Biohazard - Reborn in Defiance
Biohazard - Reborn in Defiance

Biohazard – Reborn in Defiance (2012)

Nuclear Blast –  2012

Ég byrjaði að fylgjast með hljómsveitinni Biohazard árið 1992, þá staddur í Breiðholtinu fullur af stolti, pungsvita og síðu hári. Því má gera ráð fyrir að þessi dómur minn sé svolítið smitaður af mér sem fylgimanni sveitarinnar og miklum áhugamanni um harða tónlist frá New York borg. “Reborn in Defiance” markar mörg tímamót í sögu sveitarinnar, þetta er endurkomuplata sveitarinnar, en sveitin hætti starfsemi árið 2005. Sveitin kom saman aðeins þrem árum eftir það en í þetta skiptið voru allir upprunalegir meðlimir sveitarinnar komnir aftur á kreik. Eftir að hafa sagt skilið við upprunalegan gítarleikara sveitarinnar árið 1994 gaf sveitin út 5 þrælfínar skífur, en fólk hefur alltaf að leita að upprunalega hljómnum, þessarri hráu, taktföstu, öskurröppuðu, hardcore blönduðu tónjöfnu sem gerði sveitinni kleypt að selja milljónir breiðskína í nafni Brooklyn hverfsins í New York. Hefur þeim tekist að ná því fram með Reborn in Defiance?

Platan hefst á innslagi sem virðist vera vísun í titil plötunnar, en í þessu innslagi virðist vera vitnað í fortíð sveitarinnar og sögu hennar með einhverjum hrærigraut af fyrra efni eða einhverju slíku, því næst fylgir dauðatónn sjúkrahústækja. Platan springur svo í gang með laginu Vengance Is Mine sem hljómar eins og uppfærð útgáfa af efni Urban Discipline (þeirra besta efni) og því væntanlega ekkert nema gott í minni bók. Ég náði þessarri tengingu ekki fyrr en ég hlustaði fyrst á þessa plötu í heyrnatólum. Frá þessu frábæra lagi fer platan yfir í melódískari tóna lagsins Decay, sem gæti verið þeirra tilraun að ná til almennings, en þrátt fyrir léttari lagasmíði er mikið af Biohazard í laginu, fyrsta almennilega tilfinningin að Bobby Hambel sé komið í bandið heyrist í gítarsóló lagsins. Lagið sem greip mig strax í upphafi, Reborn, tekur við og bíður upp á allt sem gott Biohazard lag hefur: hraðinn og hráleikinn (ala Mata Leo) með smá poppívafi. – Frábært lag í alla staði. Maður heyrir vel í þessu lagi þroskan sem sveitarmeðlimir hafa gengið í gegnum þessi 20 ár, þó ekki nema bara líkamlega, þar sem raddsvið Billy G. hefur breyst gríðarlega mikið.

Gamla Biohazard grúvið er enn til og einnig fyrirfinnst í flestum lögunum, allt frá þessum rólegri og yfirveguðu lögum yfir í þessi harðari og grófari. Í fortíð sveitarinnar er líka til svo mikið af tilraunarstarfsemi, hvort sem það sé hipp hopp eða píanó, og sveitin nýtir sér sína reynslu á þeim sviðum til hins ýtrasta, nema hvað hér virðist það bara passa sveitinni einstaklega vel (ekki að það hafi ekki gert það áður). Mikið svakalega er líka gaman að heyra svona færan gítarleikara setja sína mynd á lögin með fyrirferðamiklum gítarsólóum hér og þar í lögunum, svona án þess að vera þreytandi eða yfirþyrmandi.

Það er heill hellingur af vel heppnuðum lögum á þessarri plötu, lög sem munu heilla alla sanna aðdáendur sveitarinnar. Þetta er platan sem átti að koma út strax á eftir Mata Leo eða New World Disorder. Platan er betri en ég þorði að vona, og hún batnar við hverja hlustun. Ég get því gert lítið annað en brosa út að eyrum á meðan ég loft-tromma, og loft spila öll hljóðfæri sveitarinnar en ætli sveitin hitti ekki beint í mark.

Þegar yfir heildina er litið er lítið hægt að segja annað en að sveitin hafi fullkomnað verkið með þessarri endurkomu. Það er því leiðinlegt að Evan Seinfeld bassaleikari og annar söngvari sveitarinnar hafi hætt í sveitinni strax eftir að upptökum lauk, því að með þetta efni í fartöskunni geri ég ekki ráð fyrir öðru en að sveitin geti haldið áfram að gleðja gamla kalla eins og mig. Frábær plata í alla staði.

Valli

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *