Flokkur: Plötudómar

Plötudómar á Harðkjarna

Zao – The Well-Intentioned Virus (2016)

Zao – The Well-Intentioned Virus
Observed/Observer 2016

Bandaríska harðkjarnasveitin Zao er ein af þeim sveitum sem vekur alltaf mikla tilhlökkun hjá mér þegar fréttir berast að nýjum útgáfum. Að mínu mati hefur sveitin aðeins tekið eitt feilskref á ferlinum, en það var við útgáfu seinustu breiðskífu seinnar Awake? sem mér þótt afar slöpp útgáfa, en miðað við seinustu útgáfu sveitarinnar (EP platan Xenophobe frá því í fyrra) get ég ekki gert ráð fyrir öðru en hér sé sveitin komin aftur á þann stall sem hún hefur staðið með stolti alla sína tíð.

Fyrir þá einstaklinga sem ekki þekkja til eru rætur sveitarinnar í kristnum harðkjarna og þá meina ég KRISTNUM, en textar og umfjöllunarefni sveitarinnar snérist á þeim um kristindóm og allt sem tengist “sönnum kristnum gildum”. En meðlimaskipan, tími og hugsunarbreyting í sveitinni hefur breytt sveitinni úr hefðbundnu kristnu harðkjarna bandi í eitt af áhrifamestu harðkjarnaböndum sögunnar.

Þessi sveit hefur mér verið hugfanginn hátt í annan áratug, enda hafa breiðskífur á borð við Where Blood and Fire Bring Rest, Self-Titled (já hún heitir það), Parade of Chaos, The Funeral of God og The Fear Is What Keeps Us Here verið mjög hátt skrifaðar í mínu plötusafni. En núna eru 7 ár frá seinustu útgáfu og spurning hvort The Well-Intentioned Virus nái að viðhalda þeim gæðum sem sveitin er hvað þekktust fyrir.

Platan byrjar rólega á laginu The Weeping Vessel, en breytist brátt í þá þá þrumu sem lagið er, en lagið fjallar eins og svo mörg lög sveitarinnar um viðkvæmtog persónuleg vandamál söngvara sveitarinnar, sem í þessu tilfelli er fósturlát fyrsta barns söngvarans, með þessarri vitneskju breytist lagið úr hörðu og snúnum rokkslagara í dimma og harða tilveru lífsins. Miðað við núverandi stjórnmálaástand í heimalandi sveitarinnar næst betri skilningur á bæði titilagi og titli plötunnar, en lagið fjallar um fólk sem í upphafi gerir eitthvað í góðum tilgangi á meðan síðarmeir er litið gjörðir þessa sama fólks sem eitthvað illt. Platan er í heild sinni mun betri og fjölbreyttari umfram mínar björtustu vonir og í kjölfarið mun harðari.

Þessi plata er tormellt eyrnakonfekt sem verður betri með hverri hlustun. Þau lög sem sveitin gaf út á EP plötunni Xenophobe eru að finna í nýrri útgáfu á þessarri plötu og hljóma sérstaklega vel í þessum upptökum, en passa samt vel í heildarmyndina sem þessi plata er, sem er hreinu unun.

Hangman’s Chair – This Is Not Supposed To Be Positive (2015)

Music Fear Satan 2015

Franska hljómsveitin Hangman’s Chair kom hingað til lands ekki alls fyrir löngu, en náð ekki að heilla mig þá. Ég var því ekkert að flýta mér að hlusta á nýjustu plötu sveitarinnar “This Is Not Supposed To Be Positive”, en satt best að segja sé ég mikið eftir því, þar sem hér er á ferð breiðskífa sem ég hef gjörsamlega fallið fyrir. Franskt þungarokk í hvaða formi sem er er að koma sterkt inn síðustu ár og þar eru Hangman’s Chair framarlega í flokki, sérstaklega mikiðað við þessa nýju plötu.

Titill plötunnar “This Is Not Supposed To Be Positive” segir rosalega mikið, því þetta eru ekki upphefjandi lög sem færa birtu í hjarta áheyrenda, hér hlustum við á þunglyndi í sínu listræna formi, og nánast fullkomnu formi. Lög á borð við Flashback gera þessa plötu þess virði að fjárfesta í á hvaða degi sem er, enda angurvært slagari sem gefur manni smá von þrátt fyrir þunglyndislegan undirtón. Aðdáendur hljómsveita á borð við Life Of Agony, Alice in Chains (lagið Save yourself) og jafnvel Type O Negative, þar sem þetta er breiðsífa sem getur farið með mann í djúpa og tilfiningaríkaferð um sálarlífið.

Þessi plata kom mér á óvart, virkilega á óvart og hefði ég hlustað á hana fyrr hefði hún verið ofarlega á toplista árins 2015 hjá mér.

Framúrskarandi:
Flashback
Your Stone

Killswitch Engage – Incarnate (2016)

2016 Roadrunner

Fyrsta breiðskífa hljómsveitarinnar Killswitch Engage var eitthvað sem ég hugsa enn til með mikilli hrifningu, þar var sveitin fersk og full af eldmóð. Ekki versnaði áhugi minn á sveitinni við næstu útgáfu, þeirra fyrstu á Roadrunner plötunni, Alive or Just Breathing (2002) sem var einnig mögnuð útgáfa frá byrjun til enda. Meira að segja þegar söngvarinn Howard Jones tók við af Jesse Leach var ég sáttur við sveitina, en síðan fór sveitin að missa forskotið, fór að endurtaka sig og jafnvel gefa út breiðskífur sem ég reyndi mitt besta að hlusta á án þess að missa lífsviljann (kannski svolítið ýkt, en þið skilið.. þetta var slæmt.).

Í mars mánði sendi sveitin frá sér sína sjöundu breiðskífu, Incarnate, og því forvitnilegt hvort að önnur breiðskífa sveitarinnar eftir að Howard Jones yfirgaf sveitina (og Jessie Leach kom aftur) nái að grípa mann eins og fyrstu skífur sveitarinnar gerðu…. stutta svarið er nei.

Ekki misskilja. Þetta er ekki slæm plata, alls ekki þeirra versta, en samt langt frá því besta. Sterkasti hluti plötunnar er að mínu mati Jesse Leach söngvari, vídd hans sem söngvari er mikil enda getur hann öskrað eins og geðsjúklingur og strax farið yfir í háu tónana eins lærður klassískur söngvari. Það sem vantar upp á hjá sveitinni er að taka meiri áhættur, prufa eitthvað nýtt og ferskt, hvort sem það er enn meira popp eða bara hreint dauðarokk, því annars virkar þetta eins og ljósrit af fyrra efni, sem dofnar með hverri ljósritun. Lögin sem standa upp úr á plötunni eru lögin sem víkja frá formúlunni (þó ekki nema að litlu leiti), lög eins og The Great Deceit (sem hljómar eins og eitthvað af fyrstu plötum sveitarinnar), Ascension og jafnvel Strength of the Mind skilja mest eftir sig. Ég held að í grunninn sé sveitin farin að endurtaka sig of mikið í anda AC/DC, en án þess að bæta við sig hitturum inn á milli. Það er í lagi að skipta um pródúsent til að fá smá nýtt blóð í þetta batterí. Þetta er miðlungs plata frá sveit sem getur gert miklu meira, kannski vill ég bara minna drama og meiri hraða.

Brother’s Keeper - Self-Fulfilling Prophecy

Brother’s Keeper – Self-Fulfilling Prophecy (1997)

Trustkill –  1997
Pródúserað af: B.K. og Frea Betchen – 6 lög (lítil plata/cd)

Brother’s Keeper eru að koma sterkir inn. Bandið á við vaxandi vinsældir að fagna þessa dagana og eru margrómaðir sem eitt af bestu læf böndunum í Bandaríkjunum í dag. B.K. eru búnir að vera ansi duglegir við það að gefa út plötur þó að hljómsveitin sé töluvert ung. Þeim hefur tekist að koma með ferska vinda inní hardcorið, sem er í málmaðari kantinum. Tónlistin er þælskemmtileg og söngurinnn er vægast sagt nýstárlegur. Textarnir eru frábærir og hljómurinn á plötunnni er mjög góður. Það er víst við því búandi að sumt fólk komi ekki til með að fíla söngvarann en hann syngur nánast eins og kráka! Ég er þó alltaf að venjast honum meira og meira og nú er svo komið að mér finnst þetta bara nokkuð svalt og gefur þetta bandinu svolítið spes edge. Það eina sem er nokkuð pirrandi (fyrir mig allavegana) er það hversu trommuleikarinn er óþéttur. Það kemur þó vonandi til með að batna á nýjustu plötu þeirra sem er víst nú þegar komin út og á að vera þeirra besta hingað til (ég ætla að næla mér í hana).Þetta er hart en temmilega up-beat hardcore með flottum gítarleik. Ómissandi er þessi plata ekki en hún er þess virði að tékka á.

Toppar:
No Love For The Waters
Self- Fulfilling Prophecy

Birkir

Iron Maiden - Ed Hunter

Iron Maiden – Ed Hunter (1999)

EMI –  1999
Pródúserað… humm, af hinum og þessum
20 lög og tölvuleikur (þrefaldur diskur)

Ed Hunter, Ed Hunter, hve lengi var maður ekki búinn að bíða eftir þeim degi þegar maður gæti stormað út í búð og keypt þennan grip. Iron Maiden tölvuleikur!! Lífið gat varla verið betra… eða hvað?

Satt best að segja varð ég fyrir miklum vonbrigðum með hann Ed Hunter, eftir að hafa þurft að sætta sig við að bíða lengur vegna þess að hætt var við upprunalegan útgáfudag (í þeim tilgangi að geta gert leikinn betri, sögðu Iron Maiden sjálfir…), þá átti ég von á að verða alveg fastur í tölvunni í a.m.k. mánuð straight! En þegar leikurinn kom loksins og Kristján búinn að eyða aurunum sínum í að kaupa kvikindið, þá kom sannleikurinn í ljós… Ed Hunter er bara hreinlega alls ekki góður tölvuleikur!! Það er rosalega sárt að þurfa að segja þetta um eitthvað frá meisturunum í Iron Maiden, en svona eru staðreyndirnar bara.

En við skulum skoða málið aðeins nánar: Ed Hunter er alls ekki lélegur leikur heldur, málið er bara það að manni eru settar alltof miklar skorður í honum. Í stað þess að vera í Duke Nukem/Quake stílnum þar sem maður getur hreyft sig hvert sem maður vill, þá er för spilarans fyrirfram ákveðin skref fyrir skref í gegnum allan leikinn, það er á stöku stað sem hægt er að ráða einhverju um hvert maður fer, en það er þá í formi tveggja valmöguleika: hægri eða vinstri. Ofan á þetta bætast svo ansi hreint einhæfir andstæðingar, pönkarar sem henda í mann bjórflöskum og andfúlir zombies klæddir í ég-elska-mig-treyju sem reyna að kyssa mann (eða e-ð álíka) hljóma álíka óspennandi og þeir eru í rauninni. Það er hinsvegar eitt sem gleður litla Maiden hjartað manns, í gegnum leikinn getur maður séð (ef maður lítur vel í kringum sig) marga kunnuglega punkta úr Maiden sögunni, t.d. Ruskin Arms og svo 22 Acacia Avenue…

Ef satt skal segja, þá hef ég ekki klárað leikinn ennþá, og efast um að ég geri það nokkurntímann. Þetta orsakast bæði af vonbrigðunum sem ég varð fyrir, og einnig eina virkilega galla leiksins: það er ekki hægt að seiva (ísl. vista)!!!! Já, rétt er það, þú getur ekki seivað leikinn… og það er ansi hreint fúlt…

En ekki má gleyma hinni hlið pakkans, tónlistinni! Undirleikinn í Ed Hunter annast engir aðrir en Iron Maiden sjálfir (surprise!!), og leiðir það af sér að ástandið batnar til muna. Svo er Ed Hunter líka Best Of diskur, á honum eru 20 lög tekin af öllum plötum þeirra til þessa, valin af aðdáendum sveitarinnar með atkvæðagreiðslu á www.ironmaiden.com og verður að segjast að þetta er alveg 100% pottþéttur safndiskur. Það er ekki hægt að kvarta yfir einu einasta lagi, það eina sem mér þótti slæmt persónulega var að Rime Of The Ancient Mariner (live) er ekki á gripnum.

Toppar: öll lögin (common, þetta er Iron Maiden, það er ekki hægt að gera upp á milli laga…)!!!

Kristján

Charon - Tearstained

Charon – Tearstained (2000)

Diehard –  2000
Pródúserað af Charon og Juha Matinheikki – 11 lög

PLAY … hljómborðsintró … pákusláttur … ekki ósvipað og byrjunin á lagi einu með Amorphis … PÆNG!!

Þannig mætti lýsa byrjuninni á einni af óvæntustu uppgötvunum mínum á þessu ári, Tearstained með Charon. Samanburðurinn við Amorphis er kannski ekki svo fráleitur, því bæði böndin koma frá Finnlandi, en Charon standa samt fullkomnlega á eigin fótum. Röddin í Juha-Pekka Leppäluoto er tær og kröftug, og nýtur sín vel í vandaðri pródúseringunni. Restin af piltunum í Charon sýna einnig að þeir kunna sitt fag, og eru greinilega mjög færir hljóðfæraleikarar þarna á ferð. Ég beið fyrst alltaf eftir því að Juha-Pekka færi að öskra af sama krafti og hann syngur svo þýðlega, en eftir nokkur lög áttaði ég mig á því! ; að það myndi bara skemma tónverkin.

Charon sækja einnig inflúensur til Paradise Lost, og heyrir maður það best á byrjuninni á Christina Bleeds (The Last Time, einhver?), en þrátt fyrir að þeir fái lánaðar svona hugmyndir, þá getur maður ekki dregið þá niður fyrir það. Tearstained ber þeirra eigin karakter og hugsjónir, og gerir það með glæsibrag. Eitt orð er sem stimplað á alla fleti þessa disks: GÆÐI.

Ég játa það á mig að ég hafði aldrei heyrt í Charon fyrr en ég fékk þennan disk lánaðan til áheyrnar, en ég veit að ég hef misst af miklu fyrir vikið, því Tearstained er mögnuð afurð frá hljómsveit á uppleið. Hlustaðu og sannfærstu.

Hápunktar: Worthless, Christina Bleeds, As We Die.

Kristján

Dropkick Murphys - Sing loud

Dropkick Murphys – Sing loud, sing proud! (2001)

Epitaph –  2001
http://www.dropkickmurphys.com/

Þessir gaurar koma frá Boston og eru af írsku ætterni (líklega) Á þessari plötu hafa komið fjórir nýjir meðlimir í bandið(sem eru alls 7 talsins) og er það breyting, enda hljóma þeir talsvert öðruvísi; betri og fjölbreyttari frá því sem fyrr var. Það eru 2 aðalsöngvarar og einn eð ráma viskírödd. Ennfremur fer nýji sekkjapípuleikarinn Spicy Mchaggis þar feitan.

Fjörið hefst með laginu ,,for Boston” sem klapp og söngur í kór, en í kjölfarið kemur sekkjapípa og svona marserandi trommusláttur sem víkur fyrir pönksprengingu.
Næsta lag er: the legend of Finn Maccumhail eða eins og í laginu segir: long live Finn Maccool! Þeir hafa nefnilega húmorinn í lagi, piltarnir!
Eftir fylgir ,, Which side are you on”sem byrjar á þjóðlegum máta á mandólíni og er eins konar verkalýðssöngur. Þvínæst kemur flauta ásamt sekkjapípu sem kæfast þó ekki öllu rokkinu í ,,Rocky road to Dublin”
Þeir kunna sko að búa til singalong-vænar melódíur. Maður (óhjákvæmilega) hummar með í huganum! Þegar þeir syngja allir í kór hljóma þeir ekki ósvipað Sickofitall;
Stand up and fight! and I‘ll stand up for you!!
Svo eru það nokkrar ballöður inná milli til að brjóta upp keyrsluna eins og lagið Forever.
…en Meistari Shane Macgowan sem var eitt sinn í írsku þjóðlagarokksveitinni Pogues kemur og muldrar snilldarlega(eins og honum einum er lagið) í ,,Good rats” sem fjallar um fullar rottur!? ; a rat sure likes a good time just like you and me, I’ll prove it with a tale about a rat-infested brewery Þó þeir syngi um sopann væna eru þeir ekkert endilega að hvetja til drykkju eins og heyrist í ,,Caps and bottles” & ,,Wild rover“( eftir írsku þjóðlagi, hygg ég) þar sem varað er við drykkjusýki: ,,couldn’t wait to grow up just to drink with the crew, put my name on the map and have a social few” … it´s killing me,it´s plain to see its taken me, I´m half the man I thought I´d be, it´s taken years but now I see. I´ve been a wild rover for many’s a year and I’ve spent all my money on whiskey and beer, now I´m returning with gold in great store and I never will play the wild rover no more.
Þessi sextán laga plata endar með laginu ,,Spicy Mchaggis jig” sem er á léttu nótunum

pönk með þjóðlegu ívafi & stuð & fjör einkenna þessa stórgóðu plötu sem lífgar upp á daginn…& og ég mælimeððí! Skál!

Bessi

Drep - Doctor E.P.

Drep – Doctor E.P. (2001)

Alternate –  2001
http://www.alternate.dk/
http://www.drep.50megs.com/

Fyrir nokkrum dögum fékk ég senda fyrstu alvöru útgáfu (fyrir utan demo) hljósmveitarinnar Drep. Satt best að segja átti ég ekki von á miklu, en þessi smáplata kom mér heldur betur á óvart. Ég fékk þá aðvörun frá bandinu að þetta væru gamlar upptökur sem væru “börn síns tíma”, en í framhaldi var sagt að lögin “rokkuðu feitt”. Sem er satt. Þessi lög eru alveg drullu fín, sem fær mig til að hlakka til hvernig næsta útgáfa sveitarinnar verður. Lögin eru skemmtilega öskruð í blandi við dimmraddaðar aukaraddir sem minna mann að vissu leiti á HAM (þetta er nú Flosi, við hverju má búast?)… en það er auðvitað ekkert nema kostur. Fyrst fannst mér þetta svipa til hljómsveitar sem var einusinni í miklu uppáhaldi hjá mér sem heitir Stompbox, en þetta er aðeins meira rokk og ról og aðeins ferskara. Allt í allt þá finnst mér þetta mjög eigulegur diskur frá þessu landflotta íslendingum í danmörku.

Síðasta lagið á disknum “friend” finnst mér áberandi gott lag, þar sem öskur söngvarans í bland við taktfasta hljóma sveitarinnar eiga mjög vel saman.

Valli

Atomsmasher – Atomsmasher (2002)

Dobble h noise industries/Hydra head –  2002

Atomsmasher er tilraunakennt hardcore noise project manns að nafni James Plotkins sem að ég bíst
við að flestir kannist við, þar sem hann hefur verið viðriðinn miljón bönd og project.
Tónlistin, ef að tónlist skal kalla, virðist aðallega vera unnin útfrá klikkuðum trommum sem að trommu hetjan Dave Whitte (Human Remains og fleira) sér um, sem eru síðan editeraðar og blandað saman við gítar/bassa/tölvu noise af Plotkins og hennt í suðupott með öskrum Dj nokkurns Speedranch.
En þetta er því miður ekki næstum eins athiglisvert og þetta kann að hljóma á pappír og verður frekar þreitt til lengdar. Meiri fjölbreitileiki hefði sennilega getað bjargað þessari plötu, sem á þó sín góðu móment.

Tormentor

Machine Head - Supercharger

Machine Head – Supercharger (2001)

Roadrunner –  2001

Í JÓLAPAKKANN FYRIR UPPREISNARUNGLINGINN

Machine Head eru þung rokkhljómsveit. Það er ekki sama flokkunin og þungarokkshljómsveit í þeim skilningi að Machine Head eiga líklega meira sammerkt með sumum hardcore hljómsveitum samtímans en eiginlegum þungarokks (heavy metal) böndum. Samt eru þeir ekkert hardcore band. Hin deyjandi tískubóla sem var af einhverjum atvinnumanni í rokkskríbentageiranum skírð “Nu-Metal” sótti heilmikið í smiðju Machine Head – eða öfugt.
Nóg um það, en hér halda þeir uppteknum hætti við að spila níðþungt og þétt en jafnframt melodískt rokk. Flest lögin eru skemmtilega rokkuð og grípandi, þéttur og þungur gítar vekur uppreisnaranda rokksins í unglingnum og miðlægur hraðinn á þeim köppum gerir það auðvelt að dingla hausnum með án þess að fara úr hálslið. Rödd Rob Flynn er mátulega rifin og rám til að textarnir skiljist án þess að hann geti verið sakaður um að vera eitthvað að væla.
Þetta er flott og fínt og ég gæti fullyrt að þessi plata væri í alla staði þéttur og grípandi metall ef að ekki væru einhver lög eins og “Only the names” inn á milli þar sem hægist á öllu og einhver spenna á líklega að skapast þegar Flynn fer að hvísla og hvæsa textana. Hundleiðinlegt athæfi sem þeir þarna Adidasrokkklónin eru búnir að riðlast á fram úr hófi. Góð plata í viðbót við það sem sannfærðir áhangendur áttu fyrir.

Siggi Pönk