Flokkur: Safnið

Greinasafn Harðkjarna

Quest: Viðtal

14171918_10205915528242064_1066799277_n

Quest skipa þeir Grétar Mar Sigurðsson, Hreiðar Már Árnason og Bjarni Svanur Friðsteinsson. Hljómsveitin var stofnuð 2014. Quest spila beinskeytt syntha-pop/ rock í anda níunda áratugarins, sem sveitin kallar nostalgíu-popp, með áhrifum frá popptónlist úr öllum áttum. Þeir hafa getið sér gott orðspor innan íslensku tónleikasenunnar með skemmtilegri sviðsframkomu og túruðu um Evrópu í fyrsta skipti fyrr á þessu ári. Quest hóf feril sinn með nokkrum hálfkláruðum lögum í Stúdío Sýrlandi. Seint árið 2015 gaf Quest út stuttskífuna Gala, sem er afrakstur upptakanna úr Stúdío Sýrlandi. Þeir sem áður sagði túruðu um Evrópu og spiluðu meðal annars í Þýskalandi, Austurríki og Hollandi, við góðan orðstír. Quest eru sem stendur í miðju upptökuferli sem mun koma út á líðandi sumri. Kristinn Helgason settist með sveitinni og spurði þá um hvað hefur drifið á daga sveitarinnar.

 

Hvernig varð Quest til?

Hreiðar: Í mismunandi löndum.

Grétar: Já, það gerðist í mismunandi löndum.

H: Já, þetta var í rauninni bara einhver tilraun. Að gera eitthvað annað. Við Grétar vorum að spila músik saman lengi. Vorum að spila músik af mikilli áfergju. Við ákváðum bara að slaka aðeins á og gera eitthvað sem við kunnum ekki. Með þá pælingu í huga að ferlið sjálft skiptir meira máli en útkoman. Svoleiðis prinsipp var það sem leiddi af sér hljómsveitina Quest.

G: Þetta var líka þannig að við vorum alltaf gera eitthvað á skjön við það sem heitir popp-tónlist. Þetta sem var að hljóma í útvarpi og í verslunum, svoleiðis tegund af popp-tónlist. Og í kjölfarið á því vildum við ekki vera að gagnrýna svoleiðis popptónlist. Þetta var mitt persónulega ferðalag sem leiddi af sér Quest.

Bjarni: Ég kem inn í þetta aðeins seinna. Við vorum að vinna í einhverjum lögum, það var kominn einhver grunnur. Á þeim tíma bjó ég út í Berlín og Grétar sendi á mig einhver lög. Ég spilaði einhvern gítar við lögin og það sem næsta sem ég vissi þá var ég kominn inn í þetta líka.

   14182145_10205915529402093_368533176_n 

Hverjir eru helstu áhrifavaldar?

 G: Eins og ég sagði áðan, þá var það eiginlega öll tónlist sem ég þoldi ekki til að byrja með. Það voru helstu áhrifavaldar mínar, að öll tónlist sem ég þoldi ekki og hlustaði ekki á dags daglega, það eru mínir helstu áhrifavaldar, til að byrja með. Ég var einhvern veginn farinn að skilja það dæmi. Tónlist eins og sú sem er spiluð á FM, svona óþolandi popp-tónlist. Svona froða, Froðan var helsti áhrifavaldur til að byrja með. Síðan fór maður í eitthvað ferðalag um að reyna að kryfja froðuna.

H: Mætti kalla þetta svona ímyndartónlist, sem snýst meira um magn en gæði.

G: Svona rotvarnarefna-músik.

H: Stútfullt af e-efnum.

G: Stútfullt af e-efnum. Það er ekkert næringagildi, engin alvöru vítamín. Þannig músik.

B: Músik sem reyndar lifir mjög lengi.

G: Já, sem lifir mjög lengi. Fólk nærist á þessu.

 

Þið túruðuð um Evrópu fyrr á þessu ári, hvernig var ykkur tekið?

Q: Bara mjög vel. Eiginlega bara alls staðar, mjög vel. Frábærlega í rauninni.

G: Nema kannski í Amsterdam. Það var líka mjög skrítið gigg. Samt annars staðar vorum við að fá frábærar viðtökur, fólk var að fíla þetta í drasl. Það má segja að viðtökurnar voru vonum framar, fólk var virkilega að fíla þetta.

H: Við spiluðum á mánudegi. Á bar sem mundi miklu frekar henta einhvejrum trúbador heldur en okkur. Það eina sem vantaði var bara pool-borðið.

G: (við Hreiðar): Þú varst settur í eitthvað gler-búr.

H: Já ég var settur í eitthvað plexi-gler búr. Og við vorum spurðir í miðju giggi hvort einhver mætti syngja með okkur. Það var rosalega táknrænt fyrir stemninguna. Fólkið þarna var meira tilbúið að heyra eitthvað Bon Jovi-lag heldur en eitthvað frumsamið.

G: En annar staðar voru bara mjög góðar viðtökur. Að öllu leyti gekk þetta að vonum framar. Það voru meira og minna allir að fíla þetta. Það voru líka nokkur atvik, sem snerust um að það voru nokkur mistök í bókunarferilinu. Á nokkrum tímapunktum þá þurftum við að lækka tónlistina, eða þú veist spila lægra. Eins og t.d í Bochum, þá voru móment þar sem við vorum að spila á svona litlum stöðum þar sem það mátti ekki spila á trommusett eftir klukkan tíu. Þannig að við þurftum að spila lægra. En alls staðar voru áhorfendur mjög ánægðir með það sem þeir heyrðu.

H: Flestir vildu fá okkur aftur. Þetta var líka fínt miðað við að spila á Íslandi vegna þess að stundum hérna á Íslandi er þetta í rauninni eins og fangelsi. Það var fínt að spila á svona Evrópskum stöðum og fá langtum betri viðtökur en við fáum venjulega hérna heima.

 

 

14218588_10205939061670385_556462953_n Eftir að hafa túrað um Evrópu, hvernig finnst ykkur tónleikastaðir í Evrópu vera samanborið við þá íslensku, eins og t.d Dillon eða Húrra? 

H: Húrra er náttúrulega flottur staður en almennt séð fannst mér viðmótið gangvart list og listamönnum vera aðeins meira frískandi. Vegna þess að það er oft eins og maður sé að angra fólk með listinni sinni hérna á Íslandi.

G: Svo fengum við líka borgað þótt að enginn hafi mætt á tónleikana. Eins og með Amsterdam giggið, við drógum ekkert að en okkur fannst eins og staðirnir báru virðingu fyrir listinni. Mér fannst í rauninni ekki vera mikill munur á þeim sem mættu á tónleikana heldur miklu frekar á þeim sem stóðu að tónleikunum, starfsmönnum staðanna. Mér fannst í rauninni vera verulega mikill munur bara gangvart virðingu fyrir tónlistinni.

En svo fannst mér líka mjög skemmtileg að hérna heima er ákveðinn hópur af fólki sem mætir á tónleika og finnst gaman og svona en þarna úti var þetta meira, þú veist, píparinn á horninu og kjötiðnaðarmaðurinn í bænum. Jói á bolnum var bara mættur, skiluru. Og hann var að hlægja og brosa allan tímann og þakka okkur fyrir show-ið. Og það má í rauninni segja að það sé svolítil elítu stemning í tónleikahaldi hérna á Íslandi. Eins og ég sé ekki fyrir mér, þú veist, Smára járnbindingarmann mæta á tónleika hérna heima.

H: Já fólk hugsar meira hérna heima, þetta á meira erindi við mig heldur en hvern sem er. En svo er líka svo mikið rof milli þeirra sem mæta á tónleika og þeim sem kaupa tónlist. Því þeir sem mæta á tónleika, og ég vil ekki hljóma of fordómafullur, en þeir eru ekkert endilega að kaupa diska. Og sá sem mætir aldrei á tónleika, sá sem mætir bara á Jólatónleika Björgvins Halldórssonar eða Bubba, sem heldur síðan uppi allri tónlistarsölu á Íslandi. Þetta er svolitið illskiljanlegt og maður spilar á tónleikum fyrir fólk sem mætir en er í rauninni ekki í neinu kontakti við fólk sem er að hlsuta reglulega á tónlistina þína. Þarna úti er stærri markaður þannig að það er auðveldara að finna fólk.

  

Þið eruð þrír í bandinu, og hafandi verið í öðrum hljómsveitum, finnst ykkur betra að vera færri eða fleiri í hljómsveit?

H: Það eru náttúrulega praktískar ástæður fyrir því að það sé betra að vera færri. En á móti kemur er að vera fleiri er tækifæri til að bounca á hugmyndunum sem maður fær. Það var strákur með okkur þarna úti, vinur okkar sem heitir Ingi, sem var með okkur og það var fínt að fá smá pörun því ég held að ef við hefðum verið þrír þá hefði verið minni dýnamík. En þegar það kemur að því að semja tónlist þá fer það nátturulega bara eftir eðli tónlistarsköpunarinnar. Og í okkar tilfelli er það sjaldgæft að við hittumst á æfingum og semjum. Við erum frekar hver í okkar horni að fá hugmyndir og svo hittumst við og komum bara með tilboð á hvorn annan. Þannig að að þessu leyti er þetta skilvirkt. Það er auðveldara að halda fund með þremur heldur en fjórum.

 

 

Þið kallið tónlistinna ykkar nostalgíu-popp. Hvað eigið þið við með því?

H: Já, nostalgía er bara svo fallegt orð yfir einhverja períóðu, sem getur alveg eins verið vika eða ár og í þessari nostaglíu, þessari fortíðarþrá við erum í raunninni að beina henni í gegnum tónlistina okkar. Við erum ekkert að finna upp hjólið en við vitum hvað við viljum og búum eitthvað til úr hlutum sem eru nú þegar til staðar, og móta eitthvað úr því. Nostalgían er í rauninni bara hughrifin.

G: Íslenska orðið yfir nostalgíu er fortíðarþrá. Hugtakið fortíðarþráarpopp mundi aldrei virka. Nostalgíu-popp er líka svolítið international, það er ástæðan fyrir því að við erum það. Því við eurm líka að reyna að kryfja það hvaðan froðan kemur. Og ég held að hún kemur úr einhverju rosalega spennandi, tæknilegu, tilraunakenndu tímabili þar sem fólk bara er að prófa ýmislegt. Við lifum líka á þannig tímum að núna er í rauinni allt aðgegnilegt. Þú þarft ekki að eiga pening til að prófa alls konar. Við erum í raunninni að gera það sem besta sem við getum úr þessu, þessu analóg-dóti sem fólk er að gera tilraunir með. Við erum að kryfja hvaðan allt þetta kemur. Tæknin er í raunninni það sem mótar sánd bandsins mest.

H: Módernismi maður. Við læknum alla sjúkdóma, við semjum bestu lögin, fáum besta sánidð.

 

14269473_10205939063150422_733798577_nHvar finnst ykkur best að spila í bænum?

G: Búálfurinn er mjög næs. Búaálfurinn í Breiðholti.

H: En við höfum haldið skemmitlega tónleika víða, t.d á Gauknum og á Húrra.Eins og áður sagði höfum við verið að fá vægast sagt frábærar viðtökur. En þetta fer í raunninni meira eftir fólki. Því meira sem maður spilar því meira áttar maður sig á því að þú veist maður setur á sig einhverjar kröfur til sín sem tónlistarmaður, en það að spila á tónleikum snýst um bæði þáttökuna og samspilið þar á milli. Þó að maður getur verið að ergja sig yfir einhverju lélegu monitor-sándi eða eitthvað, þá mundi ég skipta út góðu monitor-sándi fyrir tíu glaða dansara alla daga.

G: Þetta er í raunni eins og að vera góðu partíi, með vini sínum og það er verið spila lág-gæða mp3-fæla og allir eru að fíla sig versus það að fara á einhvern stað með minni stemningu en geðveikum græjum, það er þetta mannlega sem heillar.

H: Já, maður getur gert bilaðar tæknilega kröfur einhvern tíman seinna.

 

Þið gáfuð út plötuna Gala á soundcloud. Hvernig móttökur hefur hún verið að fá?

G: Ég mundi segja mjöög góðar.

H: Bara einstaklega frábærar.

G: Þær móttökur sem við höfum fengið eru mjög góðar.

B: Höfum fengið mikið lof fyrir gott sánd á plötunni.

H: Við erum náttúrulega ekki á neinum metsölulistum, en fyrir okkur erum við kannski bara introvertífir svo að þetta var ferli sem var mjög gefandi og skemmtilegt. Við unnum plötuna eins mikið sjálfir og við gátum.

B: Það var líka mjög skemmtilegt hvernig hún kom til. Við vorum ekki búnir að fara á eina hljómsveitaræfingu þegar við fórum í stúdíó til að taka hana upp. Við vissum allir alveg hvað við vildum gera.

G: Við gerðum ýmisegt öðruvísi í stúdíói en við gerum á tónleikum. Við höfum breytt lögum mikið þegar við spilum á tónleikum.

H: En við erum mikið fyrir það að vera DIY og setja okkar eigin standard. Og keppast við að bæta okkur. En varðandi plötuna, þá er það rétt að hún kom út á soundcloud, en við vildum líka í staðinn fyrir að gefa út geisladiska, fara aðra leið. Við höfum samband við góðan vin okkar í Kína og látum prenta út gullhúðaða USB-lykla, með plötunni inn í, og fórum með það út sem söluvarning.

G: Við seldum einhvert 40 stykki.

H: Já og fólk tók almment bara vel í þetta format. Þetta var að okkar mati miklu sniðugra heldur en að prenta marga geisladiska, sem enginn kaupir og enda uppí skúffu. Í versta falli getur fólk þá keypt USB-lykilinn, hatað plötuna, hent henni út og notað plássið í tölvunni fyrir eitthvað annað, eins og Friends-þættina, eða Seinfeld.

 

Stefnið þið á gefa út meira efni í náinni framtíð?

B: Jú, við erum í upptökuferli núna.

G: Það er ekki alveg ráðið hvenær hún kemur út. Sumt af þessu er mjög gamalt stöff sem við erum ennþá að klára, en við erum mjög, mjög ákveðnir í því að koma þessu út sem fyrst. Það er á leiðinni myndband sem var tekið upp á filmu.

H: Já, það kemur mjög fljótlega.

G: Síðan þegar við vorum á túrnum um Evrópu þá tókum við upp tónlistarmyndband með virtum frönskum ljósmyndara sem að aðstoðaði okkur við það.

H: Algjör síkópati.

G: Virtum, vikrum, geðsjúkum ljósmyndara. Sem er jafnmikill vinur okkar og hann er geðsjúkur.

H: Við meinum þetta á mjög jákvæðana hátt. Ógeðveikt fólk er yfirhöfuð mjög óskapandi. Við vorum mjög heppnir að hitta hann því hans geðveiki fittaði vel við okkar geðveiki. Og úr þessu varð mjög gott samstarf. Við tókum ljósmyndir og vídeó og gistum hjá honum og héldum partí heima hjá honum, borðuðum matinn hans og drukkum vínið hans

G: Það voru nokkur mistök í bókunarferlinu þegar við túruðum sem gerðu það að verkum að við höfðum mikinn frítíma og í okkar frítíma þá urðum mjög akvítifir í okkar málum, héldum boltanum mjög gangandi. Síðan höfum við bara verið að hvíla okkur á þessari samvist okkar þarna úti, sem er að fara rúlla aftur núna.

H: Við erum að fara á fyrstu æfinguna okkar eftir túrinn, núna bara eftir klukkutíma.

G: Og síðan er upptökusessjón yfirvofandi. En boltinn er byrjaður að rúlla aftur. Síðan stefnum við á útgáfutónleika bráðum, í raunninni til að loka ákveðnum kafla í okkar ferli eða sögu.

 

Strákar, þá er þetta komið. Takk kærlega fyrir.

Brött Brekka – Viðtal

 

Rokksveitin Brött Brekka hefur nú verið starfandi í bráðum tvö ár, en hún var stofnuð árið 2014 úr leifum sveitarinnar Tamarin (Gunslinger). Bandið hefur getið sér gott orðspor fyrir skemmtilega tónleika og sérstakan hljóm, sem er samsuða margra ólíkra áhrifa, frá Meat Puppets, Minutemen og að böndum á borð við Melvins. Hljómsveitina skipa þeir Hallvarður Jón Guðmundsson (gítar/söngur), Sturla Sigurðsson (bassi/ söngur) og Sigurður Ingi Einarsson (trommur).

Bandið stefnir að gefa út efni núna von bráðar. Kristinn Helgason settist niður með þeim Hallvarði, Sturlu og Sigurði og spjallaði aðeins við þá um uppruna bandsins, áhrifavalda og með hvaða tónlistarfólki þeir mundu stofna hljómsveit með.

 

Hvernig varð Brött brekka til?

St: Ég mundi segja, ég og Hallvarður vorum í hljómsveit áður en að Brött Brekka varð til, hún hét Tamarin (Gunslinger) . Síðan slitnaði upp úr því bandi og við fórum að gera mismunandi hluti. Ég og Hallvarður ákváðum að halda áfram að vera í bandi og að spila rokk. Þannig varð Brött Brekka í grunninn til.

Sigurður: Vantaði trommara.

Sturla: Vantaði trommara.

Sigurður: Við höfum þekkst síðan við vorum krakkar í grunnskóla.

Hallvarður: Siggi kom eiginlega á eina æfingu og hefur verið í bandinu síðan.

Spyrill: Svo þetta þróaðist upp úr því?

Hallvarður: Já.

Hverjir eru helstu áhrifavaldar?

St: Úff!

S: Þeir eru margir, maður.

St: Ég mundi segja að allavega hjá mér er það Minutemen, Meat Puppets og Melvins dálítið hátt á listanum.

S: Svo er krautrokkið mikið inn hjá okkur. Neu og Can og þessi þýsku gömlu.

Sp: Holger Czukay?

S: Holger Czukay. Minn uppáhaldstrommari er Can trommarinn, Jaki Liebezeit. Og þetta er svona, bræðingur af mörgu. Sonic Youth, Melvins, Fugazi.

H: Líka bönd eins og Polvo. Ég mundi segja að Ash Bowie úr Polvo sé mín helsta fyrirmynd í gítarleik. Líka Luc Lemay úr Gorguts.

S: Og Genesis. Við verðum að segja Genesis líka.

 

Hvernig gengur ferlið fyrir sig þegar þið semjið lög? Hefur einhver meira að segja en annar hvernig lögin verða til?

S: Tja, allavega er það þannig að Hallvarður semur rosaleg gítarriff. Hann kemur með alveg fáranleg riff á æfingu og við skiljum ekkert í því hvað hann er að gera. Og hann skilur það eiginlega ekki sjálfur.

H: Ég er oft ekki viss í hvaða takti ég er, en svo þegar ég spila riffin fyrir Stulla og Sigga þá segi kannski: ,,Nei já, þetta er í níu eða áttundu.’’

S: Þá kemur FÍH-bakgrunnurinn sér vel. Geta aðeins greint hvað þetta er sem Hallvarður hefur verið að semja. En þetta er rosa jafnt allt hjá okkur.

H: Það líka heyrir til undantekninga að við séum að segja hvor öðrum hvað við eigum að spila.

St: Já, það er ekki nema það sé eitthvað alveg sérstakt.

S: Þetta snýst líka bara um eitthvað áveðið flæði.

Sp: Já það kemur flæði og þið rúllið bara með því?

S: Já þetta er oft þannig að við höfum margar stutar æfingar. Í staðinn fyrir að keyra einhvejrar fjögurra tíma æfingar þá er þetta í staðinn kannski klukkutími, þrisvar í viku. Stundum er þetta bara 40 mínutur þar sem við keyrum þetta í gegn og við þurfum í rauninni ekkert meira. Þægilegt að vera trío líka.

St: Já trío er alveg perfect.

 

Þið spilið mjög sértaka tegund af rokki sem finnst ekki mikið í íslensku tónlistarsenunni, Hvernig finnst ykkur fólk taka bandinu?

BB: Bara vel.

St. Það er einn og einn sem tekur þessu bara mjög vel.

H: Já ég hef heyrt fólk segja eftir t.d tónleika, upp á það hvernig við skilgreinum bandið, að við séum eiginlega bara svona, já, rokkband.

St: Ég segi það líka yfirleitt þegar einhver spyr mig hvernig músik við spilum, þá segi ég bara: ,,Já, þetta er bara rokk, maður.’’

S: En fólk hefur verið að taka þessu bara rosalega vel.

H: Já, við eigum nokkra fanboys.

S: Já en með svona músik þá eru kannski takmörk fyrir því hversu vinsæl hún verður.

St og H: Við erum ekki vissir um að við séum að þessu til þess.

S: Það er bara geðveikt gaman að spila þetta.

St: Ég hef verið að pæla í því að ég væri í rauninni geðveikt sáttur með mig í tónlist ef einhver mundi einhvern tímann pikka upp plötu eftir mig og segja svo: ,,Yeah, þetta er rokk.’’ Eins og ég var þegar ég var sextán.

H: Já það er eiginlega það sama upp á teningum hér.

 

Þið hafið verið að vinna að plötu. Hvernig gengur það, hvenær hugsið þið að gefa hana út?

S: Upptökur eru búnar af smáskífu. Svona EP plötu.

St: Allt það helsta er tilbúið. Það er bara svona beisik fiff sem er eftir sem er búið að vera dragast á langinn.

S: Við ætlum að henda henni á netið. Svo stefnum við í heila plötu. Það verður kannski live-plata.

St: Já allavega eitthvað af henni verður það.

S: Við virkum mjög vel live.

St: Já mér finnst alltaf vera smá munur að spila live og að spila upp í æfingahúsnæði.

Sp: Þannig að það er meiri metnaður fyrir því að vera live-band heldur en studio-band?

S: Já. Eins og þessi bönd sem við töldum upp áðan gerðu mikið. Eins og Fugazi, þeir voru ekki að halda tónleika til að kynna plöturnar sínar heldur öfugt. Þeir voru frekar að gera plötu til að kynna tónleikanna. Sem er flott pæling.

St: Mér finnst það meika alveg fullkominn sens.

H: Líka eins og hvernig tónlistarsenan er í dag, þá er live-showið svolítið einstakt dæmi. Það er líka ekki eins og peningurinn skipti miklu máli í dag, það er ekki hægt að hafa mikinn pening upp úr því í dag að selja plötur. Tónlistin lifir frekar í live-showinu.

 

Er mikið af persónulegum tilfinningum eða mikil tilfinningaleg útrás í lögunum hjá ykkur?

St: Ég mundi alveg leyfa mér að segja það sko.

S: Já, það er mjög mikið á köflum.

H: Sérstaklega eitt lag, Snake Oil Song. Það er líklegast beinskeyttasti texti sem ég hef samið.

Sp: Ok. Af persónulegum ástæðum?

H: Já.

St: Talandi um útrás, þá er það alltaf góð útrás að spila bara hátt rokk og öskra smá.

Sp: Já. Betra en ræktin?

BB: Já.

H: Þá má fullyrða að það sé betra en ræktin, með þeim fyrirvara að ég hef aldrei farið í ræktina.

S: Ég spilaði einu sinni í prog-bandi í gamla daga. Við fengum einu sinni dóma þar sem það var sagt að það væri óskiljanlegt hvernig kreppan gat leitt af sér svona djúpspaka proggara. En almennt séð, er maður reiður.

St: King Crimson geta verið svolítið reiðilegir.

S: Já. Robert Fripp var alltaf í vondu skapi.

 

Mundið þið segja að umhverfið hafi áhrif á tónlistina ykkar? Er mikil Reykjavík í lögunum ykkar?

St: Nah, svona ég mundi frekar segja það væri mikil California í lögunum okkar.

S: Já. Það er svolítið mikið … Bandaríkin.

Sp: Sem kemur frá böndunum sem höfðu áhrif á ykkur?

St: Já nákvæmlega.

St: Einu sinni spiluðum við alltaf í svona stuttermaskyrtum með svona mikinn sumarfíling.

S: Já, þetta er sumarband. Þetta er ekki mikið þungt og dimmt band sem mundi passa við Reykjavík. Þó að þetta virki alveg á veturna líka.

St og H: Jú ælti það ekki.

 

Eigið þið ykkur uppáhaldsstað til að spila á tónleikum?

H: Ég er persónulega frekar hrifinn af Dillon.

St: Já mér finnst Dillon alltaf frekar næs. Eða svona, mér finnst alltaf gaman að spila á svona litum stöðum þar sem er ekki einu sinni svið og allir eru einhvern veginn ofan í hvor öðrum. Ég fíla það.

S: Já Stulli biður staðinn alltaf um að færa borðið sem er alveg við sviðið á Bar 11. Við viljum hafa svona nánd.

St: Jú mér finnst það virka best. Langskemmtilegast.

S: En í rauninni eigum við okkur ekki uppáhaldsstaði.

St: Já. Dillon finnst mér ágætur en maður er samt leiður á því hvað það er lítið úrval af stöðum til að spila á.

Sp: Finnst ykkur vanta betri vettvang?

S: Já. Líka fyrir alla aldurshópa.

Sp: Já. Þegar ég var að alast upp þá var mikið um all-ages metal tónleika, þar sem hardcore-ið, death metallinn og black metallinn spiluðu allir saman.

St: En við spiluðum á all-ages tónleikum um daginn. Sem er varla frásögu færandi.

H: Við getum ekki sagt að það hafi verið velheppnað gigg. En ég verð samt að segja að ég fílaði venue-ið. Ef það væri hægt að ganga útfrá því að það væri gott sánd þarna þá væri ég alveg til í að spila þarna aftur.

St: Þetta var í Molanum í Kópavogi.

S: En já, maður. All-ages. Meira af því.

St: Maður saknar staða eins og Kaffi Hljómalind. Það vantar svo mikið einhvern þannig tegund af stað. Staður sem þyrfti að vera miðsvæðis, einhverstaðar á Laugaveginum. Það var alltaf svo þægilegt að fara þangað.

Þegar maður er ungur þá er maður líka svo móttækilegur fyrir nýrri tónlist. Eins og þegar bönd voru að koma í MH í gamla daga, maður bara missti sig. Það er á þesum aldri, 15-17 ára þar sem maður er að detta í góða tónlist.

 

Og ein spurning fyrir hljóðnördanna, Hvernig effekta/ gítar/ bassa-dót notið þið venjulega?

BB: Engan. Hehe.

H: Ég nota Ibanizer-tube screamer. Sem er svona distortion-pedall. Og ég notaði hann fyrst frekar sparlega. Núna nota ég hann eiginlega alltaf.

BB: Það er svolítið mikið Plug ‘N Play hjá okkur.

S: Já eins og með trommur. Ég spila bara á það sem er til á staðnum. Reyni að hafa frekar stóra og feita simbala og þá er ég góður.

H: Já. Með gítarinn, ég er með svona Squire, svona modifyaðan Jazzmaster sem ég keypti á slikk í Tónastöðinni.

 

Og ein aðeins snúnari spurning, við hvaða Coen-mynd mundi að ykkar mati tónlist brattrar brekku passa best við?

H: Ætli það mundi ekki passa best við einhverja svona dark Cohen mynd?

St: Kannski bara, Blood Simple.

S og H: Já einmitt.

H: Já ælti það væri ekki bara Blood Simple. Sociopatar og mikið blóð.

 

Er brött brekka pólítískt band að einhverju leyti?

H: Sko, öll tónlist er pólitísk að einhverju leyti. Mundi ég segja. Það sleppur enginn við það.

St: Ég er ekki með mikla pólitík á bak við eyrað. Kannski þegar maður er að semja eitthvað.

S: En við tölum ekkert mikið um pólitík. Við tölum bara um bíómyndir.

St: Eina pólitíkin sem við tölum um er pólitíkin úr Simpsons-þáttunum.

S: Við erum í rauninni bara, algjörir lúðar.

H: Það er kannski ekki mikið um neina þjóðarpólitík en jafnvel eitthvað um öðruvísi pólitík. Lagið ,,Snake Oil Song’’ er um svona sölumenn sem að féfletta krabbameinssjúklinga. Lagið tekur klárlega afstöðu gegn slíku havaríi. Það er í rauninni eina lagið okkar sem er einhversskonar afstöðu lag. Annars eru textarnir bara orð sem ég strengi saman sem mér finnst hljóma vel.

St: Já. Þetta er svolítið þannig.

H: Maður leggur samt alveg einhverja hugsjón í textanna þótt maður viti alveg að þeir heyrast ekkert sérstaklega vel þegar maður er að góla þetta live. En það skiptir samt máli. Maður þarf að trúa því sem maður er að góla.

St: Já. Ég hef stundum verið að semja texta sem fjalla bara um það hversu þreyttur maður getur orðið á áreitinu í kringum mann.

H: Sem má segja að það sé líka einhverskonar pólitísk afstaða. En svo er líka lag eins og ,,Continental Breakfast’’ sem ég samdi um ,,The Phantom Zone’’ í Superman 2.

S: Það var frábært á síðustu tónleikum þegar þú spurðir crowdið hvort það hafi séð Superman 2. Það hafði enginn séð hana.

St: Síðan eru líka lagatitlar sem við höfum bara tekið úr Simpsons .

H: Já. Eins og t.d ,,Find Your Soulmate’’. Chili-þátturinn sem Johnny Cash talaði í.

S: Sem væri mögulegt nafn á EP-plötunni. En EP-platan á heita ,,Vs. the Monorail.’’

Og svo lokaspurning, eiginlega fyrir hvern meðlim bandsins; ef þið gætuð stofnað hljómsveit með hvaða tónlistarmanni sem er, með hverjum mundið þið gera það?

Ég mundi segja Michael Rother, gítarleikarinn í Neu. Ég mundi fíla það í botn að bara zona-út og spila með honum. Ég held að trommarinn í Sonic Youth, Steve Shelley, hafi túrað með Michael Rother og ég man hvað ég öfundaði hann alveg ógeðslega mikið.

St: Já, stórt er spurt. Það væri alveg geðveikt að vinna með Ash Bowie eða Mike Watt úr Minutemen.

H: Má maður nefna fleiri en einn?

Sp: Já.

H: Ég væri til í að vera í bandi með Mary Timony úr Helium, Dale Crover úr Melvins á trommur og hérna .. Ragga úr Botnleðju.

S: Annara bara, Stulla og Hallvarði. Það er langt skemmtilegast.

Sp. Þá er þetta komið. Strákar, takk kærlega fyrir spjallið.

BB: Takk sömuleiðis.

Sjö ár af öfgum eða: Hvernig I Adapt innleiddu harðkjarnann á Íslandi og bera þess vart bætur síðan

 
 
Eftir: Hauk S. Magnússon
 
Þetta er tilfinningaþrungin stund. Síðasta kvöld hljómsveitarinnar I Adapt, eftir sjö ára starfsemi. Birkir Fjalar Viðarsson (AKA Birkir BookhouseBoy UnnarogVidarsson), söngvari sveitarinnar og aðal-hugmyndafræðingur, stendur uppi á borði umkringdur dansandi, öskrandi vinum og viðhlæjendum. Hann öskrar tryllingslega og ber sér á brjóst. Hópurinn tekur undir.
 
Það er bankað harkalega á útidyrnar. Snarlækkað á Slayer í græjunum. Nágrannarnir þola ekki við lætin lengur og beiðast undan hávaðanum. Enda klukkan að verða fimm um morguninn.
 
Partýið er búið.
 
Þetta var rosalegt.


Hver braut spegil?

I Adapt var sjö ár:

Þrjár breiðskífur. Tugur hljómleikaferða. Tólf meðlimir (og nokkrir til). Hundruðir tónleika – frá þeim fyrstu, í bílskúr í Kópavogi, að félagsmiðstöðvum, menntaskólum, skítugum kjallaraholum, börum, íþróttahúsum að yfir-yfirfullum lokatónleikum í Hellinum. Átta milljón spjallþræðir á internetinu, viðtöl við malasíska harðkjarnaáhugamenn, þýskar grænmetisætur, ameríska anarkista og ungan Þóri frá Húsavík. Tugþúsundir kílómetra að baki og bara nokkur hljóðlát skref eftir þegar Mónitor hitti hljómsveitina fyrst að máli til að ræða allt ofangreint og fleira til, freista þess að skrásetja endalok virkustu og virðulegustu rokksveitar sem Ísland hefur alið af sér.
 
Því þó þú vissir það kannski ekki, þá var hún það. Og meira til.
 

Tveimur dögum fyrir endalokin

I Adapt æfðu í skrýtnum kjallarabílskúr í bakhúsi við Grettisgötu. Loftið er það fúið og rakaskemmt að það er nánast komið niður á gólf. Og lætin í hljómsveitinni þegar litið er inn á síðustu æfinguna sem þeir munu taka fyrir lokatónleikana (sem þá eru eftir tvo daga) eru þannig að þau gætu vel jafnað hvaða bílskúr sem er við jörðu
 
Ég fylgist með þeim spila í dágóða stund og sé strax að aðdáendur sveitarinnar eiga gott í vændum fyrir laugardaginn. Þeir renna í gegnum hvert lagið af fætur öðru af miklu öryggi, þéttir og dansandi, og greinilegt er að þeir ætla sér að gera öllum ferlinum skil á lokatónleikunum. Spila lengsta sett sem þeir hafa nokkurntíman spilað, heil átján lög. Milli laga, þegar ég kynni mig og erindi mitt, segja þeir mér að þeim kvíði fyrir, hvort þeir hafi hreinlega orku í að klára svo langa tónleika.
 
Svo slær klukkan klukkan hálfátta. Og gítarleikarinn Ingi, sem er ásamt Birki söngvara sá eini úr hópi stofnmeðlima sveitarinnar sem mun koma fram á lokatónleikunum („Þegar ég gekk í bandið voru þeir búnir að taka nokkrar æfingar og semja þrjú lög. Við náðum strax vel saman.“), þarf að fara heim að sinna fjölskyldunni og æfingunni er þar með lokið, án nokkurrar viðhafnar.
 

Landslið þunglyndissjúklinga & hljómsveitarvesen

Addi, aðdáandi I Adapt „frá því ég var þrettán eða fjórtán ára“ og bassaleikari frá september 2005, segir frá því að kvöldið áður hafði Birkir farið dagavillt og sent hann á flugvöllinn þarna um morguninn, að sækja þrjá Bandaríkjamenn sem höfðu komið til landsins gagngert til þess að fylgjast með lokatónleikunum. „Svo komu þeir ekkert, ég beið þarna frá sex í morgun til að verða níu. Þurfti að skrópa í skólanum og allt.“
 
Þeir hlæja allir. Það er vesen að vera hljómsveit og kannski ennþá meira vesen að vera í hljómsveit sem hefur frá upphafi sett sér það markmið að gera allt á eigin spýtur og vera eins sjálfstæð og óháð og hægt er. Og þetta hafa þeir allir lært í I Adapt og þessvegna er hláturinn lævi blandinn og ekki laus við að vera merkingarbær, því þetta er að verða búið og það er kannski léttir, fyrir suma.
 
Þeir segja mér hvað þeir heita, rifja upp hvernig hver og einn gekk í bandið og hverjir voru þar til að byrja með. Og við förum víðan völl:
 
Elli (Erling Bang):
„Svo héldu allir að við værum straight edge. Á hátindi sukksins. Hahaha.“
 
Birkir:
„Það héldu það allir, einmitt. Á þessum tíma varstu annaðhvort indírokkari í ræsinu eða Pantera-þungarokkari, bjórkarl í bjórbol með bjór í hendinni, öskrandi „ÉG ER MEÐ BJÓR!“ og við vorum eina bandið sem var einhvernveginn ekki með það attitúd. Og reyndum kannski að tala aðeins gegn svona innantómum lífsstíl.“
 
Addi: 
„Það héldu líka allir að bandið væri posi [„jákvæðnis-harðkjarni“], þó bandið innihéldi landslið þunglyndissjúklinga.“
 
Birkir:
„Við vorum líka að gera nýmóðins textagerð, um að það væri mögulega mjög hættulegt að vera alltaf fullur, lag um alka og lög um að rísa upp og gera eitthvað í lífinu. Þá var það túlkað þannig að við værum bara posi hardkor band og straight edge. En við vorum reyndar allir grænmetisætur á tímabili.“
 

Aldrei bara hljómsveit

Það er svosum ekki ótrúlegt að I Adapt hafi verið bendluð við allt þetta og fleira til – og af aðdáendum sveitarinnar, vinum og vandamönnum að dæma virðast þeir jafnvel hafa kynt undir það. Enda er borðleggjandi að I Adapt var aldrei bara hljómsveit, nema kannski rétt undir það síðasta. Af Birki má jafnvel ráða að vel framan af hafi tónlistin einungis verið hugsuð sem vettvangur til að kynna Íslendingum harðkjarna tónlist, þær hugsjónir sem hún stendur fyrir og þær hugmyndir sem búa þar að baki. Það hafi ekki verið fyrr en undir rest að hljómsveitin hafi fundið sér einhvern tónlistarlegan metnað annan en að búa til pönk sem hægt var að dansa og sameinast við – og breiða út fagnaðarerindi Sick of it All, Minor Threat, Strife og áþekkra sveita.
 
Birkir: „Mér fannst vanta svona band. Axel [stofnmeðlimur I Adapt] kunni lítið á gítar, en hann var gaurinn sem viss hvað var verið að tala um þegar maður nefndi einhver grunn element í pönki og kom með alvöru HC gítar, ekki bara einhver Slayer riff. Þegar við byrjuðum gerðist þetta svo hratt, það var eiginlega fyndið. Með gæja eins og Axel og Bjössa Mínus innanborðs, sprækustu gæja landsins. Ég var rosa jákvæður á þessum tíma, lífið lék við mann, það var svo gaman að vera kominn í harðkjarna band, en ekki eitthvað indí eða metal, og okkur fannst við hafa sérstöðu með því að taka þessa nálgun.“
 
Og við tölum um af hverju hljómsveitin hætti. Síðar, eftir lokatónleikana, þegar rætt var við alla meðlimina sitt í hvoru lagi kom á daginn að þeir hafa allir ólíka sögu að segja af bandinu, af hverju það stóð fyrir, hvernig það virkaði og af hverju – á endanum – það virkaði ekki. Og kannski eru þessar ólíku sögur sem þeir hafa að segja og upplifanir af mulningsvélinni I Adapt undirliggjandi og augljós ástæða þess að þeir sáu sér ekki fært að starfa saman lengur. En í hóp, án Inga (og hann tók undir, síðarmeir) var skýringin sú að bensínið hafi einfaldlega verið búið. Þeir líkja sér við gaslausan kveikjara. „Það var orðið erfitt að ná saman.“ „Erfitt að semja lög.“ „Fjórir ólíkir einstaklingar með ólíkar áherslur.“ „Þegar maður er búinn að gera þetta í sjö ár vill maður að það sé orðið auðvelt. En þetta varð það aldrei. Hljómsveitarvesen.“
 

Engar skapandi sprengingar

Birkir:
„Það verða engar skapandi sprengingar á æfingum hjá okkur lengur. Einn er kannski að hugsa um að verða ekki of seinn í vinnuna, er orðinn leiður á þessu og annar að koma af ógeðslega ferskri æfingu þar sem allt er að gerast. Við vorum á allt of ólíkum stöðum, við viljum að þetta gangi hratt, viljum ekki vera band sem starfar hægt og það gekk bara ekki lengur. Chainlike Burden [síðasta plata I Adapt] var ógeðslega hæg fæðing og það drap hljómsveitina. Það er algjörlegea bölvuð plata, allt í kringum hana. Þetta [bendir á upptökutækið mitt] gæti sprungið framan í þig, bara af því að við erum að tala um hana. Þetta var of erfið fæðing. Auðvitað elskum við barnið, þrátt fyrir erfiðleikana. Þrátt fyrir að mig langi til að skalla það.“
 
Strákarnir eru svangir eftir æfingu og ætla að fara fá sér pízzu á Skólavörðustíg. Við kveðjumst og þegar ég sé þá næst saman, tveimur dögum síðar (þó ég reyndar sjái þá varla, fyrir öllum svitanum, fólkinu og þykku loftinu í Hellinum), þá eru þeir að telja í fyrsta lag síðustu tónleikana sinna fyrir framan sal fullan af minningum, ást og að minnsta kosti þremur manneskjum sem voru viðstaddar fyrstu tónleika I Adapt, snemma árs 2001.
 
Þetta voru rosalegir lokatónleikar. Dramatískir. Langir. Sveittir. Súrefnislausir. Hár hvellur og viðeigandi endalok. Hljómsveitinni entist orkan og það gerði áhorfendum nánast líka. Það er eiginlega ekki hægt að segja frá því. Skoðið bara myndirnar á internetinu.
 

Haldið fast í minningarnar

Að tónleikunum loknum stóðu sumir aðdáendur eftir lengur í salnum en aðrir. Eins og til að freista þess að halda lokaaugnablikin heljargreipum. Árni, sem er 27 ára, segir mér frá því þegar hann varð vitni af fyrstu tónleikum sveitarinnar, í átján eða nítján ára afmæli dularfullrar Tinnu, í bílskúr í Kópavoginum. Þeir spiluðu þrjú frumsamin lög og slatta af Sick of it All og Strife ábreiðum. Hann sá alla hljómleika sveitarinnar næstu tvö árin, hvort sem það var á Kakóbar eða bara venjulegum bar, og kom reglulega eftir það. „Ég veit ekki hvað ég sá marga í allt. 2-300. Þessir voru geðveikir. Gott sjó.“
Arnar Eggert Thoroddsen, tónlistarskríbent Morgunblaðsins var einnig staddur í salnum að tónleikunum loknum og sömuleiðis í Kópavogsbílskúrnum. „Ég sá enga fella tár á lokatónleikum HAM í Tunglinu, þó stemmningin sé kannski svipuð. Það er sami fílingurinn í loftinu samt. Þegar svona hljómsveit hættir, þá er ekki bara hljómsveitin að hætta, það er ákveðið örsamfélag að leysast upp um leið. Allt þetta lið sem þú hittir alltaf á tónleikum, þá er grundvöllurinn farinn. Það er alltaf sérstök upplifun að sjá hljómsveitina saman, með öllum hinum. Ég skil vel tilfinningahitann sem maður sá á Töflunni [.org – geypivirku spjallsvæði þungarokkara, pönkara og hardkorsinna og heimavöllur I Adapt frá upphafi], þetta er mjög mannlegt og sorglegt.“
 
 
SunShineKiddarinn wrote @ http://Taflan.org/
„Ég vill nota tækifærið og þakka ykkur fyrir að hafa verið til, þið gerðuð meira fyrir senuna, tónlistina og líf margra krakka heldur en fólk gerir sér kannski grein fyrir. […]
Ég held að ég mæli fyrir alla þegar ég segi að án ykkar væri ekkert eins í þessari senu. […]
Respect all the way, og takk fyrir allt.“
Þetta voru alls ekki væmnustu skilaboðin. Þau skiptu hundruðum. Og á bílastæðinu fyrir utan fréttist af grátandi aðdáendum, aðrir voru rauðir af bræði og baksviðs í Hellinum sat Birkir Fjalar Viðarsson, söngvari I Adapt til sjö ára; sveittur, rúinn og búinn, í losti og felldi sjálfur tár. Þetta var búið. Hann vissi ekkert hvað hann átti að gera.
CLASSIC ROCK
Þó fastagestirnir hafi bara haldið áfram að spila sitt pool og hlusta á Queen, þá var eftirpartý á Classic Rock við Ármúla. Fulltrúi Mónitors gekk um með upptökutæki og tók tal af gestunum. Oftar en ekki reyndust viðmælendurnir vera fyrrum meðlimir í sveitinni, sem höfðu komið til að taka þátt í endalokunum. Stofnmeðlimurinn Axel Einarsson segir mér hvernig Birkir heyrði hann spila á gítar í partýi og ákvað að þeir yrðu að koma sér upp hljómsveit. „Við kunnum ekki neitt, höfðum bara hjartað og einlægnina. 100% einlægni.“ Hann krádsörfaði fyrr um kvöldið og klæjaði aðeins í puttana að fá að taka lagið. „Hressa upp á þetta… Ég kom fyrir nostalgíuna. Með þrúgusykur, eins og í gamladaga“
 
Tónskáldið Ólafur Arnalds segir mér hvernig hann byrjaði í hljómsveitinni og fór í sitt fyrsta tónleikaferðalag, fimmtán ára gamall. „Þeir lofuðu foreldrum mínum að passa mig… svo það fyrsta sem við gerðum á flugvellinum var að fara á fyllerí sem entist í viku […]. Ég lærði mikið af I Adapt, það má segja að veran í hljómsveitinni hafi breytt mér algjörlega. Hvað hún stóð fyrir? Ógeðslega mikla bjartsýni og jákvæðni. Textarnir eru ekki endilega um fallega hluti, en það er alltaf einhver von og það var verið að syngja til að gera hlutina betri, eitthvað sem nær til manns og hjálpar manni. I Adapt stendur fyrir einingu, við erum öll saman í þessu.“
 
Það var langt liðið á kvöldið þegar hljómveitarmeðlimirnir sjálfir létu sjá sig í eigin líkvöku, nýsturtaðir og fínir. Við töluðum saman. Tilfinningar voru blendnar. Sumir komu varla upp orði og aðrir höfðu allt í heimi að segja. Ekki lausir við geðshræringu. Sameiginlegt áttu þeir þó að þetta kvöldið virtist það mikilvægasta sem þeir höfðu gert kristallast í þessari hljómsveit, sama hve lengi þeir höfðu átt aðild að henni. Þeir höfðu gerbreyst sem manneskjur, tekið út þroska, lærdóm og reynslu.
 
Þeir segja frá tónleikaferðalögum um Bandaríkin, um Austur og Vestur Evrópu, Bretland, Wales, endalausar bílferðir, höfuðáverka, þunglyndi, partýum, gleði, sorgum og ógeði. Aðdáendur og áhangendur eru alltaf að trufla okkur, að þakka fyrir sig og jafnvel þrábiðja um endurkomu strax á morgun. Á sjötta bjór.
 
Gítarleikarinn Ingi Þór Jensson, sem virkar eins og þögla, þolinmóða týpan (og er því til sönnunar kallaður Ingi jafnaðargeð af félögum sínum) segir frá sínum vonum fyrir hljómsveitina, áhrifavöldum og hugmyndum. Og virkar í sannleika sagt ekki eins og hann fatti að bandið er hætt. En segir þó að lokatónleikarnir hafi verið skemmtilegir:
„Ég er mjög feginn að við gátum endað þetta svona. Þegar áhuginn er að minnka og það fara að koma upp konfliktar er ekki ráðlegt að halda áfram. Það væri leiðinlegt að sjá þetta þynnast út í eitthvað slappt. Ég heyrði á fólki að þessu hefði verið endað með bombu og þá er markmiðinu náð. Takk.“
 
 
 
PS:
 
Eftir Classic Rock skundaði hersingin heim til Birkis, metalhausar, hardkor-kids, Blackmetalmafían og einn eða tveir óboðnir gestir. Að drekka bjór og hlusta á October Rust. Og Slayer. Þangað til nágranninn kvartaði.
 
Tveimur dögum síðar hitti ég Birki í tebolla. Hann er með glóðarauga og veit ekki hvað hann á af sér að gera. Var að sækja um skóla í Kanada. Talar um hvert þeir fóru, hvað þeir sáu og hvað þeir gerðu. Reglurnar sem þeir settu sér („Engin þolinmæði fyrir harðhausa útkastara með stæla, bjóða alla velkomna, vera góðar fyrirmyndir, úttalaðir, spila oft og fyrir alla sem vildu heyra“), hvað þeir gerðu rétt og hvað þeir hefðu átt að gera öðruvísi.
 
„Þetta er búið að vera geggjuð ferð. Miklu meira en þeir sem þekkja ekki til gera sér grein fyrir. Miklu dýrðlegra og dýpra og þyngra en flestir átta sig á, þeir sem hrósa okkur á Airwaves, eftir þriðja bjór, í góðum festival fílíng. Þeir vita ekki hvaða djöfuls rugl er búið að ganga á. Að við erum búnir að keyra næturlangt og eyða öllum peningunum okkar til að taka eina tónleika í krummaskuði í Tékklandi. Vakna í Wales með bassaleikara í þunglyndiskasti og gat á hausnum. Húkkandi för, étandi núðlur… það veit enginn svona. Þeir vita bara að við erum rokkarar og við þurfum svosum ekkert að strjúka egótillann með því að segja öllum allt. Það þurfa ekkert allir að vita allt. Þeir sem deildu með vita. Lið í Breiðholti, Póllandi eða Vermont. Það veit. — Bónus:

Viðtal við Axel!

Hvenær hættir þú í hljómsveitinni, Axel?
Það eru sirka þrjú ár síðan ég hætti. Þrjú, fjögur ár. Ég man það ekki almennilega.

Hvernig fannst þér tónleikarnir áðan?
Góðir. Mig langaði smá að spila með í einu lagi. Smá. Mig klæjaði aðeins í puttana. Smá. Lífga aðeins upp á þetta. Þeir voru ekki alveg nógu líflegir fannst mér. Það var greinilega kominn tími fyrir þá að hætta, þetta var ekki það sem við byrjuðum á.

Nei? Hver er munurinn?
Við vorum barnalegri og einlægari. 100% einlægir.
Fannst þér þetta minna einlægt?
Neinei. Þetta var orðið þyngra og rólegra. Ekki alveg jafn hresst. Og, hérna, við gengum út frá því í byrju að vera hress tónleikasveit, og kannski vorum við bara… Tja, þetta var komið gott bara. Þeir töluðu um það sjálfir, að þetta væri komið gott.
Einmitt, þesvegna eru þeir að hætta. Hvað spilaðirðu marga tónleika?
Ég veit það ekki? En við vorum 100% einlægir á þeim öllum.
Gengur það til lengdar, að vera 100% einlægur?
Nei. Maður þroskast. Það er allt í lagi fyrir hljómsveit að breytast og hverfa frá því sem gengið var út frá í byrjun. En ég kom fyrir nostalgíuna. Vildi finna fyir gömlu dögunum. Mætti með þrúgusykur meiraðsegja, eins og á fyrstu tónleikunum…
Og það gekk ekki upp?
Nostalgían? Jú hún kom aðeins. Ég krádsurfaði smál
Sárin á skallanum á þér eru horfin (???). Þú varst bara á einni plötu. Er hún ekki lang best?
Jú, besta plata sem ég hef heyrt.
Af hverju hættirðu?
Ég var bara hættur að vera einlægur. Hættur að vera 100%
Mulingsvélin I Adapt krefst svo mikillar dedikeisjon?
I Adapt gerði það.
Menn urðu að vear 100% með?
Já, mér finnst það. Annars geta þeir ekki verið í bandinu. Núna eru Ingi og Birkir eftir úr upprunalega lænöppinu. Þeir eru alltaf einlægir.
Það gerðist heilmikið meðan þú varst í bandinu. Það varð til smá sena í kringum þetta.
Þannig byrjaði þetta: Það voru fullt af böndum í gangi að spila þungarokk. En það vantaði band til að dansa við. Fyrir okkur var enginn munur á bandi eða krádi. Það var bar aeinn hópur. Og hérna, við tókum upp hljóðfærin og gerðum þetta bara sjálfir, Bjössi, ég, Ingi, Villi og Birkir. Allir alveg að gear þetta. Við kunnum ekki enitt, höfðum bara hjartað og einlægnina. Gerðum þetta alltaf með hjarta og einlægni. Ég get kvittað fyrir það.
Ég spurði Birki um daginn hvort þetta hefði upphaflega verið svona grínband, svona one-off. Með Bjössa úr Mínus á trommunum og gaura úr öðrum böndum þarna. Svona side project?
Ég veit það ekki. Uuu. Nei. Birkir var ekki að grínast neitt. Það skein í gegn. Villi var ekki að grínast neitt. Ég var ekkert að grínast.
Finnst þér – það er kannski asnalegt að spyrja svona um hljómsveit, asnalegt að taka tónlist svona alvarlega og setja sig í stellingar ein sog hún skipti gríðarlegu máli – en þú veist það sjálfur, bandið spilaði stóran þátt í þínu lífi. Allavega… finnst þér bandið hafa… áorkað einhverju ?
Þetta var ekki komið eins og þessi sena er í dag, þegar við byrjuðum. Áhersla á meðvitund og samkennd. Þjóðfélagsmeðvitund.
Eru það tímarnir að stýra hljómsveitinni, eða öfugt?
Þetta var eithvað sem við þurftum sjálfir, sem vorum í henni.
Segðu mér frá því, ef þú nennir, frá fyrsta ári hljómsveitarinnar…
Það var þannig að ég var undir áhrifum ólöglegra fíkniefna heima hjá Sigurði Oddssyni, að spila á gítar. Og enginn vissi að ég kynni neitt. Birkir heyrði það og sagði að við yrðum að stofna hljómsveit. Það voru margir þungarokkarar til þá, en ekki margir með áhuga á akkurat þessu. Við krunkuðum okkur saman nokkrir og spiluðum og hérna… fyrstu tónleikarnir. Þeir voru líklega bestir. Við vildum dansa á sviðinu og ef enginn dansaði vildum við helst ekki hafa svið. Við fórum til útlanda og héldum partý á verslunarmannahelgum og svona. Og gáfum út plötu. Sem var rosa merkilegt.
Hvar tókuði hana upp?
Að hluta til hjá DUST og að hluta til hjá kimono.
Var fólk að mæta á tónleika hjá ykkur svona fyrst?
Senan var byrjuð þegar við komum sko. Það var þungarokksfólk í senunni, það var til staðar. Við bjuggum ekki til neina senu, hún var til, með hljómsveitum eins og Bisund og Vígspá og fleirum. Þegar við komum fór þetta kannski að taka aðra stefnu. Fólk fór að verða alvarlegra. Ekki bara þungarokk heldur lífsstíll. “Ekki láta bankann nauðga þér.”
Finnst þér þetta hafa skilað einhverju? Ertu stoltur?
Hljómsveitin? Ég veit ekki hvort hún hefur skilað einhverju. Kannski Saving Iceland liðinu? Ég veit ekki. Kannski varð hún vettvangur fyrir utangarðsfólk, unglinga sem þurfa að finna sér stað einhversstaðar. Fólk sem skilur ekki þetta mainstream, finnur sig ekki í þessari Barbie Ken tísku og þarf að gera sitt eigið. Það er þægilegt að geta fundið samastað, þar sem fólk skilur hvort annað.
Fylgistu eitthvað með böndunum sem hafa verið að koma upp síðan?
Já. Það er allt gott. Uppáhalds? Fighting Shit. Bróðir minn er í Fighting Shit. Fyrst fannst mér þeir reyndar hræðilegir. Það er rosalega erfitt að vera í svona viðtali.

Bónus: kvóts

Rammi:

Jobbi
„Ég er tæknilega ekki meðlimur. Er í bandi sem heitir Celestine Var fenginn í I Adapt fyrir túr um Bandaríkin á síðasta ári, þeir vissu að ég kunni á gítar og ég hef verið aðdáandi frá því ég var þrettán ára.“
Birkir:
„Ég held að I Adapt hafi verið eins og félagsmiðstöð. Allir velkomnir og það má gera allt, ég má flippa þó ég kunni ekki að dansa, vera með Manson-málningu og hæ-fæva gaur sem er ber að ofan. Þannig dót getur ekkert lifað að eilífu, þú veist. En þessi fílingur fór að dvína, hljómsveitirnar urðu færri og byrjuðu að vera meira sérhæfðar í stíl…“
Ingi:
„[…]þegar ég fór á metalkor tónleika var ég yfirleitt hálf hræddur við mannskapinn. Það var ekkert endilega hugmyndin að vera útúr jákvæðir, en við vorum svona dúddar sem voru alltaf að djóka, af hverju ekki bara djóka á sviði líka? Og þetta varð segull á fullt af svona fólki sem kom á tónleikana okkar. Við tengdumst áhorfendum á sérstakan hátt, það var ekkert annað band sem var þannig fyrir okkur, ekki í þessari senu. Fólki finnst eins og við séum vinir þeirra. Og við erum það svosem.“
Elli:
„I adapt var meira en hljómsveit, I Adapt var samfélag, en undir lokin var þetta orðið… [þögn] þetta orðið bölvað hljómsveitarstúss á endanum. Vorum alltaf að fá nýja gaura og gerðum ekki annað en að æfa þá og svona. Hálf leiðinlegt… eða ekki beint leiðinlegt, heldur hálf… hættulegt.“
Addi:
„Ég er búinn að vera meðlimur síðan í september 2005, en hef verið mikill aðdáandi frá því ég var þrettán eða fjórtán ára. Ég held ég sé tólfti I Adapt maðurinn frá upphafi. Tónleikarnir? Þetta var ótrúlegt. Ótrúleg upplifun. Ég skemmti mér konunglega og ég vona að aðrir hafi gert það líka..“ —

Bónus2: TaflanKvóts

B:
Eftir allt sem á undan er gengið…
Ansi hreint súrt og sorglegt að sjá ekki fram á fleiri show með ykkur
Todeswalzer:
iadapt eru bunir að gera allveg margt fyrir mig. Stoltur að hafa verið aðdáandi ykkar. Bara það að geta komið á tónleika og láta eins og fíbl og gera það sem hjartað segir manni að gera. Maður getur hvergi gert þetta nema á tónleikum með iadapt.

Rip
Axel:
sárt að missa hljómsveit sem hefur verið manni allt í 4 ár
þetta voru frábærir tónleikar, marblettir, rautt auga, harðsperrur, brot og hamingja..
Haffi:
ég verð bara að segja VÁÁ!!! þvílíkir tónleikar þvílíkt show! þetta var svo intense og ekkert nema reminder af hverju þetta band er svona gott! við munum sakna ykkar og alls sem þetta band hefur gefið okkur

vil líka segja takk til Gavin portland og Dys fyrir að standa ykkur frábærlega í upphituninni!

I Adapt..

takk fyrir allt saman, tónlistina, tónleikana, diskana bolina, peysurnar, stagedivin, moshin, circle pits, ruglaðar upphitanir fyrir erlend bönd, minningarnar og alla geðveikina sem allir tónleikarnir ykkar voru úti sem inni, í rvk eða útí rassgati

Birkir, Ingi, Axel, Villi, Freysi, Valur, Óli, Elli, Bjöggi, Addi og Jobbi.

takk takk og aftur takk fyrir alltsaman and we´ll miss you guys on stage

R.I.P. I Adapt 2002 – 02.02.2008

Fight The Good Fight!
TheHalflingQueen:
Kærar þakkir til I Adapt fyrir að víkka sjóndeildarhring minn, bæði tónlistarlega séð og almennt. Ykkar verður sárt saknað. En ég er ekki leið því ég naut hverrar mínútu. Allir góðir hlutir enda um síðir en ég vil ekki líta á þetta sem endalokin. Enda væri það ekki í anda Daptarans. Þetta er nýtt upphaf. Ég er orðin mjög bjartsýn á framtíð íslenskrar jaðartónlistar. Og I Adapt eiga hrós skilið fyrir að ryðja brautina af eins miklum dugnaði og einlægni og þeir gerðu. Ef komandi kynslóðir snartjúllaðra bavíana semja tónlist sína af jafn mikilli ástríðu og þeir þá held ég að við séum í ansi góðum málum.
400 manns? Almennilegt, er það ekki met? Sé ykkur vonandi öll á Celestine á föstudaginn Smiley
Peace.
Reynirofzky:
sennilega eftirminnilegustu tónleikar sem ég hef farið á.
takk fyrir frábær ár, takk fyrir allt! Bow
InnleggInnlegg: Mið Des 05, 2007 3:35 pm Efni innleggs: I ADAPT hættir störfum Svara með tilvísun
Búnir að fara víða um völl og smakka’ða hér og þar… Þetta föruneyti fer ekki lengra.
Við viljum þakka öllum sem lögðu hönd á plóginn og gerðu okkur kleyft að spila okkar tónlist fyrir aðra hér og þar og all staðr, mögulega allt of oft við hinar og þessar aðstæður. Botnlausar þakkir til fyrrverandi meðlima. Takk fyrir að mæta, tala við oss, headbanga, slamma, syngja með eða bara hlýða og góna á. Takk fyrir að deila þessu með okkur og taka þátt. Takk fyrir endurgjöfina. Við vonum að við höfum fært eitthvað á borð ykkar sem var þar ekki fyrir og vonandi blómstra einhverjir afleggjarar upp frá allri þessari vitleysu. Vinna okkar var sannarlega þess virði. Takk fyrir minningarnar og augnablikin.
Við gætum farið í að gera langa runu með nöfnum þeirra sem lagt hafa lóð á vogaskálarnar, umfram það sem eðlilegt þykir en við gerum það ekki í dag. Mögulega síðar. Þið vitið hver þið eruð og þið vitið hvað þið gerðuð.
Síðustu bartónleikarnir verða annað kvöld.
Mögulega verður eitt all ages show í viðbót…. auðvitað verður eitt all ages show í viðbót I Adapt style… we put that shit on da map!
Heyrumst
i.a.
SunShineKiddarinn:
Ég vill nota tækifærið og þakka ykkur fyrir að hafa verið til, þið gerðuð meira fyrir senuna, tónlistina og líf margra krakka heldur en fólk gerir sér kannski grein fyrir. Þið eruð ástæðan fyrir komu minni inní senuna og áhlustun á hardcore/metal og öllu því á sínum tíma og ég þakka ykkur fyrir það, þetta hefur verið frábær ferill hjá ykkur og þið hættið á toppnum.
Ég held að ég mæli fyrir alla þegar ég segi að án ykkar væri ekkert eins í þessari senu.
Ég hef ekki verið iðinn við að koma á tónleika með ykkur eins og ég hefði viljað undanfarið vegna heimilis úti á landi en ég missi ekki af lokatónleikum fyrir neitt!
Respect all the way, og takk fyrir allt.
Ingi Ernir.

I adapt á Húsavík

Húsavík, Laugardagurinn 16. febrúar

I adapt, Lost, Ben Húr

Ég var uppá heimavist þar sem ég á “heima” núna meðan ég er í skóla á Akureyri og beið eftir því að Óli hringdi í mig og segði mér hvort þeir ætluðu að skipta um bíl þarna enhverstaðar á leiðinni norður og fara í stærri bíl og þá gæti ég fengið far með I adaptinum til húsavíkur en síðan skiptu þeir ekkert um bíl og þar var úti um farið.

Það sem ég gerði næst var bara að fara inn í herbergi og taka skólatöskuna mína, skella minidiscnum í hana ásamt veskinu mínu (sem var nú reyndar ekkert í nema tómt debet kort) og svefnpoka, einnig tók ég nokkra Mannamúlsdiska sem ég vonaðist til að geta selt til að fá mér að borða en auk þess smurði ég mér tvær samlokur með smjöri, osti og gúrkum, ég tók líka svefnpoka þar sem ég vonaðist eftir því að geta sofið þarna einhverstaðar. Með svefnpokann og skólatöskuna röllti ég niður á götu og byrjaði að húkka mér far til Húsavíkur, það gekk nú ekkert sérlega vel og ég hlýt að hafa slegið heimsmet í því að labba aftur á bak því enginn tók mig uppí, skil það nú alveg fólk er hrætt við svona hrikalega massa eins og mig 🙂 nei og síðan var fólk með fulla bíla af fólki og drasli og svona lifti höndunum…..*sorry en ég er ekki með pláss* LAME AFSÖKUN!!!!!!!

Að lokum kom síðan kona sem tók mig uppí og djöfull var ég feginn, hún sagðist líka vera að fara til húsavíkur og keyrði með mig einhvert soldið út fyrir bæinn og sagðist síðan ekki nenna lengur að keyra mig og sagðist vilja mig út, ég trúði þessu nú varla sjálfur, þetta var nákvæmlega eins og í bíómynd, nema þá hefði hún drepið mig……og ég var ekki einusinni dónalegur, æjj hvað um það síðan komu einhverjir tveir bóndadrengir og tóku mig uppí en sögðust vera að fara uppí Fnjóskadal, ég svona kinkaði kolli og lét eins og ég vissi alveg hvar Fnjóskadalur væri….Hvar er Fnjóskadalur, ég vonaði bara að han væri sem næst húsavík. Strákarnir létu mig út á einhvejrum gatnamótum þar sem ég steig útí helvítis kuldann og rokið, þegar ég var nýstiginn útúr bílnum sá ég bíl koma í áttina að mér,

Sweet….Alfa romeo eitthvað með þessari þvílíku gellu inní, gellan gerðu mér nú ekkert nema keyra framhjá og líta ekki einusinni á mig æjj hvað með það, síðan komu einhnverjar konur og tóku mig uppí eitthvað af leiðinni og síðan eitthvað fólk sem fór með mig til húsavíkur og lét mig út á hinni extrím esso sjoppu! þar sem ég fór inn og hringdi í Óla og spurði hvar þeir væru, þeir höfðu tafist einhverstaðar en voru á leiðinni, ætli ég hafi ekki beðið eftir strákunum í tvo klukkutíma eða eitthvað álíka öfgalengi og á þeim tíma át ég allt nestið mitt, (tvær samlokur) og fattaði með fullan munninn að ég var búinn með allan matinn minn, þegar ég var búinn að bíða eftir strákunum í soltinn tíma komu þeir loksins inn í esso sjoppuna (extrím sjoppuna) nema hvað að ég var að hlusta á minidiscinn minn og þeir sáu mig ekki en síðan hringdi ég í þá og þá voru þeir bara fyrir utan og ég stökk útí bíl til þeirra, Axel, Birkir, Villi, Ingi og Óli voru í bílnum og núna ég, sex í fimm manna bíl HEY SEXÍ FIMM MANNA BÍL! fattiði þennan? anyway, on with the story……. við fórum og hittum Þóri þar sem tónleikarnir áttu að vera, lítil félagsmiðstöð og græjur, græjurnar…..allavega tveir gítarmagnarar dóu alveg í soundtékkinu hjá einhvejru bandinu þarna en það reddaðist alveg síðan, ég stóð þarna inni með strákunum og horfði á græjurnar og svona…allir að tala eitthvað saman og voða gaman nema, allt í einu fór húsið að fillast af einhverju fólki, stelpur sem voru norskar byrjuðu að flytja inn einhver rosa apparöt, svona dót með svona fullt af plötum uppá sem maður slær í og þá heyrast mismunandi hljóð í plötunum, þið skiljið, það fyndna við þetta var að þetta voru norskar stelpur sem höfðu farið til afríku að læra á þetta og komið til íslands til að spila á þetta….really cool! allavega fanst mér þetta geðveikt svalt.

Síðan fórum við á veitingastað sem heitir Salka held ég og þar var fátt annað gert heldur en að sprauta vatni útum nefin, hella salti í kókið og fara í keppni hver gæti skotið franskri kartöflu útum nefið lengst. Síðan byrjðuðu tónleikarnir og steplurnar byrjuðu að spila á trétrommurnar sína geðveikt sko, stelpurnar gáfu meirasegja frá sér svona hljóð “brúúú húhú” svona tímon og púmba fílingur í þessu, þegar þær voru búnar kom hljómsveit sem kallaði sig BERmúr eða eitthvað álíka, man það nú ekki alveg hvað hún heitir en ég man allavega hversu lengi hún spilaði, nei annars ég man það ekki, ég man bara að þeir voru ekkert að spara tímann, fínt band og allt, en spiluðu kanski eeeeeiiiinum of lengi ég Axel og Birkir lögðumst bara í sófann og chilluðum á meðan við biðum, það var ágætt, sérstaklega þar sem ég fékk að vera með hausinn hans Axels í klofinu mínu í smástund 🙂 næst var band sem heitir Lost, metalcore band frá Húsavík, heví kúl, svona asnalegar pælingar sem allir fíla, allaveg ég í botn! er eiginlega að leita að einhverju drasli með þeim á netinu núna, þessvegna er ég búin að vera svona lengi að skrifa þetta. þegar þeir voru búnir komu the one and only I ADAPT!!!!!!!! og spiluðu fyrir aragrúa af fólki, neinei það var fámennt en góðmennt eins og birkir sagði, yndislegt að heyra í þeim tónleikarnir voru hrein snilld, en þegar síðasta lagið með I adapt var að byrja SPRENGDU ÞEIR rafmagnið af ásetningi er það ekki, nei heheh bíst ekki við því en rarfmagnið fór af félagsmiðstöðinni og líka af hótelinu sem er hliðiná, þar áttu einmitt að vera einhvejrir tónleikar um kvöldið. þegar tónleikarnir voru búnir fórum við heim til þóris en komum við hjá einhverjum vini hans í leiðinni og náðum í dýnur fyrir okkur til að sofa á. Þegar við komum heim til Þóris var bara hlustað á tónlist og chillað en það var bara byrjunin, þegar við fórum að skríða undir þá kom annað í ljós, Ég fékk þennan líka stóra bóner og allir flykktust að til að sjá hann, vá marr hann var góður, Óli og Axel sváfu undir sömu sæng, how gay that may
sound, eeennn cool, ég skemmti mér bara við að kítla lappirnar á þeim og láta loft streima útum rassinn minn og hendurnar mínar til að hita mér. í alvöru , það er góð leið til þess einmitt. Það þorði enginn að fara að sofa því sá sem mundi sofna fyrst mundi verða tekinn einhvernvegin í gegn, en svo fór það að allir sofnuðu á sama tíma og svo asnalega sem það hljómar þá vöknuðu allir á sama tíma eiginlega, en það var bara útaf því að Axel vaknaði og byrjaði að segja “Guden tag” við hvern og einn, og síðan sagði hann svona VÁÁÁ strákar við vöknuðum allir á sama tíma, Yeah right….AXEL NÆST ÞEGAR ÉG SÉ ÞIG ÞÁ BER ÉG ÞIG 🙂
næst þá var bara farið á extrím pleisið og étið (jú þarna átti ég pening því ég seldi Mannamúlinn) og síðan náð í pening fyrir bensíni og farið af stað, úr því að við vorum einum of margir þá vonuðum við að löggan kæmi ekki auga á okkur og þannig var það, nema á einum stað þar sem var mikill skafrenningur þá keyrði löggan framhjá okkur en sá okkur ekki útaf vonda veðrinu…. þegar ég var kominn uppá heimavist aftur þá var ég bæi 200 krónum ríkari og var út kysstur af Axeli….kúl, Ég á líka kærasta liggaligga lái…!!!! ekki þið stelpur!!

Reynir Smári (XwhygodX)

Föstudagsbræðingur Hins Hússins og Dordingull.com

Kakóbarinn Geysir – 26.01.2001

Forgarður Helvítis, Snafu, Andlát, Moussaieff

Föstudagrbræðingur Hins Hússins og Dordingull.com er orðin næstum fastur liður þessa dagana. Þetta lænöpp var búið að halda mér vel spenntum eftir að hafa lesið auglýsingu um kvöld þetta nokkrum dögum áður. Jess, tónleikar. Það þarf ekki að vera meira en það. Allt annað en enn ein bíómyndin eða tilgangslaust fyllerí. Það er alltaf til staðar en ég vil ekki missa af giggi hvort sem það verði snilld eða slappt með eindæmum, maður veit það ekki fyrir en að balli loknu.

Moussaieff byrjuðu stundvíslega klukkan rúmmlega átta. Fyrsta lagið var heldur dauft og rappið var engan veginn að gera sig. Hljóðið var eins og við var að búast á þessum kvöldum lélegt, en Mússinn lét það ekki á sig fá. Ég held að það hafi verið í þriðja laginu að annað og betra hljóð kom í skrokkinn. Áhrif frá Botch dagsins í dag létu í sér heyra og ekki kvarta ég. Þegar á leið settið (tónlistarmannamál yfir lagalista kvöldsins), þá hitnaði liðsmönnum Moussaieff í hamsi og stigu nokkuð villtann dans og þá sér í lagi mennski gormurinn sem sér um að syngja fyrir þetta ungmennafélag. Eftir að Moussaieff hafði lokið sér af var mikið klappað og verk kvöldsins var leyst vel úr hendi af þeirra hálfu en enginn vafi í mínum huga að þessi hljómsveit eigi eftir að láta nokkuð á sér kveða í framtíðinni.

Útfararkompaníð sem kallað er Andlát var næst á pall. Þessir piltar hafa verið iðnir við spilamensku undanfarið og það leyndi sér ekki því hér var komið mikið af fóki til að hlýða á fagnaðarerindi þeirra. Andlát byrjuðu fremur rólega en voru fljótir að komast í fluggírinn, gír sem ég hafði ekki áður séð hjá Andlát enda var þetta bestu tónleikar þeirra hingað til og það gerðist sem mig óraði ekki fyrir, fókið lét sér ekki nægja að headbanga heldur sáu sumir sér fært að slamma. Þeir spiluðu af meiri áræðni en áður sem skilaði sér í betri tónleikaupplifun fyrir áhorfendur. Andlát átti hér gott kvöld og vonandi að þeir haldi áfram á sömu braut.

Þá var röðin komin að einu af duglegustu böndum klakans í dag og auk þess eitt af þeim athygglisverðustu, Snafu. Þeir eru í gríðarlegum ham þessa dagana enda verið að spila mikið og semja. Eftir frábæra framistöðu þeirra á Gauknum ekki alls fyrir löngu voru væntingarnar miklar. Það er skemmst frá því að segja að Snafu brugðust ekki. Þeir byrjuðu á nýlegu efni sem náði strax athyggli viðstaddra og spilamennska þeirra var nær hnökralaus enda þessir gaurar öryggið uppmálað. Stuttu síðar var kominn myndarlegur pittur á gólfið þar sem tekið var hressilega á því. Snafuliðar voru ýmist í lausu lofti eða ráfandi frá einum enda sviðsins yfir í annan. Ný lög voru kynnt sem lofa mjög góðu, þar söng Siggi söngvari fyrsta skiptið clean sem var ágætis tilbreyting. Blýþung blanda Snafu af nútíma metalkori og metal virkar endalaust vel og valda þeir henni einstaklega vel& Gríðarlegur hiti var kominn í bandið og viðstadda þegar hljómsveitin lauk sér af með stórfurðulegum ruslatunnuendi sem endaði með trommuleikarameiðslum. Ég hef verið óspar á lofsyrði í garð þesasrar hljómsveitar en þeir eiga það svo sannarlega skilið.

Öldungardeildin sem í daglegu tali er kölluð því grípandi nafni, Forgarður Helvítis hauslínuðu þetta stórgóða kvöld enda ekki annað við hæfi. Hljómsveitin hefur sjaldan verið eins vinsæl og nú og svo hafa þessir gaurar verið í eldlínunni í áratug án þess að bugast og ætíð staðir fastir á sínu. En nóg um það & Ég fullyrði það að Tanngarðurinn hefur aldrei verið í eins góðu formi eins og þessa dagana. Eftir frábæra tónleika í MH ekki alls fyrir löngu er greinilegt að þeir hafa aldrei verið betri og sannaðist það endanlega þetta kvöld. Slagarar voru spilaðir ásamt nýrra efni sem hitti svona líka í mark. Hljómurinn hefði getað gert mikið fyrir lögin en spilagleðin yfirgnæfði það vandamál. Nokkrir létu til sín taka á gólfinu og var það gaman.

Sú nýbreytni var dregin fram í ljósið að kasta textum Forgarðsins á stórt tjald þar sem allir gátu lesið það sem að hann Siggi var að hreyta út úr sér. Margir lásu og höfðu vonandi gagn af svo ég tali nú ekki um tilvonandi fasistagerpi(vonandi engin(n)) sem hingað til höfðu kannski haldið að textarnir fjölluðu um kirkjugarða eða æsir á fylleríi. Þetta var gott mál og skemmtileg tilbreyting.

Nýtt lag Ljósbrjótur leit dagsins ljós og það eina sem ég hef um það að segja er Jess! Þetta er mjög flott lag þar sem Forgarðurinn sýnir á sér nýjar hliðar með öðruvísi tempói og þunga en vaninn er svona yfirleitt í þeirra lagasmíðum. Ég er mjög spenntur eftir að sjá framhaldið.

Flott gigg hjá Forgarði Helvítis, þeir enn lengur lifi!

Það var áberandi lítil ölvun þetta föstudagskvöld sem er einungis af hinu góða! Á tónleikunum var svalt distró/bolir dæmi ásamt því að þrjú af böndum kvöldsins voru með diska til sölu. Glæsilegt!

Þetta var dúndur kvöldstund. Aumingja þú að hafa ekki mætt Næst.

Staffan Olsons

Artpönk 17. Júní 2001

Nýlistasafnið – 17.06.2001

Fallega Gulrótin, Anus, Graupan, Dópskuld, Thundergun,Zuckakis Mondeyano Projeckt.

Þegar ég trítlaði inn á Nýlistasafnið um klukkan átta var verið að stilla upp græjunum fyrir Artpönkið í neðsta kjallara safnsins. Fnykur lá yfir salnum þar sem í hinum enda hússins var eitthvað lið að brenna líkamshluti dauðra dýra á grilli og gefa fólki að éta í nafni listarinnar. Á meðan verið var að stilla upp var einhver gjörningur/leikþáttur í gangi þar sem svartklætt par var að öskra ástarjátningar á hver annað.

Djasscoresveitin ANUS mokaði sér síðan í salinn og byrjaði magnaðan seið, samsettan úr bakflæði tveggja gítara, tónum tveggja saxofóna, trommuleiks Bibba Curver og ó/hljóðum úr einhverju raftæki auk ýmissa ásláttarhljóðfæra. ANUS mögnuðu sig upp á frábæran máta, hljóða- og tónaveisla þeirra sver sig í ætt við sum snilldarverk meistar JOHN ZORN. Sérstaklega kom mér í hug diskurinn Absinthe frá NAKED CITY. En það var bara í byrjun því að þessir gæjar léku af fingrum fram (improvíseruðu) í mögnuðu samspili. Enginn var að fara fram úr neinum. Þeir gáfu hver öðrum merki um skiptingar milli verka og skiptu frá þeim seið sem ég minntist á áður, yfir í grindcore/noise sturtu sem heillaði mig upp úr buxunum. Á köflum var djassveisla þeirra félaga nærri danshæf en mikið var um tilraunir og pælingar þar sem þeir voru að flétta saman djassi, hardcorepönki, jaðarrokki og raftónlist. Framúrstefnudjass var þó mest áberandi í tilraunum þeirra og var það vel. Eftir fyrsta verkið hófst næsta verk á samspili saxofónanna tveggja sem svissaði síðan yfir í samspil gítaranna sem rafgræjan (sem ég kann ekki að nefna) og áslátturinn blandaði sér inní. Í síðasta verkinu bætti söngkonan Móeiður rödd sinni við. Enn eitt verk sem ANUS mögnuðu upp þartil tónleikagestum lá við að ærast og ég var orðinn sannfærður aðdáandi.
Bibbi kynnti næst til leiks einhvern Kristján sem tilkynnti að hann myndi nú sýna fram á, “a simple way to write and record a punk song.” Síðan stakk hann sér í samband við einhverja græju (fyrirgefiði en ég hef bara ekki hundsvit á svona græjum), setti í gang trommutakt og spilaði þrjár gítarlínur inn á hann, síðan spilaði hann þetta fyrir mannskapinn og rak upp öskur í restina. Skemmtilegt.

Hin ógurlega hljómsveit GRAUPAN, sem ég man eftir frá Snarl safnsnældum sem Dr. Gunni gaf út í den, var næst á dagskrá. Þeir settu í gang tilraun fyrir tvo gítara og trommusett. Í byrjun var þetta frekar ómarkvisst djamm hjá þeim. Síðan fór annar gítarleikarinn að snappa eilítið og traðka á pedulum svo að skapaðist ískrandi og þungt bakflæði (feedback) úr gítarnum og ég fór að brosa breiðar. Það fækkaði í salnum eftir því sem gítarleikarinn snappaði enn frekar og jók á hávaðann. Hörðustu hávaðafríkin urðu eftir og urðu vitni að því þegar hann lagði gítarinn á lítið borð og fór að vinna á honum með fingurhólk og baknuddtæki! Hvílík snilld! Minnti mig á uppáhaldslagið mitt með Tribes of Neurot. Síðan klikkti hann út með að henda gítarnum í gólfið. Salurinn fagnaði.
Síðan var komið að mér að stökkva á reiðhjólið og snáfa á næturvakt. Þannig að ég missti af Thundergun, Dópskuld og eflaust fleiru góðu og einhverjir aðrir verða að skrifa um þann hluti ArtPönksins hér.

Persónulega vil ég þakka Bibba Curver og Nýlistasafninu fyrir þessa skemmtilega hátíð íslenskrar neðanjarðarmenningar.

Siggi Pönk

Integrity

11/04/08 , Old Blue Last, London, UK

Integrity, Brain Dead, Rot In Hell

“We are truly in the belly of the fucking beast.” Svona hljomudu fyrstu ordin ur hljodkerfinu. Astædan fyrir thessu var audvitad su ad thessir tonleikar, sem skortudu engum odrum en Integrity, voru haldnir af hipster-ludunum hja Vice Magazine. Eg verd ad vidurkenna ad mer thotti thad frekar bjanalegt ad their stædu fyrir thessu showi thar sem ad eina folkid sem birtist i bladinu hja theim keypti solgleraugun sin a niunda aratugnum og er augljoslega litblint en hey, hverjum er ekki drullusama, eg fekk ad sja fokkings Integrity!

Upphafsordin komu ur kjaftinum a songvara Rot In Hell fra Leeds sem er leidindaband med meiru. Svona i alvorunni, af hverju ætti madur ad vilja stofna band sem hljomar alveg nakvæmlega eins annad band sem er thegar ad gera hlutina betur? Og thad sem er kannski mikilvægara, myndi manni ekki finnast bjanalegt ad spila med bandinu sem madur er stela fra? Thessum gaurum finnst greinilega ekkert ad thvi. Eg hef einmitt lika sed hitt bandid sem bassaleikarinn er i og their hljoma nakvæmlega eins Judge. Fint framtak. Their voru voda pissed off, thad voru hardir two-step kaflar sem foru ut i stutt, bjanaleg gitarsolo og sidan einn-tveir-og-MOSH. Madur var engan veginn ad trua attitudinu sem var augljoslega tekid fra ollum ‘fuck-off’ bondunum sem their hafa hlustad a. Their eru ekkert svona reidir i alvorunni sem gerdi thetta allt saman otrulega asnalegt, serstaklega thegar bassaleikarinn hljop i crowdid svo ad einhver myndi nu orugglega meida sig. Sidan var lika fint thegar their toku ofur-dramatiska hæga lagid sitt og songvarinn var alltaf ad hropa “this bit is so long! Don’t you think this is too long!” Helviti fint. Mig langar gedveikt ad sja tha aftur. Cool gaurar. Thad skemmtilegasta vid settid theirra var feita stelpan ad taka hringspork i skeifunni fyrir framan svidid. Thetta var svona eins og ad horfa a kartoflu a borvel.

Okei, her kemur thad. Brain Dead. Er fokking. Gedveikt band.
Ekkert nytt, bara ohemju kraftur, blast kaflar og ljot rodd. Algjor Infest dyrkun med ljotum hægum koflum inn a milli, svipad og er ad gerast i USA nuna med bondum eins og Ceremony og Trash Talk nema hvad ad Brain Dead eru ljotari, meira paunk. A fyrsta snerilslaginu tok songvarinn dyfu af svidinu a folkid sem var ad koma inn (inngangurinn var vid hlidina a svidinu). Thad var hressandi ad sja andlitin a folkinu sem augljoslega var ekki ad buast vid skyndiaras fra grindhorudum strak fra Leicester. Næstu 20 minuturnar voru hradar, hradari, hradast. Abreidur af Infest og Minor Threat logum gerdu settid enntha betra og eg er akaflega feginn ad eg se ad fara ad sja tha aftur eftir 3 vikur. Ekki thad ad thad skipti mali en bassaleikarinn leit ut eins og Skinguorgelid i megrun og gitarleikarinn eins og hann ætti heima i Mosfellsbæ 1999. Brilliant dot.

Mer hefur langad ad sja Integrity sidan eg var 17 ara og einu hardcore diskarnir sem eg gat nad i voru Victory utgafurnar thannig ad tharna var gamall draumur ad rætast. Eg hafdi thurft ad fresta odrum draum, ad sja Poison The Well (var kominn med mida og allt saman), til ad sja thetta band og eg heimtadi eitthvad rosalegt. Thad var nakvæmlega thad sem eg fekk. I fyrsta lagi fær Dwid stig fyrir ad vera i ulpunni allt settid thratt fyrir ad tharna inni hafi verid um thad bil 170 manns i 100 manna rymi. Adur en their byrjudu var heljarinnar mod med einhvern skjavarpa sem atti ad syna eitthvad drasl fyrir aftan tha a medan their spiludu. Thetta for i gang, syndi einhverjar svarthvitar myndir af djoflinum ad rida Charles Manson eda eitthvad drasl i 5 minutur, biladi sidan og restina af settinu var thetta lika fina Pioneer merki a veggnum. Thad var samt ekki thad sem eg var kominn thangad til ad horfa a. Eg var ad fara ad sja Integrity spila a illa lyktandi bullu, i herbergi a stærd vid stofuna hennar mommu minnar med allt of mikid af folki. Thad eina sem eg get sagt er ad næstu 45 minutur voru fokking rosalegar!!! Their blostudu i gegnum allt fra Rise til Vocal Test, fra Taste My Sin til Dreams Bleed On, fra Humanity Is The Devil til System Overload. Eg vildi fa einhverja meistararædu fra Dwid og hann stod vid sitt. 5 minutna rassakyssinga-pistill um hvernig England hefur, gegnum aldirnar, framleitt bestu og kroftugustu tonlistina i heiminum og hvernig London, sem midpunktur thjodarinnar, hefur avallt stadid sem fyrirmynd heimsins ad einlægri og metnadarfullri tonlist. Eg er ekki alveg viss um hvadan hann hafdi heimildirnar fyrir thessari yfirlysingu en eg fann hvernig aulahrollurinn rann i gegnum herbergid, thad var ekki mikid klappad. Djofulsins fokking violence var thetta samt. Allir ad verda vitlausir, med hnefana kreppta, oskrandi ut i loftid. Dwid stjornadi thessu ollu saman af sama stad a svidinu, med pattaralega bumbu og i ulpunni godu. Roddin for samt ad gefa sig thegar leid a settid og i endann var hann eiginlega byrjadur ad gaula eins og fyllibytta. Thad var samt allt i lagi, eg var ad fila thad.
Thad ma vel vera ad thessir gaurar seu algjorir halfvitar, eg trui thvi vel, en djofull geta their samt fokking slammad.

Kolli

Bestu plötur ársins 2006

í boði Hardkjarni.com

Um áramótin 2006/2007 var í fyrsta skipti tekinn saman árslisti Harðkjarna, en sá listi var unninn úr einstökum listum notenda Töflunnar. 35 tóku þátt í að skapa þennan lista og kann ég þeim öllum miklar þakkir. 10 bestu plötur ársins 2006 eru eftirfarandi:

10. sæti:
Enslaved – “Ruun”
Norsku svartmálms meistararnir í Enslaved gerðu plötu sem þótti framúrskarandi á árinu og er meðal þeirra tíu besta platna sem komu út árið 2006. Framúrstefnuleg og virkilega vel samin er platan “Ruun”, og á þennan heiður svo sannarlega skilinn.

9. sæti:
Slayer – “Christ Illusion”
Þrátt fyrir að vera löngu búnir að sanna sig og gott betur komu Slayer menn með plötu sem þótti með þeirra betri á þessum síðustu og verstu. Dave Lombardo var blessunarlega kominn aftur á bak við settið og var þetta mati mann og kvenna Töflunnar ein af betri útgáfum ársins.

8. sæti:
Belphegor – “Pestapokalypse VI”
Sjötta breiðskífa hinna þaulreyndu austurrísku black metal hermanna skilaði þeim áttunda sætinu á þessum góða lista. Jan Finly [Terrorizer Magazine] hafði þetta um plötuna að segja: “the band tear into some of the most well-constructed hyperspeed death/black metal that they’ve ever produced with a fanatical destructive zeal that can equal any of the band’s many rivals within the genre.”

7. sæti:
Unearth – “III: In the Eyes of Fire”
Einn af betri dauðakippum metalcorsins var klárlega fjórða breiðskífa Unearth. Mönnum þótti mikið til koma þessi reiði og þessi kraftur og það hlýtur að teljast gott að enda ofar en fyrrnefndar sveitir á þessum lista.

6. sæti:
Decapitated – “Organic Halucinosis”
Decapitated áttu að margra mati death metal plötu ársins. Hrikalega plata frá þessum pólsku risum og death metall með stóru déi, fyrir karla með belli og konur með kjark.

5. sæti:
Converge – “No Heroes”
Með dyggan aðdáendahóp hérlendis áttu Converge menn í litlum vandræðum með eiga eina af tíu bestu plötum ársins á Harðkjarna, en platan “No Heroes” er einstaklega vel gerð og hitti greinilega í mark hjá mörgum.

4. sæti:
Lamb of God – “Sacrament”
Lamb of God svíkja engan og spila að jafnaði no bullshit metal sem gerir manni erfitt fyrir að halda hausnum kyrrum. “Sacrament” er að margra mati besta plata Lamb of God síðan “New American Gospel”. Naumlega í fjórða sæti en á það klárlega skilið.

3. sæti:
Tool – “10.000 Days”
Úr því að vera skrítin framúrstefnuleg í það að vera hálfpartinn mainstream án þess þó að selja sig hafa Tool liðar ávallt staðið fyrir sínu. Með vinsælli og umtöluðust plötum ársins þóttu Tool vera sniðugir með þrívíddar gleraugum og flottu artworki, og eitthvað hefur verið varið í tónlistina líka því platan endar ofarlega á þessum lista.

2. sæti:
Isis – “In the Absence of Truth”
Fyrsta plata Isis í nokkur ár þar sem titillinn er meira en eitt orð. Ég efast um að það hafi skipt miklu máli enda hér á ferðinni virkilega vel samin og góð plata frá þessum “íslandsvinum” sem héldu hér eftirminnilega tónleika um árið. Annað sætið er þeirra.

1. sæti:
Mastodon – “Blood Mountain”
Besta plata ársins að mati Taflverja, og segir það vafalítið meira en mörg orð. Fjórða breiðskífa þessara miklu meistara sigraði hug og hjörtu málm og harðkjarna unnenda landans, og hlýtur Mastodon að teljast meðal betri metal hljómsveita samtímans.

Listi yfir bestu plötu ársins 2007 er væntanlegur og verður líklega jafn góður, ef ekki betri, leiðarvísir fyrir það besta og áhugaverðasta í tónlist á líðandi ári.

Jóa

Hróarskelda 2007

5. – 8. Júlí 2007

Red Hot Chili Peppers, Björk, Basement Jaxx, Klaxons, Beastie Boys, The Killers, Peter, Bjorn & John, Muse, Arcade Fire, Mika… fleira

Langar að vera með smá umfjöllun um Hróarskeldu

Ég kom á miðvikudeginum og hefði því átt að ná öllum böndum fimmtudagsins en veðrið var ógeðslegt og hafði mikil áhrif á hvað ég sá. Fór á fyrstu tónleikana kl 6 á fimmtudeginum og sá þar Arcade Fire, kom aðeins of seint því Ari og Stebbi keyptu sér mest krípi regnkápur sem ég hef á ævinni séð. Stebbi leit sérstaklega út eins og morðingi!

Arcade Fire, þekki eitt lag með þeim en þetta var hresst. Allavega náðu þeir að halda athygli minni að mestu leyti þrátt fyrir að ég væri skjálfandi af kulda og rennandi blaut
Man ekki hvað ég gerði eftir þessa tónleika en ég hlýt að hafa farið aftur niður í camp að “ekki vorkenna okkur” vorum að hamast við að detta í það og vera hress. Því ég sá ekkert annað þetta kvöld nema Björk.

Björk var góð á því og fólk virtist alveg vera að gúddera þetta. Þekkti flest lögin hennar og ég er ekki frá því að mér finnist þau nýju betri en áður. Nema reyndar Declare Independence, ég er ekki nógu hress með hversu súrt það er, á eftir að heyra það á plötunni

Svo kom föstudagur, vaknaði langseinust og hélt það væri rigning. Neitaði að stíga út úr tjaldinu í langan tíma en fattaði svo að það var búið að stytta upp og því yfirgaf ég tjaldið um kl 12 eða e-ð og fór upp á svæði að hitta liðið en kom akkúrat þegar Musicians of the Nile voru að klára og missti því alveg af þeim. Heyrði að þeir hefðu verið geðveikir.

Sleppti Katatonia því ég meikaði ekki að vera meira kalt, sé eftir því núna því Ari vill meina að þeir hafi verið frábærir, ég held hann segi það bara til að gera okkur hin afbrýðissöm.

Ok kannski kominn tími á að tala um það sem ég náði að sjá á föstudeginum, mætti loks á réttum tíma að sjá Beastie Boys á stærsta sviðinu. Ég var kannski of spennt fyrir þessum tónleikum en ég var ekki alveg að meika þá. Var að fíla að þeir spiluðu dáldið mikið af pönk efninu sínu, en ekki marga slagara. Mikið af dúllerí á milli laga og drap það alla stemmningu sem náði að myndast einstaka sinnum. Hjálpaði þeim ekki þegar hljóðkerfið virtist detta út í smá stund og ekkert heyrðist í þeim. Enda var fólkið fljótt að byrja að “búa” á þá þegar það gerðist.

Eftir Beastie Boys beið ég við Orange sviðið eftir Queens of the Stone Age, en við Rut skelltum okkur aðeins framar, vorum í aftara boxinu sem var ekki nærri því fullt. Það kom mér mjög á óvart reyndar að það skyldi ekki vera pakkað á þeim. Ég skemmti mér konunglega á QOTSA, stemmningin á þeim var samt dáldið skrýtin, fólk e-ð voða furðulegt á því, kannski bara öll þessi rigning og stígvél á tónleikum (eitt mesta rugl sem ég veit um er að standa á stígvélum svona lengi). Þeir spiluðu gott úrval af efni fannst mér, en ég veit ekkert hvað þeir tóku af hvaða plötu, er eins og áður sagði vonlaus í namedroppum.

Þrátt fyrir að boxin hafi ekki verið full á QOTSA vorum við endalaust lengi að finna hópinn okkar aftur en eftir að það tókst loksins fór ég með Atla og Geira á Peter Bjorn and John. Ég bjóst ekki við neinu þar, langaði bara að tékka á þessu og guð góður hvað mér fannst þeir leiðinlegir. Kannski því ég þekki ekkert af efninu þeirra nema þetta eina lag sem var svosum ágætt nema einhver stráklingur söng það. Voru margir með þeim á sviðinu en helvítin töluðu bara sænsku svo ég veit ekkert hvað var að gerast þegar aðalagið, young ones, var spilað.

Fórum þaðan að sjá Lee Scratch Perry & Adrian Sherwood. Veit að margir fíluðu þetta en eina sem ég hef um þetta að segja er: hasslykt, spes reggí, stórfurðulegur maður að mála myndir. Ég fór að sofa eftir stutta viðkomu þarna.

Byrjaði laugardaginn á Strike Anywhere, ótrúlegt en satt ekki minn kaffibolli. Fílaði samt að sjá liðið sem var samankomið þarna. Ég sem var svo viss um að ég hefði einhvern tímann hlustað á þá. Þekkti ekki eitt lag. Gekk þaðan að sjá Machine Head. Bjóst ekki við neinu af þeim því þegar ég sá þá 2002 voru þeir alveg endalaust leiðinlegir. Þeir voru miklu hressari í ár. Tónlistarlega séð voru þeir ekkert stórfenglegir en Robert Flynn (ok ég man nafnið hans af einhverjum ástæðum!) kom með línur eins og “SECURITY, LET THEM HAVE FUN.” Svo bað hann fólk líka svona 15 sinnum um að “sýna hornin” frekar lúðalegt en gaman.

Heyrði í BigBang þar sem ég gekk fram hjá Orange, mér fannst þetta allt í lagi. Er víst eitt vinsælasta bandið í Noregi þessa dagana. Myndi segja að þessi tónlist myndi alveg halda athygli fólks á fyllerí á ellefunni.
Sá líka smá af Flaming Lips, man ekkert gríðarlega mikið eftir þeim sem segir kannski sitt. Vegna þess að við stoppuðum við það misstum við af Soulsavers.
Átum og mættum aftur að sjá e-ð af Gojira, sé að þeir eru góðir en heilla mig ekki.

Á þeim tímapunkti ákvað ég að fara að pissa, gafst upp á röðinni eftir 10 mínútur og hugðist fara þegar The Who spiluðu. Stór mistök, eyddi 30 mínútum af spilunartíma Who í klósettröð. Það litla sem ég sá af þeim var samt eiturhresst, söngvarinn sveiflandi míkrófóninum um eins og táningur og allir hoppandi og skoppandi um sviðið.
Fórum í campið og ég ákvað að hrynja í það sem var eins gott því ég hefði sennilega dáið annars úr leiðindum á Red Hot Chili Peppers. Serbneska þjóðlagabandið Kal var milljón sinnum hressara. Margir á sviðinu og þeir voru kátir að útskýra hvað lögin þýddu fyrir liðinu sem var flest í svipuðu ástandi og ég. RHCP fær falleinkunn hjá mér.
Síðasta sem ég sá á laugardagskvöldinu var hinsvegar með því sem stóð hvað mest upp úr hjá mér. Þetta var bandið Dream of an Opium Eater mjög flott, ótrúlega flott blandað við stuttmyndirnar sem þau voru með. Ætlaði að ná mér í e-ð efni með þeim þegar ég kom heim en sá þá að þetta var e-ð one off dæmi.

Ég ætlaði að sjá Strung Out en svaf yfir mig og sá því ekkert fyrr en ég fór á Seun Kuti & Egypt ´80. Ég veit ekki hvað ég var að spá að þykjast vera svona alþjóðleg, þetta er afrískt jazz/funk og ég meikaði það engan veginn. Alls ekki slæmt samt, ágætis sviðsframkoma, 16 manns á sviðinu í einu ef ég man rétt, dansarar og læti.

Svo voru það Arctic Monkeys á Orange. Það var loksins búið að þorna e-ð svo ég sat á þessum tónleikum. Þeir eru ekki eftirminnirlegir er það eina sem ég hef um það að segja.
Kíkti næst á Pelican, hafði hlustað á þá e-ð áður og ekki fílað en fílaði þá mun betur live. Skemmdi ekki að bassaleikarinn þeirra er fjallmyndarlegur. Fór snemma af þeim til að sjá Against Me (og pissa!). Tróð mér eins framarlega og ég gat og sé ekki eftir því. Þessir tónleikar voru algjört tjúll. Djöfull voru þeir hressir. Að mínu mati langbestu tónleikarnir á Hróa, þó ekki væri nema bara vegan þess hversu augljóst var að þeir skemmtu sér vel sjálfir.

Síðasta bandið sem ég sá svo var Muse, þeir spiluðu vel og náðu fólkinu vel með sér en áttu ekkert í Against Me og því var ég ekki alveg með-heilluð.

Til að setja þetta saman í e-ð.
Stóð upp úr: Against Me, Dream of an Opium Eater og Björk
Var ekki að standa sig: Red Hot Chili Peppers og Beastie Boys

Cold War Kids fá svo skammarverðlaun fyrir að beila og gefa enga útskýringu á því.

Birna Rún Sævarsdóttir

Roskilde 2007

byrjun júlí

Ýmislegar

Ferðasagan…

Mætti í flug seint á miðvikudagskvöldi sem olli því að við félagarnir lentum í Danmörku árla morguns. Við fórum rakleitt til Roskilde til að smokra okkur uppá festivalspladsen. Það rigndi örlítið þennan fimmtudagsmorgun. Við komumst svo að því að félagar okkar höfðu tjaldað á svæði F, en það er syðst á öllu tjaldsvæðinu og í talsverðri labbfjarlægð. Eftir mikla þrautargöngu komumst við loks á áfangastað sem var vel merkur með fána Kópavogsbæjar.

Þegar við vekjum íbúa á campinu, rumska nokkrir fram úr og fara strax á fyllerí með okkur, klukkan 9 um morguninn, gamanið varð heldur grátt þegar ég komst að því að þeir tjölduðu ekki tjaldinu mínu vegna plássleysis og ætluðust til þess að ég og félagi minn svæfum í fortjaldi. Ég fór þá og rölti örlítið um svæðið og komst að því að enn sunnar væri hálfur fermetri laus á einum endanum, á svæðinu sem ég kalla “south of heaven”. Fékk sérstakt leyfi frá vaktmönnum tjaldsvæðisins að tjalda þarna.

Eftir að það reddaðist fór maður á blússandi skrall og ákvað síðan að drepast um 15.00 leytið, þá helst úr þreytu. Ég vaknaði svo í tjaldinu við að Björk væri byrjuð að þenja raddirnar sínar. Heyrði á lagalista hennar að hún var ekkert að tvínóna með einhvern grænlenskan barnakór, hún lét slagarana vaða, þar á meðal lagið “Army of me” sem ég hef nú gaman af. Hinsvegar munaði bara 30 min á Björk og Mastodon þannig að ég dreif mig uppá Arenasviðið í úrhellisrigningu. Ég var í regnstakk sem var alltof lítill þannig að buxurnar mínar voru ekkert varðar. Varð gegnblautur á 3 min. Mætti á Mastodon þegar þeir voru búnir með nokkur lög, náði megninu af settinu hjá þeim. Var ósáttur með mixið, þar sem bassi og botn var of hátt stilltur og því svolítill glundroði í soundinu. Þeir tóku eiginlega bara efni af Blood Mountain og þótti mér það skila sér heldur illa á sviðinu, það er eins og gítarleikarinn höndli ekki sönginn. En aftur á móti tóku þeir slagara eins og Blood and Thunder og virkuðu mjög góðir. Mastodon fengu því ekki nema meðaleinkunn hjá mér fyrir þetta show. Dreif mig síðan strax heim aftur í ofur-rigningunni, en einmitt á meðan lét síminn minn lífið í vasanum vegna bleytunnar. Fór síðan uppá camp í blússandi ofurfyllerí með félögum af Kópavogscampinu.

Daginn eftir vaknaði ég alveg frekar hress en samt þokkalega kaldur. Gerði mest lítið þann daginn, en þó hafði það stytt upp, reyndar kom smá skúr í 1 klukkutíma, en meira var það ekki. Reif mig upp til að sjá Katatonia á Odeon, sem er 3. stærsta sviðið og eiginlega mitt uppáhalds. Ég hafði nú ekki heyrt mikið með Katatonia nema diskinn Viva Emptiness, en þrátt fyrir að vera frumhlusta á flest lögin – þá voru öll lögin góð og manni leiddist ekki eina sekúndu. Mjög ánægður með Katatonia. Næst var ferðinni heitið niður á Orange, sem er stærsta sviðið, þar voru In Flames að spila, komumst í öryggishólf fremst. In Flames voru dúndur góðir með sitt á hreinu. Þekkti flest lögin, tóku mikið af gömlu efni. Mjög gott liveband verður að segjast, réðu vel við að vera á stærsta sviðinu – eitthvað sem Morbid Angel og Meshuggah tókst ekki árið 2004. Eftir að In Flames kláruðu, röltum við félagarnir á Pavillion sviðið, sem er svið fyrir eflaust 1-2000 manns, ekki meira. En þar voru Boris að spila. Það vakti mína athygli að annar gaurinn var með tvöfaldan gítar nema annar var bassi og hinn gítar. Þau byrjuðu mjög rólega í gömlu efni, sem ég er nú ekki mjög hrifinn af, en í þriðja laginu tóku þau vel á því og keyrðu upp showið með efni af plötunni Pink. Showið var tryllt og það endaði með því að trommarinn stökk fram og crowdsurfaði (eitthvað sem er stranglega bannað á Roskilde).

Aftur var rölt uppá Orange, þar voru Beastie Boys byrjaðir, alveg ótrúlegt hvað þeir eru gamlir og gráhærðir, MikeD er samt með alveg sömu röddina og þegar hann byrjaði. Tóku helstu slagarana en þó ekki fight for your right sem ég var soldið ósáttur með. Hinsvegar voru lög eins og no sleep to brooklyn, intergalactic og body movin á dagskránni. Þeir stóðu sig með ágætum, en fengu drull yfir sig í Roskildepressunni. Beið á Orange, sleppti því að sjá CSS, sé reyndar eftir því núna þegar ég rita þetta því bandið sem ég beið eftir var Queens of the stone age. Þeir tóku eiginlega bara efni af nýju plötunni sem mér þykir persónulega vera leiðinleg. Tóku bara 2 lög af gömlum slögurum. Sá þá líka þarna 2003 með gamla mannskapnum og ég verð að segja að þetta er ekkert sama bandið og þegar Nick Oliveri var á bassanum. Það vantar allann kraft í QOTSA. Josh ætti að gera þetta að sólóverkefni hjá sér, þetta er bara ekki eins og varð ég því miður fyrir vonbrigðum með þá. En já á öllum tónleikunum sem ég hafið farið á þennan daginn var minnst á að Mika hafði cancellað og Mustasch komið í staðinn. Það var alltaf fagnað gífurlega að mika hefði cancellað. Hinsvegar nennti ég ekki að tékka á Mustasch þar sem ég hafði séð þá áður, reyndar heyrði ég ekkert nema góða dóma um þá. Beilaði snemma á camp-fyllerí þetta kvöldið og sleppti Hatesphere og Brian Jonestown massacre.

Eftir allt fyllerísruglið svaf ég eiginlega yfir mig, leit á klukkuna og sá að hana sló 13:00 á síma vinar míns. Hinsvegar gerði ég ekki grein fyrir því að það var íslenskur tími þannig að Machine Head voru byrjaðir og ég hafði misst af þeim – helvíti svekkjandi. Sá þess í stað The Flaming Lips – hundleiðinleg tónlist finnst mér en djöfullinn hvað þeir voru sprækir á sviðinu með fólk í actionfigure búningum, risa blöðrur. Söngvarinn crowdsurfaði í einhverskonar risablöðru til að byrja með. Síðan voru þeir með svona ofur-innibombur sem skjóta allskonar pappírsrusli sem fauk með vindinum – helvíti gaman að sjá en helvíti leiðinlegt að hlusta. Tékkaði síðan á The Who sem voru bara Roger Daltrey og Pete Townsend með session gaurum. Þeir voru hressir, allavega miklu hressari en flest bönd sem hafa spilað þarna. Til að mynda hoppaði Townsend um sviðið með gítarinn, ekki amalegt af eldri borgara. Ég rölti snemma yfir á Arena sviðið sem er næststærsta sviðið á svæðinu. Þar trylltu Gojira upp. Hefði nú haldið að þeir væru of litlir fyrir þetta svið sem tekur örugglega 20þús manns, reyndar var tjaldið ekki fullt, býst við svona 10-12þús manns en þeir voru KLIKKAÐIR. Spilagleðin skein af þeim, þeir hlupu um allt sviðið og voru samt svo überþéttir og góðir að það náðri engri átt. Klárlega eitt besta atriði festivalsins. Eftir drullugott Gojira show fór maður á Odeon sviðið til að tékka á Cult of luna. Ekki hafði mig grunað að þeir væru með 3 gítarleikara. Semsagt, 3 gítarar, 1 bassi, 1 hljómsborð og effektar og 1 trommari ooog einn söngvari líka. 7 mannaband. Með allan þennan mannskap hljómuðu lögin (reyndar sá ég bara 6-7 lög) mjög lík hvor öðru. Byrjuðu á rólegum melódíum sem stigmögnuðust uppí ákveðið climax, svona ISIS fílingur í þeim það leyndi sér ekki, enda svipuð gítarpæling á þeim bæjum 1 gibson lessa og fender telecaster, kryddað með Thunderbird gítar. Cult of luna eru svakalega góðir í að gera breik og kicka aftur inn af ofur þunga. Ég missti athygli örlítið augnablik þegar slíkt gerðist og varð mjög bilt við. Algjör hamarshögg, enda er þetta skuggalega þétt band – en mætti vera meira creatívara í lagasmíðum. Fínt show annars. Á leiðinni heim ákvað maður að reyna tékka á Red hot chilli peppers. Fíla það band ekkert svakalega mikið, en mikið crowd og lög af stadium arcadium létu mig stoppa stutt í heyrði samt í þeim megnið af leiðinn heim, tóku ekkert af slögurum og voru bara mega slappir, Anthony Kiedis með kvef þannig að Flea og Frusciente djömmuðu svakalega mikið saman sem var hápunkturinn á þeirra showi – en í heildina léleg frammistaða. Aðal númerið var flopp. Á heimleiðinni ákvað maður að stoppa í Arenatjaldinu þar sem annað eins dæmi var komið upp. DJ Tiesto , heimsins frægasti trance dj. Sviðið var með ca 15x10m ljósaskjá/skilti. Gaurinn lagði mikið uppúr ljósashowi og trance tónum. Bassinn var reyndar alveg í botni og hamaðist ört í öflugum græjum. Þetta var eins og einhver væri að slá mann létt á kassann, slíkur var bassinn. Ég var nú ekki alveg í glowstick stemmningu en fólkið sem var þarna var svo sannarlega að skemmtasér með glowsticks og þvíumlíkt. Annað heillandi var að myndavélarnar á skjáunum til hliðar sýndu dj borðið og hvernig hann vann við sitt. Hann virtist alltaf vera upptekinn þannig að það var forvitnilegt að sjá hvernig DJ’ar starfa í svona stórum venue’s.

Sunnudagurinn, já …sól.. já það var sólskin – leðjan byrjuð að þorna og harðna. Var á röltinu og heyrði í einhvejru reggí með einhverjum dude frá Fílabeinsströndinni, heitir að ég held Alpha blondy – Ég veit ekki með ykkur en mér finnst allt reggí hljóma eins. Ekkert merkilegt en fínt tjill. Tékkaði á Wilco, alls ekki músikin fyrir mig en í þessu bandi er merkielgur gítarleikari. Hann gerði fullt af funky stuffi, kom mér annars á óvart hversu miðaldra þetta band er. Hoppaði síðan uppá Odeon. Þar voru Zyklon að spila. Það heyrðist sama og ekkert í bassanum og of hátt í trommunum. Þannig að basicly heyrði maður bara í trommum og söng. Semsagt svipaður fílingur og þegar maður setur hjólsög í gang og sagar í gegnum timbur. Maður heyrði einstaka riff sem voru góð – en almennt séð finnst mér eða fannst mér þetta vera mjög leiðinlegt. Zyklon fengu því falleinkunn fyrir sitt show. Ég bjargaði mér frá Zyklon yfir á Orange, en ekki tók betra við þar Arctic Monkeys. Oj, hvernig stendur á því að fólk fílar þetta? Viðurstyggilega leiðinlegt, nánast sama bassalínan, sömu 3 gripin og sami takturinn. Eina sem breytist er textinn í söngvaranum, sem var reyndar svo illskiljanlegur að hálfa væri nóg. Þeir virtust líka stressaðir og keyrðu hratt í gegnum programmið. Voru víst búnir með 15 lög áður en maður vissi af, fannst eins og þetta væri eitt lag á repeat. Verulega slæmt!
Sem betur fer leið ekki langur tími og Pelican byrjuðu. Voru heldur fáir þegar þeir byrjuðu og þeir virkuðu pínu feimnir. Var þokkalega ánægður með showið þeirra, lögin virkuðu samt eins og virðist tíðkast með post-rock-blabla tónlist að hún verður einsleit, en engu að síður stóðu þeir sig með prýði. Birna virtist í spreng með að vera fremst á Against Me!, það virtist borga sig því þeirra show var geðveikt. Þvílíka riotið sem myndaðist, meira segja áður en þeir spiluðu, þá var fólkið að chanta nafn hljómsveitarinnnar, það virtist setja mikinn eldmóð í strákana því þeir voru ofur hressir á sviðinu og spiluðu af mikilli innlifun. Mér fannst þeir vera töluvert betri Á roskilde heldur en hérna heima, og síðan komu lög sem voru bara virkilega góð, veit ekki hvort það sé nýtt eða gamalt en defó ekki Reinv.AxlRose efni. Fólk var líka duglegt að vera með riot á meðan showinu stóð og crowdsurfuðu amk 20 manns, en crowdsurf er stranglega bannað á Roskilde og veldur því að það er klippt á armbandið hjá manni. Gæslan réði samt ekkert við æstan múginn sem einnig heimtaði aukalög í uppklappi en fengu ekkert. Sem er reyndar slæmt þar sem klukkutími var í næstaband á svið. Við það urðu áhorfendur reiðir, þegar kynnirinn gekk inná sviðið til að þakka AgainstMe! fyrir sitt framlag var kastað vatnsglasi í átt að henni. Hún rétt náði að dodge’a það en árás númer 2 kom af hliðinni sem hæfði í hana. Eitt eftirminnilegasta show sem ég hef séð með hljómsveit. Against Me! Stóðu uppúr. Eftir það tékkaði ég síðan á Muse og ekkert merkilegt að segja frá því. Fínt festival.

Haffeh