Flokkur: Plötudómar

Plötudómar á Harðkjarna

Old Wounds – Glow (2018)

Old Wounds – Glow
Good Fight Music 2018

Bandaríska hljómsveitin Old Wounds hefur gengið í gegnum margar breytingar síðastliðin ár og því spurning hvort að sveitin geti fylgt eftir eins góðri breiðskífu og The Sufferin Spirit var án þess að mistakast, en the Sufferin Spirit var að mínu mati ein af bestu útgáfum ársins 2015 og náði að fullkomna fortíðar þrá mína í metalcore tónlist sem var upp á sitt besta um miðjan tíunda áratug 20. aldar.

Platan byrjar afar sterkt á laginu “Your God v. Their God” sem viðheldur goth útgáfu af málm blandaða harðkjarnanum sem ég hef afar mikið dálæti á frá seinustu plötu. Harðneskjan heldur svo áfram með laginu stripes, en þar finnur maður að söngur Kevin Iavaroni er farinn að þróast úr hreinni öfgafullri reiði yfir eitthvað svo miklu meira, eitthvað sem minnir meira á blöndu af söngstíl sveita á borð glassjaw og vision of disorder, með smá AFI blöndu þar inn á milli, afar heillandi. Textar sveitarinnar fjalla meðal annars um andleg málefni, andlega erfiðleika, ástand heimsins og dekkri hliðar neikvæðrar sjálfsmyndar.

Þegar á heildina er litið er þetta þræl skemmtileg plata, ekki jafn góð og sú seinasta, en alls ekki mikið verri. Platan er einnig mun fjölbreyttari en ég gerði ráð fyrir án þess að fara í of mikla tilraunastarfsemi.

Sick of it all – Wake the Sleepin Dragon! (2018)

Sick of it all – Wake the Sleepin Dragon!
Fat Wreck 2018

Guðfeður harðkjarnatónlistar New York borgar eru mættir enn og aftur með nýja breiðskífu, þá tólftu á ferlinum. En getur harðkjarna hljómsveit sem hefur verið virk í meira en 30 ár enn skilað frá sér fersku og áhugaverðu efni sem kveikir í aðdáendum sínum og um leið aflar sér nýrra? Í stuttu svari: Ó Já!

Ég held að það fáar plötur á ferli sveitarinnar hafi byrjað á jafn miklum krafti og bjóði upp á jafn mikinn fjölbreytleika og þessi. Það er samt ekki eins og þetta séu gamlir kallar að reyna að ná til æskunnar, þetta er einhvernveginn bara rosalega vel gert og skemmtilegt.

Þrátt fyrir áhugaverðan titil á plötunni (Vekið sofandi drekann) bendir ekkert til að þetta sé einhvern þema plata, en það má heyra mikið áhugaverðu umfjöllunarefni á plötunni, hvor sem það er dýravelverð, innri barátta allskynns hópa, aðdáun þeirra á hljómsveitinni Bad Brains, ádeila þeirra gegn samfélagsmiðlum og stjórnendum þar, og svo að sjálfsögðu ádeila gegn sitjandi forseta landsins. Kannski er þemi plötunnar kraftur einstaklings til að hafa áhrif á lífið, og kvatning til þess að taka málin í sínar hendur og leysa vandamálin í stað þess að sitja heima og kvarta undan því sem fer illa.

Í mínu lífi er oftast hátíð á bæ þegar sveitir sem þessi gefa út efni, og svo er það enn, ekki talandi um þegar sveitin gefur út svona ferska og skemmtilega plötu.

Zao – The Well-Intentioned Virus (2016)

Zao – The Well-Intentioned Virus
Observed/Observer 2016

Bandaríska harðkjarnasveitin Zao er ein af þeim sveitum sem vekur alltaf mikla tilhlökkun hjá mér þegar fréttir berast að nýjum útgáfum. Að mínu mati hefur sveitin aðeins tekið eitt feilskref á ferlinum, en það var við útgáfu seinustu breiðskífu seinnar Awake? sem mér þótt afar slöpp útgáfa, en miðað við seinustu útgáfu sveitarinnar (EP platan Xenophobe frá því í fyrra) get ég ekki gert ráð fyrir öðru en hér sé sveitin komin aftur á þann stall sem hún hefur staðið með stolti alla sína tíð.

Fyrir þá einstaklinga sem ekki þekkja til eru rætur sveitarinnar í kristnum harðkjarna og þá meina ég KRISTNUM, en textar og umfjöllunarefni sveitarinnar snérist á þeim um kristindóm og allt sem tengist “sönnum kristnum gildum”. En meðlimaskipan, tími og hugsunarbreyting í sveitinni hefur breytt sveitinni úr hefðbundnu kristnu harðkjarna bandi í eitt af áhrifamestu harðkjarnaböndum sögunnar.

Þessi sveit hefur mér verið hugfanginn hátt í annan áratug, enda hafa breiðskífur á borð við Where Blood and Fire Bring Rest, Self-Titled (já hún heitir það), Parade of Chaos, The Funeral of God og The Fear Is What Keeps Us Here verið mjög hátt skrifaðar í mínu plötusafni. En núna eru 7 ár frá seinustu útgáfu og spurning hvort The Well-Intentioned Virus nái að viðhalda þeim gæðum sem sveitin er hvað þekktust fyrir.

Platan byrjar rólega á laginu The Weeping Vessel, en breytist brátt í þá þá þrumu sem lagið er, en lagið fjallar eins og svo mörg lög sveitarinnar um viðkvæmtog persónuleg vandamál söngvara sveitarinnar, sem í þessu tilfelli er fósturlát fyrsta barns söngvarans, með þessarri vitneskju breytist lagið úr hörðu og snúnum rokkslagara í dimma og harða tilveru lífsins. Miðað við núverandi stjórnmálaástand í heimalandi sveitarinnar næst betri skilningur á bæði titilagi og titli plötunnar, en lagið fjallar um fólk sem í upphafi gerir eitthvað í góðum tilgangi á meðan síðarmeir er litið gjörðir þessa sama fólks sem eitthvað illt. Platan er í heild sinni mun betri og fjölbreyttari umfram mínar björtustu vonir og í kjölfarið mun harðari.

Þessi plata er tormellt eyrnakonfekt sem verður betri með hverri hlustun. Þau lög sem sveitin gaf út á EP plötunni Xenophobe eru að finna í nýrri útgáfu á þessarri plötu og hljóma sérstaklega vel í þessum upptökum, en passa samt vel í heildarmyndina sem þessi plata er, sem er hreinu unun.

Hangman’s Chair – This Is Not Supposed To Be Positive (2015)

Music Fear Satan 2015

Franska hljómsveitin Hangman’s Chair kom hingað til lands ekki alls fyrir löngu, en náð ekki að heilla mig þá. Ég var því ekkert að flýta mér að hlusta á nýjustu plötu sveitarinnar “This Is Not Supposed To Be Positive”, en satt best að segja sé ég mikið eftir því, þar sem hér er á ferð breiðskífa sem ég hef gjörsamlega fallið fyrir. Franskt þungarokk í hvaða formi sem er er að koma sterkt inn síðustu ár og þar eru Hangman’s Chair framarlega í flokki, sérstaklega mikiðað við þessa nýju plötu.

Titill plötunnar “This Is Not Supposed To Be Positive” segir rosalega mikið, því þetta eru ekki upphefjandi lög sem færa birtu í hjarta áheyrenda, hér hlustum við á þunglyndi í sínu listræna formi, og nánast fullkomnu formi. Lög á borð við Flashback gera þessa plötu þess virði að fjárfesta í á hvaða degi sem er, enda angurvært slagari sem gefur manni smá von þrátt fyrir þunglyndislegan undirtón. Aðdáendur hljómsveita á borð við Life Of Agony, Alice in Chains (lagið Save yourself) og jafnvel Type O Negative, þar sem þetta er breiðsífa sem getur farið með mann í djúpa og tilfiningaríkaferð um sálarlífið.

Þessi plata kom mér á óvart, virkilega á óvart og hefði ég hlustað á hana fyrr hefði hún verið ofarlega á toplista árins 2015 hjá mér.

Framúrskarandi:
Flashback
Your Stone

Killswitch Engage – Incarnate (2016)

2016 Roadrunner

Fyrsta breiðskífa hljómsveitarinnar Killswitch Engage var eitthvað sem ég hugsa enn til með mikilli hrifningu, þar var sveitin fersk og full af eldmóð. Ekki versnaði áhugi minn á sveitinni við næstu útgáfu, þeirra fyrstu á Roadrunner plötunni, Alive or Just Breathing (2002) sem var einnig mögnuð útgáfa frá byrjun til enda. Meira að segja þegar söngvarinn Howard Jones tók við af Jesse Leach var ég sáttur við sveitina, en síðan fór sveitin að missa forskotið, fór að endurtaka sig og jafnvel gefa út breiðskífur sem ég reyndi mitt besta að hlusta á án þess að missa lífsviljann (kannski svolítið ýkt, en þið skilið.. þetta var slæmt.).

Í mars mánði sendi sveitin frá sér sína sjöundu breiðskífu, Incarnate, og því forvitnilegt hvort að önnur breiðskífa sveitarinnar eftir að Howard Jones yfirgaf sveitina (og Jessie Leach kom aftur) nái að grípa mann eins og fyrstu skífur sveitarinnar gerðu…. stutta svarið er nei.

Ekki misskilja. Þetta er ekki slæm plata, alls ekki þeirra versta, en samt langt frá því besta. Sterkasti hluti plötunnar er að mínu mati Jesse Leach söngvari, vídd hans sem söngvari er mikil enda getur hann öskrað eins og geðsjúklingur og strax farið yfir í háu tónana eins lærður klassískur söngvari. Það sem vantar upp á hjá sveitinni er að taka meiri áhættur, prufa eitthvað nýtt og ferskt, hvort sem það er enn meira popp eða bara hreint dauðarokk, því annars virkar þetta eins og ljósrit af fyrra efni, sem dofnar með hverri ljósritun. Lögin sem standa upp úr á plötunni eru lögin sem víkja frá formúlunni (þó ekki nema að litlu leiti), lög eins og The Great Deceit (sem hljómar eins og eitthvað af fyrstu plötum sveitarinnar), Ascension og jafnvel Strength of the Mind skilja mest eftir sig. Ég held að í grunninn sé sveitin farin að endurtaka sig of mikið í anda AC/DC, en án þess að bæta við sig hitturum inn á milli. Það er í lagi að skipta um pródúsent til að fá smá nýtt blóð í þetta batterí. Þetta er miðlungs plata frá sveit sem getur gert miklu meira, kannski vill ég bara minna drama og meiri hraða.

Rotting christ - Genesis

Rotting christ – Genesis (2002)

Centurymedia –  2002
www.rotting-christ.com

Það er ekki nema núna, um hálfum áratug síðar, að ég láti verða af því að rýna í þessa plötu . En ég hafði heyrt eitthvað af henni við útgáfu hennar þegar ég kannaði bönd á Centurymedia útgáfunni. Mér leist nokkuð vel á lögin sem ég heyrði og ætlaði að kíkja á bandið á Wacken festivalinu sem var á næsta leiti. Eitthvað fóru þau plön forgörðum að athuga efnið betur og tónleikaþreyta hamlaði viðveru á Wet stage.

Platan Theogonia sem kom út með þessum grísku gaukum fyrir nokkru kom eins og eiturfersk þruma í sumpart sterílan, endurtekningarsaman og meðalmennsku metalheim. Af þeim sökum var það mér sjálfgefin skylda að gefa eldra efni sveitarinnar tækifæri svo og að svala forvitni.

Ég hef aldrei verið mjög hrifinn af blackmetal nema hann hafi einhverja þætti sem bregða út af rembingnum og einsleitni sem mér þykir fylgja honum um of. Rotting Christ voru blackmetal band og eru það í einhverjum skilningi ennþá. Ég býst við að með meiri reynslu og nýjungagirni hafi hljómsveitin viljað þróast út í það sem hún er á þessu árþúsundi. Þeim tekst að viðhalda beittum grimmileika og einnig að gera fágaðar smíðar. Lögin hér á þessu stykki eru oft með einhverja beinagrind; takt eða melódíu sem fylgir meginhluta lagsins. En áfast við beinin er nóg af kjöti og tilbreytni. Bráðsnjallar eru innsetningar á ýmsum þáttum eins og kórum, symfóník, prógrammeruð hljóð og mix á vókalnum(t.d. drungalega, dimma og forneskjulega röddin). Útsetningar, öhömm, á þessum innsetningum geta verið í forgrunni og bakgrunni. Stundum eru nokkrar lagskiptingar á hljóðum sem fara hentuglega og heillandi saman. Hugvitsamlegar gítarmelódíur eiga það til að bera uppi og vera kjölfesta í einhverjum þeirra laga sem hér er um að ræða.

Hér skal örlítið vikið að einhverjum lögum plötunnar:
Daemons og In Domine Sathana virka vélræn(á góðan hátt) og tyggja möntru eða lagstúf ofan í mann. Seiðandi möntru. Í Lex Talionis eru mjög minnisverð hrynjandi og æpandi gítarflækjur. Sakis syngur hreinni röddu nokkur skipti og eru það talsvert dramatískar áherslur í lögunum Nightmare og Dying. Í Dying er gegnum gangandi þema um hverfulleika og söknuð. Uppbygging lagsins er kostuleg. Stigvaxandi. Gítarlínan sem fylgir hreinlega talar til manns, varíerast hærra og aftur niður. Hughrifin verða jafnframt staðfesta og þrautseigja gegn mótlæti. The call of the aethyrs gefur frá sér hráleika og skerandi riff. Lokalagið, Under the name of the legion, er einstaklega hæfandi kveðja . Þungbúin og tilþrifamikil hljómkviða.

Genesis kom mér allmikið á óvart. Ég bjóst við að hér væru nokkur lög sem ég hrifist af en það kom á daginn að öll lögin þykir mér hafa eitthvað hrífandi við sig og hafa sinn sérstæða karakter. Ekkert lag er of líkt hinum. Upptökugæðin eru í hæsta flokki. Sakis fer um víðan völl í raddbeitingu og hugmyndaauðgi.

Lex Talionis

Dying

Bessi

Scott Kelly - The Wake

Scott Kelly – The Wake (2008)

Neurot Recordings –  2008

Scott Kelly er kannski ekki nafn sem allir þekkja, en hann stofnandi hljómsveitarinnar Neuroris (ásamt Dave Edwardson og Jason Roeder). The Wake er önnur sólóplata Scott Kelly, en fyrsta plata hans “Spirit Bound Flesh” var gefin út árið 2001.

Á “The Wake” er aðeins að finna Scott sjálfan ásamt kassagítar, ekkert annað, en þrátt fyrir það er þetta nokkuð þung plata, að minnstakosti miðað við andrúmsloftið sem myndast við hlustun hennar.
Það er eitthvað sem heillar mig við þessa plötu, hvort sem það sé rámur og yfirvegaður söngur Scotts, dimmt yfirbragðið plötunnar eða augljós áhrif Johnny Cash á drenginn, það skiptir bara engu máli því hér á ferð er þunglyndislegt, yfirvegað og vandað kassagítarsrokk sem mun dýpra en flest annað rokk í dag.

Valli

Elder - Elder

Elder – Elder (2007)

Self-Released –  2007
http://www.myspace.com/beholdtheelder

Plata þessi er fyrsta breiðskífa hljómsveitarinnar Elder. Tríó þetta spilar doom, sludge, stoner drullu og ef þessi fimm laga skífa er spiluð hátt nötrar í húsinu undan þungum tónunum. Þessi sveit er ekkert að hafa fyrir því að fela áhrifavalda sína og heyrist það langar leiðir að þarna fer sveit sem hefur eytt dágóðum tíma í að hlusta á Black Sabbath og Sleep, ég heyri líka heilmikið Fu Manchu í þessu, mjög loðið stuff. Lítið nýtt á ferðinni en þrátt fyrir það er þetta góður frumburður þar sem lagasmíðarnar eru með miklum ágætum og á köflum er lítið mál að gleyma sér og fljóta með virkilega flottu groovinu sem er á plötunni.

Fyrsta útgáfa sveitarinnar var split með Queen Elephantine og árið 2007 gáfu Elder út demó. Þetta er því frekar ung sveit með fáar útgáfur á bakvið sig, og þrátt fyrir augljósu Sleep áhrifin (söngvarinn hljómar meira að segja á köflum eins og Al Cisneros) er þetta það vel gert að það hættir að skipta máli eftir eina til tvær hlustanir.

Bassinn er ristastór í hljómnum þeirra og mikið fuzz í gangi. Platan byrjar tiltölulega rólega í þeim skilningi að þeir byrja á hægum þungum riffum, en keyra þetta síðan meira í gang seinni partinn í bland við speisuð og grípandi sóló. Fyrir mér sameinar þessi hljómsveit flest af því skemmtilegasta og besta sem fyrirfinnst í stoner og doom stefnunum; groovy riff og catchy sóló, nötrandi þung riff og hellings reverb á söngnum! Elder hafa sína eigin nálgun á stefnuna sem Sleep höfðu líka svona hrikaleg áhrif á, og það verður ekki tekið af þessum Massachusetts rokktuddum að spilamennskan er til fyrirmyndar og platan er góð. Efnileg sveit og fínasti frumburður. Maður fylgist klárlega vel með þessum guttum í framtíðinni.

Jói

Children Of Bodom - Skeletons In The Closet

Children Of Bodom – Skeletons In The Closet (2009)

Spinefarm –  2009

Finnska hljómsveitin Children of Bodom var stofnuð árið 1993 í Finnska bænum Espoo og hefur sveitin náð miklum vinsældum í heimalandi sínu og meðal þungarokkara um allan heim. Núna í ár er komið að því að hljómsveitin sendi frá sér samansafn af coverlögum (ábreiðu útgáfum) með hinum og þessum sveitum, en hingað til hefur sveitin verð nokkuð þekkt fyrir hinar og þessar ábreiður. Á disknum er að finna efni frá fjölbreyttum heimi tónlistarinnar, Slayer, Creedence Clearwater Revival, Scorpions, The Ramones, Britney Spears og Iron Maiden til að minnast á eitthvað.
Það er alltaf erfitt að fjalla um svona diska, en að vissu leiti gerir sveitin mér þetta auðvelt þar sem mikið, og ég endurtek MIKIÐ af þessu efni er varla útgáfuhæft drasl. Ég fann ekki eitt einasta lag sem mér fannst skemmtilegt í þeirra flutningi, hvorki skemmtilegar útfærslur eða eitthvað sem hægt var að skemmta sér yfir. Þarna eyddi ég klukkutíma af ævi minni sem ég næ ekki til baka aftur andskotinn.

Valli

Momentum - Fixation

Momentum – Fixation, at Rest (2010)

Molestin records –  2010

Fyrsta orðið sem kom upp í hugann þegar ég vildi fara að skrifa eitthvað um þessa þriðju plötu Momentum, er dýpt. Þetta er afar djúp plata, miklar pælingar, framsækin og örugglega mikil vinna að baki. Þessi orð gætu átt við margar útgáfur margra sveita en við þennan lista mætti í mörgum tilfellum bæta við; hástemmd, skýtur yfir markið, arty-fartý, tónlistar kafnar í egóískum pælingum eða að tónlistin er hreinlega hundleiðinleg.
“Fixation, at Rest” er ekkert af þessu. Hún er djúp og full af framsæknum pælingum sem eru um leið massívar, magnaðar og grípandi. “Fixation, at Rest” heldur athyglinni. Ég hlusta mikið á tónlist en í flestum tilfellum er ég að gera eitthvað annað á meðan. Það er ekki hægt meðan “Fixation, at Rest” spilast.
Platan byrjar með ambiance sem leiðir hlustandann inn í framsækið, hægt og angurvært þungarokk; “Metamorphosis” sem færir örvæntingu í hvert hús, í köflum sem, ef leiknir sér á parti, myndu hljóma afar óskyldir. En galdurinn við lagasmíðar Momentum er m.a. hvernig þeir láta ólíka ryþma og línur renna saman, stundum á tilraunakenndan hátt svo úr verður lagasmíð sem á sér engan sinn líka. Það gengur á með þungri, hægri, uppbrotinni en átakanlegri keyrslu þartil í miðju “Holding Back” þar sem keyrslan pompar og við tekur angurvær gítarlína sem kemur við hjartarætur og setur hlustandann snarlega í hugleiðsluástand sem viðhelst þegar laglínan kemur inn, mögnuð upp með allri hljómsveitinni (auk píanós – aldrei hefur íslenskt metalband áður notað píanó til að þétta keyrslukafla) og tröllarödd Axels úr Celestine (sem btw er þyngsta hljómsveit íslandssögunnar) þrumar viðlagið með Herði Rauðskegg. Þvílík upplifun!
Notkun og beiting radda er annað sem er áberandi sérstakt á “Fixation, at Rest”. Í “Red Silence” t.d. kallast í fyrstu á þrjár raddir sem öllum er beitt á mismunandi hátt og eru misframarlega í mixinu, þar til hægist á og þungur hrynjandi hvattur áfram af stríðómum sellótónum heldur uppi hreinni rödd sem aftur snertir hjartað á mjúkan og fallegan hátt en skyndilega tekur við dauði og drungi úr djúpum barka. Dauðarokksrödd syngur síðan kafla með látunsbarkanum áður en margar raddir hvísla og hvæsa einhvern andskotans draugagang svo um mig fer hrollur … og þetta er bara byrjunin á plötunni.
Það skal samt vera á hreinu að þetta er níðþung plata. Hún er heilsteypt, ekki einungis þannig að hvert verk kallist á við annað á plötunni heldur að ég heyri ekki endilega hvar eitt lag endar og næsta byrjar. Þannig er platan eitt heilsteypt verk. Hver kafli innan hvers lags er aldrei það langur að hlustandinn nái að melta hann of lengi, lagasmíðar Momentum halda stöðugt athyglinni og nokkra daga eftir hverja hlustun eru undarlega brotin riff að skjóta upp kollinum í huga mér.
Textar er settir upp í innleggsblaði óaðskildir af lagatitlum og mynda einnig eina heild, eitt psychadelískt ljóð um að brjóta upp hinn auma veruleika þeirrar tilveru sem stöðugt þarf á nýjum hækjum að halda.
Um leið og ég hlusta á “Fixation, at Rest” get ég ekki ímyndað mér annað en hversu gaman og gefandi hlýtur að vera hjá þeim strákunum að vera hluti af því ferli sem hljómsveitin Momentum er. Ég heyri hæfileika þeirra fá að njóta sín og einnig sérvisku því enginn segir þeim hvernig á að gera hlutina. Mér verður sérstaklega hugsað til Kristjáns trommuleikara í lögunum “As the Skies Break” og “Prosthetic Sea”.
“Fixation, at last” er ekki bara besta þungarokksplata ársins, heldur nokkurra síðustu ára.

Siggi Pönk