðan ég hef fengið í hendurnar plötu sem ég get ekki hætt að hækka í í græjunum mínum, og mér bara nákvæmlega sama þótt ég sé örugglega kominn langleiðina með að skemma þær. Á köflum er platan dramatísk og hálf mikilfengleg og er það líklega að mestu söngnum, sem ég hef nú þegar komið inná, að þakka. Þá skartar platan tveimur bestu rokk lögum seinni ára, “A Dreamer‘s Fortune” og “Greed” sem bæta það miklu við plötuna að maður fer að hugsa hvað maður hafi gert til að eiga eitthvað svona gott skilið.

Með “Open Fire” hlýtur það að teljast sem svo að Alabama Thunderpussy tylli sér á toppinn í stoner-rockinu. Krafturinn er í hámarki út í gegn og ég fullyrði að það verður langt þangað til að út kemur rokkplata sem er í sama gæðaflokk og þessi.

9/10

Jóhannes

Cold World - Dedicated to Babies that Came Feet First

Cold World – Dedicated to Babies that Came Feet First (2008)

Deathwish Inc. –  2008
www.deathwishinc.com

Cold World eru brögðóttir fjandar. Tóndæmi af fyrri útgáfum þeirra gáfu mér ekki tilefni til að ætla að þær væru eitthvað sem ég ætti að verða mér út um og hlusta vel. Það var svo þegar Deathwish Inc. ákváðu að vinna með þeim að ég sperrti eyrun því að téð útgáfufyritæki er þekkt fyrir tiltölulega háan gæðastuðul.

Fyrsta plata Cold World kom út árið 2005 og strax myndaðist mikill æsingur í kring um hljómsveitina sem ég skildi aldrei því mér fannst þeir ekkert merkilegir. Kannski var það eitthvað east coast thing. Hvað sem því líður þá var ég ekki seldur og því var ég nokkuð spenntur að sjá hvort tilfinning mín gagnvart bandinu hafði breyst. Ekki minnkaði það spennuna að vita að meistari Billy Graziadei (Biohazard) tók upp og hljóðblandaði plötuna sem um ræðir, Dedicated To Babies That Came Feet First.

Hvernig er það svo að ég kalli Cold World brögðótta andskota. Jú, það er vegna þess að þeir eiga enga sinn líka í hardcore í dag og má segja að þeir séu mjög ferskir og frumlegir. Blanda saman gömlu austurstrandar stórborgarhardkori, hip hop víbrum, Life Of Agony og brellum nýja skólans; melódíur, söngkaflar með raunverulegum sönglínum og frekari ævintýramennsku.

Þetta virkar einfaldlega ekki. Á pappírunum er fokkings awesome eins og skáldið sagði en í raunveruleikanum klikkar þetta. Það er of mikið að gerast, sumir kaflar eru bara skringilega útsettir og kæfa alla orku, kraft og hörku vantar, áræðnin er grafin í tiltölulega daufri hljóðblöndun. Hljómurinn á söngnum er frábær og sama má segja um diska trommarans en í heildina lemur hljómurinn mann ekki.

Dedicated to Babies líður áfram átakalaust og þrátt fyrir alla fjölbreytnina flýgur hún undir radarinn og fær mig ekki til að vilja byrja upp á nýtt þar sem ég tók varla eftir því að henni lauk. Sum lög eru beinlínis leiðinleg og langdregin. Samt er einhver sjarmi þarna sem fær mann til að gleymaþeim ekki alfarið. Sú staðreynd að þeir eru reiðubúnir til að teygja og beygja formið og gera tilraunir vinnur þeim inn innistæðu hjá mér. Það eru hip hop log dub lögin/lagabútarnir fyrir og eftir lögin sem slá í gegn á mínu heimili. Sumar útsetningar, sönglínur og innskot og átró hér og þar eru alger steik og maður á svo sannarlega ekki von á mörgu sem á sér stað á plötunni! Það er nóg til þess að ég segi ykkur að kanna málið en ég myndi ekki hvetja fólk til að kaupa þessa plötu í blindni.

Ég er þó tilbúinn að fylgja þeim og sjá hvað þeir gera á næstu plötu. Vonandi kemur hún betur út.

Birkir

Elder - Elder

Elder – Elder (2007)

Self-Released –  2007
http://www.myspace.com/beholdtheelder

Plata þessi er fyrsta breiðskífa hljómsveitarinnar Elder. Tríó þetta spilar doom, sludge, stoner drullu og ef þessi fimm laga skífa er spiluð hátt nötrar í húsinu undan þungum tónunum. Þessi sveit er ekkert að hafa fyrir því að fela áhrifavalda sína og heyrist það langar leiðir að þarna fer sveit sem hefur eytt dágóðum tíma í að hlusta á Black Sabbath og Sleep, ég heyri líka heilmikið Fu Manchu í þessu, mjög loðið stuff. Lítið nýtt á ferðinni en þrátt fyrir það er þetta góður frumburður þar sem lagasmíðarnar eru með miklum ágætum og á köflum er lítið mál að gleyma sér og fljóta með virkilega flottu groovinu sem er á plötunni.

Fyrsta útgáfa sveitarinnar var split með Queen Elephantine og árið 2007 gáfu Elder út demó. Þetta er því frekar ung sveit með fáar útgáfur á bakvið sig, og þrátt fyrir augljósu Sleep áhrifin (söngvarinn hljómar meira að segja á köflum eins og Al Cisneros) er þetta það vel gert að það hættir að skipta máli eftir eina til tvær hlustanir.

Bassinn er ristastór í hljómnum þeirra og mikið fuzz í gangi. Platan byrjar tiltölulega rólega í þeim skilningi að þeir byrja á hægum þungum riffum, en keyra þetta síðan meira í gang seinni partinn í bland við speisuð og grípandi sóló. Fyrir mér sameinar þessi hljómsveit flest af því skemmtilegasta og besta sem fyrirfinnst í stoner og doom stefnunum; groovy riff og catchy sóló, nötrandi þung riff og hellings reverb á söngnum! Elder hafa sína eigin nálgun á stefnuna sem Sleep höfðu líka svona hrikaleg áhrif á, og það verður ekki tekið af þessum Massachusetts rokktuddum að spilamennskan er til fyrirmyndar og platan er góð. Efnileg sveit og fínasti frumburður. Maður fylgist klárlega vel með þessum guttum í framtíðinni.

Jói

World Narcosis - World Narcosis

World Narcosis – World Narcosis (2011)

Eigin útgáfa –  2011
http://worldnarcosis.bandcamp.com/

Íslenska hljómsveitin World Narcosis sendi frá sér sýna fyrstu útgáfu í nóvember í fyrra og er afar ánægjulegt að svona ung hljómsveit sendi frá sér svona áhugaverða plötu á vínil formatti. Á plötunni er að finna 9 lög og er platan í held sinni rétt yfir 10 mínútur.

Líkt og aðrar hljómsveitir í þessum geira (powerviolence/grind og þannig háttar) spilar sveitin hröð, hörð og stutt lög. Oft á tíðum finnst manni þessi skipulagði glunduroði sem einkennir lög sveitarinnar nokkuð grípandi og þá sérstaklega í lögum á borð við Brainscam, sem er um leið upphafslag plötunnar. Það sem mér finnst áhugavert við þessa plötu er víddin í öskrum og hávaða. Það er gaman að heyra tví ef ekki þrírödduð öskur og virðist það ýta undir brjálæðina og grófleikann, ef ekki sársaukann í tónlistinni.

Það er eitthvað heillandi við þessa smáplötu sem ég efast ekki að fleiri en bara ég geti notið. Það er einnig augljóst að á meðan svona útgáfur eru mögulegar er enn von fyrir íslenska neðanjarðar tónlist.

Valli

Dag Nasty - Wig Out at Denko's (re-issue)

Dag Nasty – Wig Out at Denko’s (re-issue) (2002)

Dischord Records –  2002
www.dischord.com

Rosalega var ég ánægður þegar ég sá þennan disk í Dischord hillunni í Hljómalind. Ég hafði heyrt í þeim á netinu og varð strax heillaður. Svona mellódísk útgáfa af Minor Threat. Þannig að ég greip eitt eintak og dreif mig heim til að taka nokkur spor við Minor Threat-legt hardcore. En þetta var allt öðruvísi en ég bjóst við. Ég hafði heyrt lög af fyrsta disknum þeirra, Can I Say, sem var allt öðruvísi. Þessi diskur er samt frábær. Lögin eru frá über mellow hardcore/punki út í hreint og beint emo. Maður heyrir greinilega að mörg emo bönd dagsins hafa tekið margt frá þessum gamlingjum. Þó svo að þetta sé basically emo plata þá eru þarna léttir hardcore partar í lögunum sem gerir þessa plötu enn betri.

Þar sem þetta er re-issue þá hafa þeir skellt inn plötunni Mango Session með, sem inniheldur tvö lög sem eru ekki á upprunalegu Wig Out at Denko’s og svo eru tvö lög sem voru tekin upp í viðtali við þá félaga, þar sem þeir spila á kassagítar og syngja.

Ég mæli með þessari plötu fyrir alla þá sem fíla létt hardcore/punk og emo. Ég skelli henni oft í spilarann og syng með. Einlæg og frábær plata í alla staði.

Fannar öXe