Iron Monkey kynna nýtt lag af 9-13

Breska þungarokksveitin Iron Monkey er komin saman aftur og sendir frá sér nýja breiðskífu 20. október næstkomandi, en skífa þessi ber nafnið 9-13. Sveitin hefur sent frá sér nýtt lag sem ber nafnið “Crown Of Electrodes” og er hægt að hlusta á lagið hér að neðan á meðan maður forpantar gripinn hér: http://bit.ly/IronMonkey

Hljómsveitin Katla. opinberar þriðja lagið af komandi plötu

Hljómsveitin Katla. skipuð þeim Einari Thorberg Guðmundssyni og Guðmundi Óla Pálmasyni hefur nú sent frá sér sitt þriðja kynningarlag, Dulsmál, af plötunni Móðurástin, sem gefin verður út 27. Október næstkomandi á heimsvísu. Óhætt er að segja alþjóðlega plötufyrirtækið Prophecy Productions leggi allt sitt traust á útgáfu hljómsveitarinnar, þrátt fyrir þá staðreynd að hún hefur aldrei leikið á sviði hingað til, hvorki hérlendis, né erlendis.
Ásamt sjálfri hljómplötunni er hægt að fá viðhafnarútgáfu með sérstakri ljósmyndabók með myndum eftir Guðmund Óla, og textar eru handskrifaðir af Einari.
Platan er sannur óður til íslenskrar náttúru og sögu þar sem fjallað er um íslenskt mannlíf nú og fyrr á öldum. Yrkisefnið er kannski ekki beinlínis nýmóðins, en að sögn Einars er þeim vinum slétt sama um það, bandið geti ekki yrkt um annað en það sem stendur hjarta þeirra næst. Dulsmál er eins og áður segir, þriðja lagið í röðinni, en áður hafa lögin Hyldýpi og Nátthagi verið gefin út í síðasta mánuði.

Kublai Khan á Gauknum á Hrekkjuvöku (31.okt)

Bandaríska harðkjarnasveitin Kublai Khan spilar hér á landi 31. október næstkomandi, en sveitin sendi nýverið frá sér plötuna NOMAD við miklar og góðar undirtektir. Það verður því gríðarlegt party 31. október (Hrekkjuvaka) í borg óttans (Reykjavík).


Grit Teeth með nýja plötu: Let it Be – ÖRVIÐTAL

Mikið hefur verið rætt um ágæti hljómsveitarinnar Grit Teeth, enda sveitin áberandi góð og skemmtileg tónleikasveit. Fyrir helgi sendi sveitin frá sér sína fyrstu breiðskífu og því við hæfi að spjalla aðeins við sveitarmeðlimi og kynnast sveitinni aðeins nánar. Ég sendi sveitinni nokkrar spurningar og Dagur söngvari og bassaleikari sveitarinnar svaraði um hæl…

Hverjir eru í Grit Teeth og hvenær (og hvernig) var sveitin stofnuð?
Grit Teeth samanstendur af mér (Degi), Herði, Birki og Jóni Má. Sveitin er stofnuð sennilega í kringum 2010 eftir að ég og Hörður höfðum verið saman í dauðarokksbandinu Offerings á Akureyri. Okkur langaði til að setja á laggirnar hardcore punk band með einhverjum grind áherslum. Við heyrðum af trommara frá Húsavík sem hét Birkir og fílaði Suffocation þannig við vorum ekki lengi að snara honum til okkar. Eftir að hafa spilað þrír saman í einhvern tíma fannst okkur tímabært að bæta við okkur gítarleikara til að þétta aðeins sándið og fengum því með okkur Jón Má. Hann hafði til þess að gera ekki fengist við þungarokk áður sem okkur fanst gefa skemmtilega nýja vídd.

Segið okkur aðeins nánar frá plötunni, hvað heitir hún og afhverju?
Platan heitir Let It Be og er nýkomin út á vínyl í gegnum útgáfufyrirtæki Ægis Sindra(Logn, World Narcosis o.fl) sem ber heitið Why Not? Plötur. Það voru mikil forréttindi að fá að vinna með Ægi sem er eins og allir vita eins pottþéttur náungi eins og hann er trommari. Þegar verið er að búa til tónlist eða aðra list er oftar en ekki meðvitað eða ómeðvitað verið að ‘fá lánað’ eða ‘stela’ konseptum. Ein af fyrstu plötum Sonic Youth heitir einmitt ‘Bad Moon Rising’ en mér fannst svolítið áhugavert konseptið með að ‘stela’ eða ‘fá lánað’ eitthvað sem maður nýtur ekkert endilega góðs af heldur bara ‘for the sake of it’. Þannig það konsept er að mörgu leiti stolið frá Sonic Youth. Seinna meir komumst við að því að The Replacements höfðu fengið nákvæmlega sömu hugmynd fyrir 35 árum og nefnt sína plötu líka ‘Let It Be’. Hefði ekkert á móti því að hafa bara stolið allri þeirri plötu því hún er ógeðslega góð.

Hvernig var upptökuferlið?
Upptökuferlið var óþarflega langt. Við fengum vin okkar og trommara Leif Örn Kaldal (Great Grief & Conflictions) til að taka okkur upp sem hann leysti af mikilli fagmennsku og þolinmæði. Upptökur á öllum rásum tók ákaflega langan tíma en hafðist undir rest. Við tók að finna einhvern til að mixa plötuna og var okkur þá bent í átt að Leigh Lawson sem rekur upptökuver í Reykjavík. Eins og með Leif er sannarlega óhætt að mæla með Leigh sem er mjög reyndur atvinnumaður í faginu og náði að koma öllum okkar áherslum til skila og rúmlega það.

Afhverju tók það svona langan tíma að gefa út ykkar fyrstu alvöru plötu?
Blanda af ýmsu. Við gátum verið svívirðilega latir en vildum einnig gera þetta almennilega. Auk þess höfum við allir verið í skóla, vinnandi á mjög misjöfnum tímum og verið í öðrum hljómsveitum en þetta hófst fyrir rest!

Mynd: Gunnar Ingi Jones
Mynd: Gunnar Ingi Jones

Við hverju má búast við af sveitinni á næstunni?
Það er erfitt að segja. Ég er farinn utan í nám til skemmri eða lengri tíma og Birkir er um borð í Ufsatralla RE á plokkfiskveiðum í Smugunni hálfan hluta af árinu. Framhaldið verður bara aðeins að skýrast á næstu mánuðum en vonandi getum við allavega hist og talið í nokkur lög saman.

Verða útgáfutónleikar?
Við setjum stefnuna á það allavega. Gæti orðið eitthvað púsluspil en vonandi getum við tilkynnt um útgáfutónleika fyrr heldur en síðar.

Hvað að gera í tilefni útgáfunnar?
Reyna að fylgja henni eftir sem best og að koma þessum eintökum af vínylnum út til vonandi sem flestra. Restin verður svo bara að skýrast.

Eruð þið í einhverjum öðrum hljómsveitum?
Já heldur betur. Hörður er með sitt proggaða dauðarokksprójekt í Show Me Wolves og meðlimur í eyðimerkurrokksbandinu Volcanova. Jón Már býr til huggulega músík með Four Leaves Left og svo aðeins minna huggulega músík með Une Misére en það verður mikið að gera hjá þeim næstu misseri. Sjálfur er ég í poppbandinu X Heart og Birkir hefur getið sér gott orð sem klarinettuleikari í polkahljómsveitum borgarinnar.

LEGEND – Örviðtal við Krumma

Nú styttist í að hljómsveitin LEGEND sendi frá sér plötuna Midnight Champion, og því við hæfi að komast að því hvað er að gerast hjá Krumma og restinni sem er LEGEND:

Við erum búnir að senda frá okkur tvö lög af næstkomandi plötu sem einskonar “singles” við mjög góðar undirtektir. Við tókum upp tónlistarmyndband um daginn sem var frábært ferli. Þar fékk ég mjög hæfileikaríkan hóp til að koma saman og gera bíó. Þetta er nefnilega stuttmynd og tónlistarmyndband. Það verður frumsýnt á hinu virta rokk tímariti REVOLVER Magazine þann 27.Sept við lagið Midnight Champion af samnefndri breiðskífu. Það telst vera mikill árangur í mínum bókum þar sem eitt stærsta rokk tímarit heims vill styðja við lítt þekkt band einsog okkur. Við erum með sterkan aðdáendahóp um allann heim og erum við mjög þakklátir fyrir það. Við höfum unnið hörðum höndum að koma þessari hljómsveit á þann stað sem hún er í dag. Hún er ekki sérlega þekkt hér á landi því við höfum helst verið að koma henni á framfæri erlendis. Erum á samning við Kanadískt plötufyrirtæki sem hjálpar okkur að breiða út tónlistina okkar. Undanfarið hef ég verið á fullu að opna vegan matsölustað Veganæs með kærustunni minni Linneu og Erni Tönsberg. Erum í miðjum klíðum að fá tilskilin leyfi og að byggja eldhúsið/matsölustaðinn sem verður staðsettur inná Gauknum sem einskonar diner. Einnig er ég Linnea og Frosti að spila í hljómsveit sem heitir Döpur sem spilar einhverskonar 90´s sludge noise rock. Stefnum á að taka upp plötu í Desember. Spennandi tímar framundan.

Nú eru liðin 5 ár frá því Fearless var gefin út, hvað hefur breyst hjá LEGEND á þessum tíma?
LEGEND með fullskipað live band og meðlimir innanborðs eru Bjarni (Mínus), Frosti (Klink, Döpur) og Dáni (Himbrimi). Við höfum verið að ferðast mikið með hljómsveitinni að spila á hinum og þessum klúbbum og tónlistarhátíðum víðsvegar um heim. Hljómurinn hjá LEGEND hefur breyst töluvert. Höfum þróast úti meiri post metal með hljóðgervlum og trommuheilum. Og tek ég því fagnandi.

Hvernig er Midnight Champion öðru efni sem þú hefur unnið af?
Þetta er mín metnaðarfyllsta hljómplata til þessa. Það var allt lagt í þessa plötu varðandi lagasmíði, textagerð, útsetningar, upptökur og hljóðblöndun og plötukápu. Þetta er plata sem ég er búinn að vera með í hausnum á mér í svona 15 ár. Loksins fær hún að líta dagsins ljós.

Hvenær fáum við loksins að heyra eitthvað af þessu nýja efni?
Það eru þegar tvö lög komin út sem þú getur heyrt á youtube og bandcamp.
Skelldu þér á youtube rásina okkar og legðu við hlustir. Mæli með því að for-panta gripinn í leiðinni á bandcamp síðunni okkar.

Hvenær verður platan gefin út af hver sér um útgáfuna?
Kanadíska plötufyrirtækið Artoffact Records sér um útgáfu. Hún kemur út Föstudaginn 13.Október út um allann heim. Og verður hún gefin út á tvöföldum vínil, kassettu og geisladisk.

Verður haldið upp á útgáfuna með útgáfutónleikum, eða tónleikaferðalagi?
Við förum á tónleikaferðalag strax á næsta ári til að fylgja henni eftir og síðan festival túr um sumarið. Er enn að hugsa um hvort við munum halda útgáfutónleika hér heima. Það kemur í ljós síðar.

Hver eru svo framtíðarplön LEGEND?
Halda áfram að semja og gefa út tónlist. Spila á tónleikum og dreifa út boðskapinn. Búa til tónlist af einlægni, sannfæringu og innlifun. Vera trúir sjálfum okkur og fylgja ekki tískustraumum.

(bónus spurning, eitthvað að gerast hjá mínus?)
Nei voða lítið. Við stefnum á að gefa út okkar fimmtu plötu KOL kannski á næsta ári en ég get ekki lofað neinu. Ég er með alla plötuna á hörðum disk hér heima og þarf eiginlega að fara kíkja á Leigh vin minn sem var aðstoðarupptökustjóri á Midnight Champion að fara yfir þetta og byrja að hljóðblanda í rólegheitum. Nokkuð mögnuð góð plata þótt ég segi sjálfur frá. Kannski höldum sérstaka one off tónleika á næsta ári. Hver veit?

Vulture Industries kynna plötuna Stranger times í heild sinni.

Í dag mánudaginn 18. september er hægt að hlusta á nýju plötu í heild sinni á netinu, en það er Season of Mist útgáfan sem gefur út efni sveitarinnar. Platan verður formlega gefin út núna á föstudaginn. Sveitin hafði eftirfarandi um nýju plötuna að segja:

” So…. after 4 years of infancy, our baby is now all grown up and ready to face the world. We hope that everyone will be nice to our youngest, as it is very precious to us. It is a tender, delicate thing, but can also be full of rage and prone to sudden changes in temper and emotion. We have tried to raise it as a nice and positive child full of positivity and hope for the future. Alas it turned out predisposed to gloomy moods, but at the bottom we promise it is good. Therefore, it is important you keep an open mind, and get to know it properly before brushing it of as a weirdo.”

Tékkið á sveitinni á netinu:
www.facebook.com/vultureindustries/

http://smarturl.it/VultureTimes

www.facebook.com/seasonofmistofficial

Cloak kynna lagið “To Venomous Depths / Where No Light Shines” af tilvonandi plötu.

Bandaríska rokksveitin Cloak sendir frá sér nýja breiðskífu að nafni “To Venomous Depths” 10. nóvember næstkomandi, en harðkjarni hefur fengið leyfi til þess að frumflytja nýtt lag af umræddri skífu. Lagið hefur fengið nafið “To Venomous Depths / Where No Light Shines”.

Hljómsveitin Cloak segir að helstu áhrif sveitarinnar komi frá hljómsveitum á borð við Dissection, Deep Purple, Og Fields Of The Nephilim, en sveitin hefur verið borið saman við sveitir á borð við Tribulation, Watain, Og Young And In The Way.

Á plötunni verður að finna eftirfarandi lög:
A Hlið: To Venomous Depths/Where No Light Shines / Within The Timeless Black
B Hlið: The Hunger / Beyond The Veil / Death Posture
C Hlið: In The Darkness, The Path / Forever Burned
D Hlið: Passage / Deep Red

www.facebook.com/cloakofficial
http://smarturl.it/CloakVenomousDepths
www.facebook.com/seasonofmistofficial

Zornheym senda frá sér Where Hatred Dwells And Darkness Reigns

Sænska sinfóníuþungamálmsbandið Zornheim sendir frá sér nýja breiðskífu að nafni “Where Hatred Dwells And Darkness Reigns”, en sveitin er samansett af Zorn sem áður spilaði í hljómsveitinni Dark Funeral. Með áhrifavalda á borð við Dissection, Dimmu Borgir og King Diamond blandað saman við stengjahljóðfæri og kór má búast við heljarinnar blöndu.

Í hljómsveitinni er einnig að finna Bendler (úr Facebreakers) Scucca og Angst (úr Diabolical).

Nýja platan verður gefin út 15. september næstkomandi af Non Serviam Records útgáfunni, en mun í kjölfarið spila á tónleikum á Motocultor Metal hátíðinni í Frakklandi.

Lagalisti plötunnar:
1. The Opposed
2. Subjugation of the Cellist
3. A Silent God
4. Prologue to a Hypnosis
5. Trifecta of Horrors
6. …and the Darkness Came Swiftly
7. Whom the Night Brings…
8. Decessit Vita Patris
9. Hestia

Nánari upplýsingar
Facebook: https://www.facebook.com/zornheym
Twitter: https://twitter.com/zornheym
Instagram: https://www.instagram.com/zornheym_official

Ný breiðskífa Cannabis Corpse komin á netið!

Hljómsveitin Cannabis Corpse er tilbúin með nýja breiðskífu að nafni Left Hand Pass, en platna sjálf verður gefin út á morgun, föstudaginn 8. september.

Hljómsveitin lét eftirfarandi liggja eftir sig um nýju plötuna:

“What’s cracking all y’all weed smoking freaks out there!? I am very happy to serve up another gore soaked platter of marijuana murder music! Cannabis Corpse has been around for over a decade now. We are thrilled with how this new album has turned out and hope everyone can tell that we are genuine lovers of old school death metal brutality. Enjoy the new album fiends!”


www.facebook.com/Cannabis-Corpse-Official-104903899597371/
http://smarturl.it/CannabisLeftHand
www.facebook.com/seasonofmistofficial

Katla kynnir nýtt lag: Nátthagi + Örviðtal (UPPFÆRT!)

Íslenska rokksveitin Katla sendir frá sér plötuna Móðurástin 27. október næstkomandi, en í sveitinni eru þeir Guðmundur Óli Pálmason (fyrrum trommari Sólstafa) og Einar Thorberg Guðmundsson (Fortíð, Potentiam), en í dag frumflytur hljómsveitin lagið Nátthagi af umræddri skífu á sérvöldum miðlum um allan heim (Harðkjarni!). Það er því við hæfi að skella nokkrum spurningum á Einar og sjá hvað hann hefur um þetta allt að segja, en áður en það er við hæfi að spyrja fyrst út í nýja lagið..

Í dag fær almenningur að heyra lagið Nátthafi af plötunni Móðurástin, um hvað fjallar lagið?

Ef ég lít á Móðurástina sem eins konar ferðalag í gegn um árstíðir (sem ég geri gjarnan), þá er Nátthagi klárlega hásumar plötunnar. Lagið er fullt af jákvæðri orku og eljusemi. Ég bað Gumma um að semja einhvern uppbyggjandi texta við þetta og hann var sammála því að annað væri varla hægt. Hann skrifaði Nátthaga textann sem fjallar um ljósið og vonina sem fylgir nýjum degi, þegar sólin endurfæðist með vorinu og líf kviknar á ný. Við erum svolítið týndir í horfnum tímum og hér á öldum áður hefur vorið að sjálfsögðu haft allt að segja um afkomu fólks á Íslandi. Þetta lag er tónfræðilega séð, framhald af fyrsta laginu sem við gáfum út og heitir Kaldidalur, en tilfinningin og andrúmsloftið eru algerlega andstæð.

Hver prýðir forsíðu plötunnar Móðurástin og er þetta þema plata?

Forsíðufyrirsætan heitir Fanney Ósk Pálsdóttir og prýðir öll þrjú coverin okkar, ss. fyrir vínilinn, geisladiskinn og aukaútgáfuna. Svo minnst sé á aukaútgáfuna, þá samanstendur hún af ljómyndabók með myndum eftir Gumma og aukadisk með endurhljóðblöndun á öllum lögunum frá hinum ýmsu listamönnum. Fanney er líka framan á umslaginu á Ferðalok smáskífunni okkar sem við gáfum út 2016. Fyrir utan reynsluna sem hún hefur frá fyrri fyrirsætustörfum þá var hún líka nokkuð augljóst val þar sem hún og Gummi eru par.

Hún táknar þarna ungu móðurina sem þarf að bera út barnið sitt. Það var raunveruleiki sem þekktist á Íslandi þegar ekki var nóg að bíta og brenna. Oft voru það þjónustustúlkur eða þá þrælar sem höfðu eignast óvelkomin börn húsbónda sinna.

Rauði þráðurinn í gegn um plötuna er Ísland og íslensk náttúra og aftur á móti fólkið í landinu, kynslóðir og arfleifð. Náttúran er einn helsti mótunarvaldur okkar þjóðarsálar og við höfum báðir mikinn áhuga á samtvinningu hennar við íslenska sögu og menningu.

Platan er tileinkuð fjölskyldum okkar og við héldum miklu af vinnunni innan hennar. Fyrir utan það sem ég áður nefndi, þ.e. ljósmyndir eftir Gumma og módelið Fanneyju, get ég talið upp handskrift eftir sjálfan mig, gestasöng systur minnar Sylvíu Guðmundsdóttur í titillaginu og upptöku frá 1934 eftir langömmu hans Gumma í útgangspunkti titillagsins.

Hvernig kom hugmyndin um að stofna Kötlu?

Eins og margir vita var Gumma bolað út úr eigin hljómsveit sem hann átti þátt í að stofna og hafði starfað við í 20 ár. Það sem sjálfsagt færri vita er að við Gummi höfum unnið saman að tónlist áður, ekki bara með hljómsveitinni Potentiam heldur höfðum við einnig unnið að verkefni sem náði aldrei af stað vegna mikilla anna með öðrum hljómsveitum (og þá aðallega hljómsveitinni hans). Ég man eftir spjalli við hann þar sem hann sagðist vera hættur að gera tónlist. Ég sagði honum að hann þyrfti ekki að hætta að skapa tónlist þótt hann kannski myndi ekki njóta sömu velgengni og áður. Hann myndi alltaf hafa sköpunarþörf. Ég veit nú ekkert um hvort það hafði einhver áhrif á þetta eða ekki, en hann var allavega stuttu síðan farinn að hóa saman í nýja hljómsveit. Hann segist sjálfur ekki geta setið aðgerðalaus með fullt af hugmyndum í höfðinu. Ég skil þá tilfinningu vel. Þetta ferli bara einhvernveginn endaði þannig að við stóðum eftir tveir inni í hljóðveri og það hefur reynst mjög vel þar sem við höfum mjög svipaðar hugmyndir um hvað við viljum gera og hvernig við viljum haga því.

Hvernig gengur að vinna saman, þegar þið eruð ekki í sama landinu?

Þegar ég bjó í Noregi, þá unnum við saman að hugmyndum á netinu. Við vorum með alls konar aðferðir við það en það sem kannski hjálpaði mest var heimastúdíóið mitt þar sem ég gat demóað lögin. Ég ferðaðist til Íslands fyrir upptökur á plötunni og tók líka sumt upp erlendis (eins og gítara og bassa). Núna er ég búsettur aftur á Íslandi en ég er ekkert svo viss um að það komi til með að breyta neitt rosalega miklu um það hvernig við vinnum saman. Við erum báðir uppteknir með vinnu, nám og fjölskyldu þannig að við skipuleggjum flest okkar símleiðis eða í gegn um netið.

Hvenær má eiga von á tónleikum eða tónleikaferðalagi?

Það er mikið búið að spyrja okkur hvenær við spilum tónleika. Það er líka búið að bjóða okkur hingað og þangað. Við höfum í fullri hreinskilni ekki nennt að spá í því. Sköpunin er það sem við þrífumst á og tónleikar eru eitthvað sem krefst mikils tíma og vinnu en gefur ekki það sama af sér. Auðvitað gætum við dottið í gírinn hvenær sem er og ákveðið að setja eitthvað saman en sú umræða er enn á algeru frumstigi.

Hvernig myndið þið lýsa ykkur tónlistarlega séð?

Á Móðurástinni höfum við verið að kanna alls konar tónlist og stíla. Platan okkar sveiflast frá Doom metal yfir í djazz. Rock, Black Metal, Ambient og meira að segja raftónlist með hjálp meistara Halldórs Á. Björnssonar úr hljómsveitinni Legend sem við köllum stundum hinn ómeðvitaða þriðja meðlim Kötlu. Tónlistin er þung og melódísk. Ég myndi aldrei láta mér detta það til hugar að fara að kalla hana einhverju einu nafni. Það fyndist mér eins og að skella henni inn í einhvern ramma sem við þyrftum þá að vinna innan í framvegis. Það sem er spennandi við þetta hjá okkur er að við vitum í raun ekkert hvað gerist næst.

 

Fyrir áhugsama þá er hægt að forpanta gripinn á hér í ýmsum útgáfum : Katla – Móðurástin