Achilla – Timeless (2013)

Eigin útgáfa –  2013
http://achillamusic.com/

Takið Ungverska söngkonu og ungversk/enskan trommara, Ítalskan gítarleikara og bassaleikara frá Slóvakíu. Hristið saman, eldið við háan hita í sirka 3 ár í London og berið fram heitt. Funheitt.
Einhvernveginn svona er uppskrift af hreinlega nokkuð góðum bræðingi sem að kom mér skemmtilega á óvart þegar ég smellti afurðinni Timeless í tækið og hækkaði hressilega í. Bræðingur af öllum mögulegum og ómögulegum áhrifavöldum, platan nær því samt að vera heilsteypt og persónuleg. Það vill oft vera að þegar að hljómsveitir reyna að koma inn öllum sínum áhrifavöldum að lagasmíðarnar missi marks og úr verði hrærigrautur af frösum sem auðheyrilega koma sitt úr hverri áttinni en ná engan vegin að mynda samstæða heild.
Hljómsveitarmeðlimirnir hafa greinilega gripið í hljóðfæri einu sinni eða tvisvar áður en upptökur fóru fram því að spilið er hreinlega frábært. Daniele Panza gítarleikari riffar eins og Mustaine þegar hann var á kokteilunum í gamla daga, samspil Edy á bassa og Pete Jean á trommur er unun á að hlýða. Talandi um Pete Jean, leggið þetta nafn á minnið, hann á bara eftir að verða rosalegur. Ofan á allt syngur (já, syngur, takið eftir) Martamaria eins og engill. Ég veit samt ekki alveg hvort að röddin hennar passi samt þessari tónlist. Hún minnir mig einhvernveginn á margar söngkonur án þess að minna samt á neina umfram aðra. Tarja Turunen, Amy Lee og í Wild Flower datt mér strax í hug Dolores O’Riordon úr Cranberries (Zombie, þið munið?). Einnig er hún stundum að reyna hluti sem hreinlega koma ekki vel út (til að mynda lokaöskrið í Fever og kaflar í The Devil’s Eyes). Allt í allt merkileg blanda en sem ég segi, akkúrat þessi tónlist finnst mér sem gæti grætt mikið á kraftmiklum rokksöngvara sem að myndi ryðja textanum harðar útúr sér. Röddin hennar er mjög góð en hún nýtur sín betur í hægari lögum (Pain). Hljóðfæraleikararnir hinsvegar… þar er hvergi veikan blett að finna.

Lögin eru sem fyrr sagði bara nokkuð góð en greinilega hefur allra mest verið lagt í útsetninguna á Wild flower. Ekkert lag stendur sérstaklega uppúr en mér finnst Hunted vera veikasta lagið, þau eru einhvernveginn að troða mestu inn í það og það nær hreinlega ekki að flæða þó að flestir frasarnir séu góðir. Ég hlakka til að heyra meira frá þessu fína bandi í framtíðinni.

Platan er gefin út á þeirra eigin vegum og er fáanleg á amazon.com og á vefsíðunni þeirra http://achillamusic.com/

Heimir Tomm

Skildu eftir svar